Hvernig breytist helgidagafrí með betri vinnutíma vaktavinnumanna?
12. febrúar 2021
- Ef þú ert að safna vetrarfríi í dag, heldur þú því áfram þangað til kerfisbreytingin tekur gildi þann 1.maí 2021.
- Það vetrarfrí sem þú átt inni þegar kerfisbreytingin tekur gildi helst inni í kerfinu og gilda um það sömu reglur. Ef uppsafnað vetrarfrí hefur ekki verið tekið út árið 2022 er það greitt út líkt og áður.
Í hverju felst breytingin?
Frá 1. maí 2021, mun verða breyting á helgidagafríi. Árleg vinnuskylda hjúkrunarfræðinga í vaktavinnu á reglubundnum vöktum verður að jafnaði sú sama og hjá hjúkrunarfræðingum í dagvinnu. Vinnuskylda vaktavinnufólks lækkar því um 7,2 vinnuskyldustundir miðað við fullt starf vegna hvers sérstaks frídags og stórhátíðardags, skv. gr. 2.1.4.2, sem falla á mánudag til föstudags.
Það þýðir að þegar að rauðir dagar bera upp á virka daga þá styttast jafnframt vinnuskil hjúkrunarfræðinga í vaktavinnu þann mánuðinn miðað við fjölda frídaga. Skýringarmynd má sjá hér.
Hvert er markmið breytinganna?
Markmið með jöfnun vinnuskila er að gera hjúkrunarfræðingum í vaktavinnu kleift að taka út frí jafnóðum vegna styttri vinnuskila þegar rauðir dagar falla á virkan dag. Kostir þess eru að þeir ná hvíld og endurheimt með reglubundnum hætti í stað þess að geta tekið út frí ári eftir að hafa áunnið sér slíkt.
Er hægt að safna upp frídögum vegna vinnu á sérstökum frídögum?
Hjúkrunarfræðingar geta áfram óskað eftir því að safna upp tímum í vinnuskil vegna sérstakra frídaga og stórhátíðardaga. Óski hjúkrunarfræðingur eftir því skal hann tilkynna sínum yfirmanni um það fyrir framlagningu vaktskrár þegar ávinnsla á sér stað. Yfirmanni er skylt að verða við óskum starfsmanns enda verði því viðkomið vegna starfsemi stofnunar.
Dæmi:
Hjúkrunarfræðingur óskar eftir því að safna upp vinnuskilum vegna frídaga í apríl til úttektar vegna fyrirhugaðrar afmælisferðar í september. Hægt er að verða við því starfseminnar vegna og safnar hjúkrunarfræðingur upp vinnuskilum sem nemur 4*7,2 klst. = 28,8 klst. Um er að ræða frídaga sem falla á skírdag, föstudaginn langa, annan í páskum og uppstigningardag. Vinnuskil hans í apríl verða þá 36 klst. á viku, án þess að tekið sé tillit til vægi vinnuskyldustunda, eða sú sama og ef ekki væru rauðir dagar sem bæru upp á virka daga. Hjúkrunarfræðingur er þá + 28,8 klst. í vinnuskilum eftir apríl mánuð sem hann mun jafna út í september.