Vegna átaks um fjölgun karlkyns hjúkrunarfræðinga
Nokkur umræða hefur skapast um fyrirhugað átak Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um að fjölga karlmönnum í hjúkrunarfræði. Þar er fyrirhugað að fara þá leið að gera karlmönnum sem klára námsár í faginu kleift að sækja um styrk fyrir 75.000 króna skráningargjaldi í Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Einhverjir félagsmenn hafa spurt hvort hér sé ekki verið að brjóta jafnréttislög, aðrir spurt af hverju þetta fé sé ekki frekar notað til að hækka laun og enn aðrir spurt hvers vegna félagsgjöld séu notuð í átak sem þetta.
Félagið hefur tekið saman lista með algengum spurningum og svörum við þeim.
Uppræta þarf kynbundið náms- og starfsval, frelsa karlmenn undan gömlum staðalímyndum og fordómum og kynna hjúkrun fyrir körlum.
Skemmst er frá því að segja að átak sem þetta er nauðsynlegt, enda sýna rannsóknir að blandaðir vinnustaðir skila bestum árangri og starfsfólki líður betur. Grípa þarf til margvíslegra aðgerða til að koma í veg fyrir skort á hjúkrunarfræðingum í framtíðinni. Laun og vinnuaðstæður skipta auðvitað miklu máli, en jafnframt þarf að grípa til sértækari aðgerða eins og að sýna fram á og kynna að hjúkrun henti báðum kynjum. Uppræta þarf kynbundið náms- og starfsval, frelsa karlmenn undan gömlum staðalímyndum og fordómum og kynna hjúkrun fyrir körlum.
Fundað var með framkvæmdastýru Jafnréttisstofu áður en lagt var af stað og kom þar m.a. fram að samkvæmt jafnréttislögum má beita jákvæðri mismunum ef hallar á annað kynið, t.d. með því að veita námsstyrki til þess kyns sem hallar á.
Stöðugt er unnið að því að hækka laun félagsmanna en hér verður að gæta þess að bera ekki saman epli og appelsínur enda útilokar ekki sértæk aðgerð á kynjasviði aðgerðir á sviði launa- og aðstöðumála. Kjara- og réttindasvið félagsins vinnur stöðugt að hækkun launa en félagið er bundið gerðardómi frá 2015 sem rennur ekki út fyrr en í mars 2019. Lítið sem ekkert gengur í endurnýjun stofnanasamninga við hinar ýmsu stofnanir. Eini árangurinn sem náðst hefur er gagnvart Landspítala með framkvæmd Hekluverkefnisins. Aðrar stofnanir bera fyrir sig fjárskorti.
Allt sem félagið gerir er greitt með félagsgjöldum. Þau eru tekjustofn þess. Fyrri aðgerðir hafa verið greiddar með félagsgjöldum félagsmanna. Þaðan koma þeir fjármunir sem félagið notar í starfsemi sína eins og t.d. málþing, kjaramál, laun, vefsíðu, námskeið, skrifstofukostnað, fundarhöld, tímarit, ráðstefnur og erlent samstarf.
Fleiri spurningar og svör varðandi málið má finna hér fyrir neðan.
Spurningar og svör
Ein sértæk aðgerð sem vekur athygli, og hefur vakið athygli síðustu vikur, er að Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga býðst til að greiða skráningargjöld karla sem fara í hjúkrun. Það er ódýr leið sem getur skilað miklum árangri. Þá skiptir máli að benda á að ef þessi leið virkar ekki, þá kostar hún heldur ekkert. Ef hún hins vegar virkar, þá er hún ódýr en ávinningurinn verður mikill. Félagið gerir sér að sjálfsögðu grein fyrir að skráningargjöldin ein og sér munu ekki vera vendipunktur eða skipta höfuðmáli. Umræðan gerir það hins vegar. Þetta er táknræn aðgerð, yfirlýsing, sem vekur athygli. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga er ekki fyrsta félagið til að fara í svona aðgerðir. Nefna má að Orkuveitan styrkti kvenmenn í iðnnám og verkfræði og Félagsþjónustan og Félag leikskólakennara hefur veitt karlmönnum styrk til náms.
Að sjálfsögðu var þetta mál kannað til hlítar áður en farið var af stað. Meðal annars var fundað með framkvæmdastýru Jafnréttisstofu vegna málsins þar sem kom fram að samkvæmt jafnréttislögum má beita jákvæðri mismunum ef hallar á annað kynið, t.d. með því að veita námsstyrki til þess kyns sem hallar á.
Lög no. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla 24. gr. 2. mgr. "Hvers kyns mismunun á grundvelli kyns, hvort heldur bein eða óbein, er óheimil. ... Þó teljast sértækar aðgerðir ekki ganga gegn lögum þessum." og 2 gr. 7. Liður "Sértækar aðgerðir: Sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlað er að bæta stöðu eða auka möguleika kvenna eða karla í því skyni að koma á jafnri stöðu kynjanna á ákveðnu sviði þar sem á annað kynið hallar. Þar getur þurft tímabundið að veita öðru kyninu forgang til að ná jafnvægi."
http://www.althingi.is/lagas/nuna/2008010.html
Unnið hefur verið að endurnýjun á stofnanasamningum fyrir hönd hjúkrunarfræðinga á ýmsum stofnunum undanfarin ár. Lítið sem ekkert gengur þrátt fyrir ýmsar hugmyndir Fíh til að bæta laun, starfskjör, vinnutíma og vinnuumhverfi hjúkrunarfræðinga. Eini árangurinn sem náðst hefur er gagnvart Landspítala. Þar er í gangi svonefnt Hekluverkefni sem gengur út á að minnka breytilega yfirvinnu, hækka dagvinnulaun og minnka vinnuskil hjúkrunarfræðinga. Aðrar stofnanir bera fyrir sig fjárskorti.
Staðan er einfaldlega sú að stjórnvöld eru ekki tilbúin til þess að forgangsraða fjármunum í laun hjúkrunarfræðinga þrátt fyrir að augljóst sé að hærri laun og betra starfsumhverfi myndi fjölga hjúkrunarfræðingum í starfi. Þegar gerðardómur rennur út 2019 skapast ný tækifæri.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga með stuðningi Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands. Auk þess hefur Jafnréttisstofa verið upplýst um málið, sem telur þetta standast lög no. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (24. gr. 2. mgr. "Hvers kyns mismunun á grundvelli kyns, hvort heldur bein eða óbein, er óheimil. ... Þó teljast sértækar aðgerðir ekki ganga gegn lögum þessum." og 2 gr. 7. Liður "Sértækar aðgerðir: Sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlað er að bæta stöðu eða auka möguleika kvenna eða karla í því skyni að koma á jafnri stöðu kynjanna á ákveðnu sviði þar sem á annað kynið hallar. Þar getur þurft tímabundið að veita öðru kyninu forgang til að ná jafnvægi.")
http://www.althingi.is/lagas/nuna/2008010.html
Það hefur sýnt sig að ef það á að höfða til karla þarf að beina aðgerðum til þeirra beint. Ýmis lönd hafa farið í átak til að fjölga körlum í hjúkrun og hafa þau verið ýmis konar. Reynslan hefur verið sú að átök sem gefa ósanna eða óraunhæfa mynd af starfinu gagnast ekki. Það þarf því að kynna þeim nám og störf hjúkrunarfræðinga eins og þau eru en ekki búa til falskar myndir. Því var átakið Karlmenn hjúkra byggt á raunveruleikanum þ.e. körlum sem eru hjúkrunarfræðingar. Næsta skref sem er að bjóða þeim styrk til náms er því eðlilegt framhald af því átaki og þekkingu okkar á almennum átökum sem lítið gagnast. Háskólinn á Akureyri er samhliða þessu að að vinna í öðrum þáttum, eins og þátttöku í samnorrænni rannsókn og setja upp mentorkerfi, svo eitthvað sé nefnt.
Kostnaður verður lítill, enda skráningargjald háskólanna kr. 75.000. Því verður þetta alltaf mun ódýrara en allar tegundir auglýsinga og ímyndaherferða. Stærsti kosturinn við þetta átak er að kostnaðurinn helst í hendur við árangur. Verði enginn árangur, hlýst enginn kostnaður. Sé reiknað með að tíu karlmenn hefji nám í hjúkrunarfræði árlega á næstu fimm árum og engin afföll verði, er áætlaður heildarkostnaður 15 milljónir á þeim 8 árum sem það tæki þennan hóp að ljúka námi. Til samanburðar má nefna að ímyndarátakið 2008 Þegar mest á reynir, kostaði á verðlagi dagsins í dag tæpar 18,2 milljónir.