Betri vinnutími
Breyttur vinnutími tók gildi 1. janúar 2021 fyrir dagvinnufólk og mun taka gildi 1. maí 2021 fyrir vaktavinnufólk.
Á vefnum betrivinnutimi.is er haldið utan um helstu upplýsingar og fréttir varðandi styttingu vinnuvikunnar.
betrivinnutimi.is betrivinnutimi.is english version námskeið
Fréttir af betri vinnutíma
Í kjarasamningum var samið um styttingu á vinnutíma dagvinnufólks. Stytting vinnuvikunnar hefur verið baráttumál Fíh og er því afar ánægjulegt að þessi árangur hafi náðst.
Markmið breytinganna:
Meginmarkmið breytinganna hjá dagvinnufólki eru að bæta vinnustaðamenningu og nýtingu vinnutíma. Með umbótasamtali má auka skilvirkni, bæta þjónustu og tryggja betur gagnkvæman sveigjanleika starfsfólks og stofnana, sem og samræma betur vinnu og einkalíf.
Í síðustu kjarasamningum var samið um breytingar á vinnutíma vaktavinnufólks (Fylgiskjal 2). Um er að ræða mestu breytingar á vinnutíma vaktavinnufólks í meira en 40 ár. Verkefnið sem snýr að breyttum vinnutíma vaktavinnufólks er samstarfsverkefni ASÍ, BHM , BSRB og Fíh fyrir hönd launafólks og ríkis, Reykjarvíkurborgar og sveitarfélaga sem laungreiðenda.
Markmið með breytingum á vinnutíma er að stuðla að betri heilsu og öryggi starfsfólks og auka möguleika þess til að samþætta betur vinnu og einkalíf þannig að störf í vaktavinnu verði eftirsóknarverðari. Breytingunum er einnig ætlað að auka stöðugleika í mönnun, draga úr yfirvinnu ásamt því að bæta öryggi og þjónustu við almenning. Megin kjarninn í breytingum á vinnutíma vaktavinnumanna er stytting vinnuvikunnar úr 40 klst. í 36 klst. og umbreyting verðmæta þar sem meðal annars fjármunir sem farið hafa í greiðslur matar- og kaffitíma eru nýttir í aukið vægi vinnustunda um kvöld, helgar og nætur þannig að hægt sér að stytta vinnuvikuna niður í allt að 32 stundir, hærra vaktaálag á nóttunni auk sérstaks vaktahvata. Breytingarnar eru til þess fallnar að auka möguleika vaktavinnufólks til að vinna hærra starfshlutfall en áður og hækka þannig tekjur sínar.
Markmið breytinganna:
- auka öryggi starfsfólks og skjólstæðinga
- vaktavinna verði eftirsóknarverðari
- samræma betur vinnu og einkalíf
- vinnutími og laun taki betur mið af vaktabyrði og verðmæti staðins tíma
- bæta andlega, líkamlega og félagslega heilsu starfsfólks
- bæta starfsumhverfi
- stytta vinnutíma
- auka stöðugleika í mönnun
- gera launamyndunarkerfi einfaldara og gagnsærra
- draga úr þörf og hvata til yfirvinnu
- auka hagkvæmni í nýtingu fjármuna
- bæta gæði opinberrar þjónustu