Betri vinnutími: Vaktareiknir
18. janúar 2021
Á vefnum betrivinnutimi.is er vaktareiknir, en reiknirinn gefur vaktavinnufólki kost á að fá glögga mynd af áhrifum kerfisbreytinga í vaktavinnu sem taka gildi 1. maí 2021, bæði hvað varðar vinnumagn og laun út frá fyrirliggjandi forsendum hvers og eins.
VAKTAREIKNIR
Vaktareiknirinn miðast við mánaðartímabil. Fullt starf á mánuði í núverandi kerfi er 173,33 tímar og 80% starf um 139 tímar.
Hér neðanvið er leiðbeinandi tafla til að sjá hvað unnar klukkustundir eru margar í dag miðað við starfshlutfall.
Starfshlutfall | Klukkustundir |
10% | 17,3 |
20% | 34,7 |
30% | 52,0 |
40% | 69,3 |
50% | 86,7 |
60% | 104,0 |
70% | 121,3 |
80% | 138,7 |
90% | 156,0 |
100% | 173,3 |
Vaktareiknirinn:
- veitir sýn á áhrif kerfisbreytingarinnar á laun
- er ekki hugsaður til að setja inn rúllur
- tekur mið af því að fækka öllum tegundum vakta, þ.á.m. álagsvöktum, þegar um 100% starfsmann er að ræða. Það er því gert ráð fyrir hlutfallslega færri álagsvöktum eftir breytingarnar en nú er.
- gerir ráð fyrir að fjölga stundum í dagvinnu þegar starfsmaður í hlutastarfi er að auka við sig starfshlutfall. Það er því lágmarksviðbót sem gert er ráð fyrir í hækkun launa. Hann fjölgar ekki unnum stundum utan dagvinnumarka, eykur eingöngu starfshlutfallið.
Þetta er verkfæri sem miðar við ákveðnar forsendur. Því er gott að skoða dæmin sem búin hafa verið til sérstaklega og útskýra hvern þátt.
- Vaktahvati
- Stytting v/vægi vakta
- Vinnuframlag
- Fjöldi vakta
- Meðaltímakaup
- Heildarlaun
Dæmi um hjúkrunarfræðing í vaktavinnu:
Athugið að talað er um betri vinnutíma vaktavinnustarfsmanna þar sem að kerfisbreytingunni er ekki beint ætlað að stytta vinnutíma hlutastarfsfólks, heldur gera þeim kleift að starfa sama tímafjölda og það gerir í dag nema í hærra starfshlutfalli. Ef að fólk kýs að vinna minna en það gerir í dag þá leiðir kerfisbreytingin ekki til hærri launa, heldur eiga þau að standa í stað. Ástæðan fyrir því að vaktareiknirinn getur sýnt lækkun launa er sú að hann gerir ráð fyrir að álagsvöktum muni fækka sem nemur styttingunni. Það er þó ekki víst að verði raunin. Ef þú ert í hlutastarfi og vinnur sama magn af álagsvöktum og áður en heldur óbreyttu starfshlutfalli, þ.e. tekur styttinguna, þá eiga launin þín að standa í stað, ekki lækka. Hjá hlutastarfsfólki sem eykur við sig starfshlutfall á grundvelli styttingar vinnutímans og er mögulega með vaktahvata þá eiga launin að hækka. Fyrir starfsfólk í 100% starfi í vaktavinnu leiðir kerfisbreytingin til styttingar vinnutíma án þess að það hafi áhrif á laun.