Upplýsingar til félagsmanna Fíh vegna COVID-19
Mikilvægt er að gæta að réttindum launafólks á meðan COVID-19 faraldurinn gengur yfir. Fíh hefur tekið saman algengar spurningar og munum við bæta við spurningum eftir því sem tilefni er til.
Á vef landlæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, covid.is, er að finna ýmsar upplýsingar sem tengjast heimsfaraldrinum. Þar má til dæmis finna upplýsingar um hvernig skal haga sér í sóttkví og samkomubanni, hvernig forðast má smit og fleira.
Sumar spurningar eru þess eðlis að ekki er hægt að svara þeim með einföldum hætti og þarf að skoða sérstaklega. Félagsmönnum er bent á að hafa samband við kjarasvid@hjukrun.is í slíkum tilfellum.
Spurt og svarað COVID-19
Ef þú ert veik/ur í einangrun átt þú sama rétt á launum og þú ættir ef þú værir frá vinnu vegna almennra veikindaforfalla. Kjarasamningsbundinn veikindaréttur er mismunandi eftir því hvort þú ert opinber starfsmaður eða vinnur á almennum vinnumarkaði og miðar einnig við að þú hafir ekki verið búin/n að fullnýta rétt til launa í veikindaforföllum vegna fyrri veikinda. Í slíkum tilfellum getur þú átt rétt á greiðslum frá sjúkrasjóð Fíh.
Já, þurfi starfsmenn að sæta sóttkví eiga þeir rétt á launum. Réttindi til launa eru mismunandi eftir því hvar fólk vinnur eins og sjá má á myndinni hér neðanvið. Hægt er að smella á myndina til að stækka.
Þeir starfsmenn sem fara í sjálfskipaða sóttkví (þ.e. ákvörðunin er eingöngu þeirra sjálfra) eru launalausir eða þurfa að taka orlofsdaga á tímabilinu. Þeim sem eru í þessum hugleiðingum er ráðlagt að hafa samband við vinnuveitanda og tryggja að litið sé á fjarvistina sem leyfi en ekki riftun á ráðningarsamningi.
Ákvörðun um sóttkví er tekin á grundvelli sóttvarnarlaga af viðeigandi yfirvöldum. Óski vinnuveitandi eftir því að þú mætir ekki til starfa þó þú hafir ekki fengið fyrirmæli um að vera í sóttkví skal hann greiða þér full laun meðan á fjarvist stendur.
Vinnuveitandi getur farið fram á fjarvinnu á meðan sóttkví stendur, að því gefnu að þú hafir aðstöðu til þess og ert ekki veik/ur. Fjarvinna í sóttkví telst ekki til veikindadaga. Ef þú svo veikist á meðan sóttkví stendur telst það til veikinda og vinnuveitandi getur ekki gert kröfu um vinnuframlag.
Samkvæmt orlofslögum er orlofsárið frá 1. maí til 30. apríl. Flestir starfsmenn hafa núþegar nýtt orlof sitt á núverandi orlofsári, eða búnir að ákveða ráðstafa því fram til 30 apríl.
Það orlof sem búið var að ákveða á næstu dögum/vikum (t.d. í kringum páskaleyfi) helst óbreytt, nema starfsmaður og vinnuveitandi komist að öðru samkomulagi. Vinnuveitanda er heimilt að fara fram á að starfsmaður fari í fyrirhugað orlof, þó svo að forsendur orlofsins hafa breyst (t.d. að utanlandsferð um páska falli niður). Undantekning frá þessu er ef starfsmaður geti ekki vegna veikinda farið í orlof á þeim tíma sem áætlað var, en þá gilda ákvæði kjarasamninga og laga um veikindi í orlofi.
Almenna reglan er sú að vinnuveitandi getur ekki einhliða ákveðið að þú farir í orlof. Samkvæmt orlofslögum ákveður vinnuveitandi, í samráði við starfsmann, hvenær orlof skuli veitt og skal hann verða við óskum starfsmanns um hvenær orlof skuli veitt að svo miklu leyti sem unnt er vegna starfseminnar. Að lokinni könnun á vilja starfsmanna skal vinnuveitandi tilkynna svo fljótt sem unnt er og í síðasta lagi mánuði fyrir byrjun orlofs hvenær orlof skuli hefjast, nema sérstakar ástæður hamli.
Vinnuveitanda er óheimilt að senda þig í launalaus leyfi. Það er ávallt háð samkomulagi milli aðila.
Vinnuveitandi er ábyrgur fyrir starfsmanni á meðan hann er í vinnuferð erlendis. Ef starfsmaður er fastur annars staðar eftir vinnuferð, þá heldur starfsmaður launum á meðan hann er kyrrsettur. Jafnframt er eðlilegt að vinnuveitandi komi til móts við starfsmann með greiðslu útlagðs kostnaðar vegna fæðis og gistingar sem af þessu stafar innan eðlilegra marka.
Þær aðstæður kunna að koma upp að nauðsynlegt sé að miðla upplýsingum til annarra um fjarvist stafsmanns sem er í sóttkví. Mat á slíku fer eftir aðstæðum hverju sinni. Forðast skal að miðla upplýsingum um nafn starfsmanns, nema slíkt sé nauðsynlegt. Þá er einnig rétt að vanda slíka miðlun til að koma í veg fyrir óþarfa ótta meðal annarra starfsmanna.
Sóttvarnalækni er heimilt að afla gagna frá öllum þeim aðilum, sem geta veitt upplýsingar þegar út brýst hópsýking eða farsótt sem ógnar heilsu manna, og vinna með þær upplýsingar að því marki sem nauðsynlegt er, sbr. bréf Persónuverndar til sóttvarnalæknis þann 26. febrúar 2020.
Fram kemur í leiðbeiningum smitrakningarteymis almannavarna og sóttvarnarlæknis að ef um ungt barn er að ræða sem fer í sóttkví þá sé nauðsynlegt að fullorðinn einstaklingur fari í sóttkví með barninu. Það felur það í sér að velja þarf einn fullorðinn einstakling sem lendir þá einnig í sóttkví og mun sjá um og annast barnið á meðan það er í sóttkví. Mikilvægt er að skipuleggja umgengni á heimilinu þannig að þeir sem eru í sóttkví og hinir séu sem allra minnst á sömu svæðum íbúðarinnar. Í sameiginlegum rýmum eins og á salerni og í eldhúsi þarf að gæta sérstaks hreinlætis.
Um þann eina einstakling sem mun sinna barninu á meðan það er í sóttkví gildir að hann lendir í sóttkví og á því rétt til fastra launa á meðan hann er í sóttkví. Vinnuveitandi getur farið fram á að starfsmaðurinn vinni í fjarvinnu eins og aðstæður leyfa. Að því er varðar aðra heimilismenn sem ekki eru í sóttkví t.d. hitt foreldrið þá þurfa þeir að mæta til vinnu nema vinnuveitandi samþykki annað.
Alþingi samþykkti nýlega lög vegna greiðslu launa til einstaklinga í sóttkví. Starfsmenn eiga einnig rétt til launa ef barn þeirra undir 13 ára aldri eða undir 18 ára aldri ef þau þiggja þjónustu á grundvelli laga um fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir þarf að fara í sóttkví. Atvinnurekandi á svo rétt á endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna þessara launa.
Nei. Nauðsynleg fjarvist, þegar annarri umönnun er ekki komið við, getur heimilað launalausa fjarvist frá vinnu án þess að um vanefnd á ráðningarsamningi sé að ræða. Vinnuveitandi og starfsmaðurinn geta einnig gert með sér samkomulag um að starfsmaður vinni heima eða taki út orlofsdaga.
Sumir starfsmenn geta sinnt vinnu sinni heiman frá sér og eiga þeir þá rétt á launum þó þeir þurfi að vinna heima á meðan skólastarf er skert. Hins vegar eru ekki allir starfsmenn í þeirri stöðu. Þeir starfsmenn sem þurfa að vera frá vinnu vegna þessa eiga almennt ekki rétt á launum. Fíh hvetur þó atvinnurekendur til þess að veita starfsfólki sveigjanleika þar sem um fordæmalausar ástæður er að ræða. Samfélagsleg ábyrgð okkar allra er mikil og mikilvægt að allir leggist á eitt til þess að virða fyrirmæli yfirvalda.Almenna reglan er sú að vinnuveitandi getur ekki einhliða skert starfshlutfall starfsmanns nema með uppsögn og þá gilda ákvæði kjarasamninga um framkvæmd og lengd uppsagnarfrests. Vinnuveitandi og starfsmaður geta með samkomulagi tímabundið breytt starfshlutfalli starfsmanns. Mikilvægt er að gert sé skriflegt samkomulag þar um þar sem m.a. kemur fram tímalengd og sérstakar undantekningar (t.d. varðandi uppsögn).
Alþingi hefur samþykkt frumvarp félags- og barnamálaráðherra um rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda. Hægt er að sækja um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli hjá VMST. Sjálfstætt starfandi einstaklingar geta nú þegar sótt um en þeir fylla út hefðbundna umsókn um atvinnuleysisbætur.
Umsóknir um minnkað starfshlutfall munu gilda afturvirkt frá þeim degi sem starfshlutfall var minnkað, allt aftur til 15. mars 2020. Lögin gilda til 1. júní 2020.Vinnuveitandi getur þurft að grípa til uppsagna ef fyrirtækið þarf að draga saman vegna COVID-19, eða vegna annarra ástæðna. Um þetta gilda ákvæði kjarasamninga um framkvæmd þeirra og lengd uppsagnarfrests.
Það er á ábyrgð starfsmanns að koma sér til vinnu. Liggi almenningssamgöngur niðri verður þú að finna aðra leið til að mæta til vinnu.
Hjá ríkinu: Áfram gildir þó ákvæði kjarasamnings um vinnusókn og ferðir þegar starfsmenn hefja eða hætta vinnu á tímabilinu frá kl. 00:05 til kl. 06:55 virka daga og frá kl. 00:05 til kl. 10:00 á sunnudögum eða á sérstökum frídögum, að þá skal þeim séð fyrir ferðum eða greiddur ferðakostnaður að og frá vinnustað innan 12 km fjarlægðar, en þó utan 1,5 km.
Hið opinbera: Hafi starfsmaður ekki aðgang að matstofu en ætti að hafa það skv. ákvæðum kjarasamninga, skal hann fá það bætt með fæðispeningum.
Þær aðstæður sem nú eru uppi kalla á sveigjanleika af hálfu allra og því hefur stjórn LÍN, í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðherra, ákveðið eftirfarandi ívilnanir fyrir greiðendur og námsmenn til að létta á áhyggjum þeirra af fjármálum vegna hugsanlegra aðstæðna sem komið geta upp á meðan á kórónuveirunni stendur eða í kjölfar hennar.
Já, það getur verið heimilt. Sem dæmi má nefna ef stór hluti starfsmanna á einum vinnustað er í sóttkví og starfsemin er þess eðlis að henni verður að halda gangandi, þá getur verið heimilt að færa aðra starfsmenn þangað.
Alþingi hefur samþykkt nýtt ákvæði til bráðabirgða til að tryggja lagagrundvöll fyrir heimild opinberra aðila (ríki, sveitarfélög og fyrirtæki í þeirra eigu) til að færa starfsmenn tímabundið milli starfa til að sinna verkefnum sem hafa forgang á hættustundu. Hættustund telst vera fyrir hendi í skilningi þessa ákvæðis þegar ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir hæsta almannavarnastigi samkvæmt reglugerð um flokkun almannavarnastiga, eða hefur lýst því yfir að það sé yfirvofandi. Ákvæðið fellur úr gildi 1. janúar 2021.
Borið hefur á því að vinnuveitendur heimili ekki starfsmönnum sínum að fara erlendis í lögbundnu fríi sínu og/eða setja sérreglur um sóttkví við heimkomu. Þessu er Fíh ósammála og telur vinnuveitendur ekki geta gert upp á milli starfsmanna sinna eftir því hvert þeir fóru í fríum sínum.
Í lögum nr. 24/2000 um greiðslu launa í sóttkví er gerður greinamunur á því hvort launamanni mátti vera ljóst fyrir brottför til útlanda að hann þyrfti að sæta sóttkví við heimkomu. Að mati Fíh er þetta mikilvægt atriði þegar kemur að ákvörðun um laun í sóttkví eða ekki.
- Fíh lítur svo á að fari starfsmaður til útlanda og ekki var ljóst við brottför að hann þyrfti að sæta sóttkví við heimkomu þá á viðkomandi rétt á launum í sóttkví og þarf því ekki að skrá þá daga sem orlof eða launalaust leyfi. Við þessar aðstæður getur vinnuveitandi farið fram á fjarvinnu á meðan sóttkví stendur, að því gefnu að starfsmaður hafi aðstöðu og búnað til þess og er ekki veik/ur. Greiði vinnuveitandi ekki laun í sóttkví getur starfsmaður sótt um greiðslur hjá Vinnumálastofnun á grundvelli laga nr. 24/2000.
- Hafi starfsmanni hinsvegar mátt vera ljóst að hann þyrfti að sæta sóttkví við heimkomu, þá ber honum að ráðstafa orlofi sínu fyrir þá daga, óska eftir launalausu leyfi eða vinna í fjarvinnu samkvæmt samkomulagi við vinnuveitanda.
Vinnuveitanda ber skylda til að tryggja öruggt og heilsusamlegt umhverfi fyrir sína starfsmenn og getur því verið nauðsynlegt að setja sérreglur í tengslum við Covid-19. Setji vinnuveitandi reglur sem ganga lengra en almenn fyrirmæli, reglur og lög þá eru þær sérreglur að jafnaði settar á kostnað vinnuveitanda. Ákvörðun um sóttkví er tekin af stjórnvöldum á grundvelli sóttvarnarlaga. Óski vinnuveitandi eftir því að starfsmaður mæti tímabundið ekki til starfa, án þess að starfsmaður hafi fengið fyrirmæli stjórnvalda um að sæta sóttkví, heldur starfsmaður fullum launum á meðan fjarvist stendur.
Þessi mál geta verið mismunandi og nauðsynlegt að skoða hvert tilfelli fyrir sig.Fíh lítur svo á að lendi starfsmaður í sóttkví í orlofi teljist það ekki orlofsdagar.
Lendi starfsmaður í sóttkví á meðan orlofi stendur ber honum að tilkynna vinnuveitanda það án tafar til að fá lengingu á orlof sitt sem nemur þeim dögum sem starfsmaður er í sóttkví. Vinnuveitandi getur farið fram á starfsmaður vinni fjarvinnu á meðan á sóttkví stendur, að því gefnu að starfsmaður hafi aðstöðu og búnað til heimavinnu og er ekki veik/ur. Veikist starfsmaður í sóttkví telst það til veikinda og um það gilda reglur kjarasamninga um veikindi starfsmanna. Ekki er gerð krafa um vinnuframlag á þessum tíma.
Meginreglan er sú að vinnuveitandi greiðir starfsmanni laun þurfi hann að sæta sóttkví skv. beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Vinnuveitandi getur svo fengið launin endurgreidd (án launatengdra gjalda) á grundvelli laga nr. 24/2020. Greiði vinnuveitandi ekki laun meðan á sóttkví stendur geta einstaklingar sótt sjálfir um greiðslur hjá Vinnumálastofnun. Lögin gera einnig ráð fyrir að sjálfstætt starfandi einstaklingar í sóttkví geti átt sambærilegan rétt og launafólk.
Þessi mál geta verið mismunandi og nauðsynlegt að skoða hvert tilfelli fyrir sig.
Vinnueftirlitið minnir á mikilvægi þess að atvinnurekendum ber að tryggja að gætt sé fyllsta öryggis, góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustöðum í samræmi við lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Huga þarf vel að vinnuumhverfi starfsfólks sem starfar við krefjandi aðstæður í umönnun ekki hvað síst nú á tímum COVID-19 faraldursins. Fyrirbyggja og lágmarka þarf þau öryggis- og heilbrigðisvandamál sem geta komið upp við umönnun einstaklinga í sóttkví eða einangrun. Ekki er síður mikilvægt að huga að andlegu álagi starfsfólks en líkamlegu álagi eða sóttvörnum. Reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum og reglur um húsnæði vinnustaða eru dæmi um nánari útfærslur á skyldum atvinnurekenda í þessu sambandi.
Vinnueftirlitið hvetur til þess að atvinnurekendur hafi lágan þröskuld varðandi það að grípa til ítrustu varúðarráðstafana til þess að tryggja öryggi starfsfólks, leiki grunur á smiti hvort sem um ræðir á heimilum skjólstæðinga eða á umönnunarstofnunum.
Gæta þarf að aðstöðu, líðan og aðbúnaði starfsfólks
Atvinnurekendum ber að huga sérstaklega að vinnuumhverfi starfsfólks sem sinnir einstaklingum í sóttkví eða einangrun vegna COVID-19. Skipuleggja þarf störf og allan aðbúnað starfsfólks þannig að sérstaklega er gætt að sóttvörnum og auknu álagi á starfsfólk vegna faraldursins.
Útvega þarf starfsfólki viðeigandi hlífðarbúnað og aðstöðu til að sinna persónulegu hreinlæti, matast, hvílast og að hafa fataskipti.
Veita þarf starfsfólki fullnægjandi leiðbeiningar um aðbúnað og þá áhættu sem fylgir starfinu. Á það til dæmis við um almennt hreinlæti, handþvott, sprittun, hlífðarbúnað, aðstöðu til fataskipta, sturtuaðstöðu og aðgengi að vinnufatnaði og þvottaaðstöðu. Leiðbeiningar um handþvott, sprittun og notkun hlífðarbúnaðar er til dæmis að finna á www.covid.is og á vef landlæknis, www.landlaeknir.is.
Þar sem stúka þarf aðstöðuna af vegna COVID-19 eða notast við tímabundnar viðbætur við húsnæðið skal gæta þess að aðstaðan sé fullnægjandi og huga þarf sérstaklega að því að hún uppfylli kröfur um sóttvarnir. Gildir þetta hvort sem aðstaðan fyrir starfsfólk er varanleg eða tímabundin.
Þá þarf að huga sérstaklega að því að starfsfólk sem sinnir fólki í sóttkví og einangrun getur upplifað aukið álag, til dæmis vegna hættu á smiti og við að bera hlífðarbúnað við störf. Slíkur búnaður getur verið óþægilegur og hindrað eðlilegar hreyfingar, öndun og úthald. Því þarf að tryggja að vinnuskipulagið sé þannig að starfsfólk fái auka hvíldarpásur og geti hvílst í viðunandi rýmum á milli þess sem það sinnir skjólstæðingum sínum. Mikilvægt er að starfsfólk sé upplýst um þá áhættu sem getur fylgt störfum þeirra og fái góðar leiðbeiningar og hvatningu um að láta vita ef aukið álag eða áhyggjur gera vart við sig vegna starfsins eða aðstæðna.
Nauðsynlegt að áhættumeta störf sem verða fyrir áhrifum af COVID-19
Vinnueftirlitið minnir sömuleiðis á mikilvægi þess að atvinnurekendur sinni skyldum sínum skv. XI. kafla laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerðar um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum að áhættumeta þau störf og verkþætti sem verða fyrir áhrifum af COVID-19 og framkvæma úrbætur samkvæmt áhættumatinu. Áhættumat þarf meðal annars að taka mið af því álagi sem óhjákvæmilega fylgir því að annast fólk vegna COVID-19.
Hjálpargögn og gagnvirkur COVID-19 gátlisti
Gagnlegar leiðbeiningar eru á vef Vinnueftirlitsins um gerða áhættumats og áætlunar um forvarnir auk þess sem á vef Vinnuverndarstofnunar Evrópu er að finna leiðbeiningar og gagnvirkan gátlista, svokallað OiRA COVID-19 tool, sem er meðal annars útfærður á ensku. Leiðbeiningarnar styðja atvinnurekendur og starfsfólk í því að finna leiðir til að viðhalda öryggi og heilsu í vinnuumhverfinu sem hefur breyst umtalsvert vegna COVID-19. Leiðbeiningarnar eru almennar ráðleggingar en þar sem aðstæðurnar eru mismunandi frá einu landi eða svæði til annars er mikilvægt að hafa tilmæli yfirvalda hérlendis til hliðsjónar við gerð og uppfærslu áhættumats vinnustaða hverju sinni.
Heilbrigðisyfirvöld hafa óskað eftir liðsinni hjúkrunarfræðinga í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar. Leitað er að fólki sem hefur aðstæður og er reiðubúið að koma tímabundið til starfa í heilbrigðisþjónustunni með skömmum fyrirvara, hvort heldur í fullt starf, hlutastarf eða í tímavinnu, eftir því sem aðstæður leyfa.
Félags- og barnamálaráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa á sama hátt komið á fót bakvarðasveit í velferðarþjónustu.
Bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar er fyrir þá hjúkrunarfræðinga sem vilja skrá sig á útkallslista Landspítala, Sjúkrahússins á Akureyri, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og heilbrigðisstofnana.
Bakvarðasveit velferðarþjónustu er fyrir þá hjúkrunarfræðinga sem vilja skrá sig á útkallslista velferðarþjónustu, t.a.m. hjúkrunarheimili.
Spurt og svarað - Bakvarðasveit
Heilbrigðisstarfsfólki úr hópi heilbrigðisstétta sem eru með löggildingu.
Heilbrigðisráðuneytið hefur útbúið rafrænt skráningarform fyrir þá hjúkrunarfræðinga sem vilja skrá sig á útkallslista Landspítala, Sjúkrahússins á Akureyri, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og heilbrigðisstofnana.
Velferðarráðuneytið hefur útbúið rafrænt skráningarform fyrir þá hjúkrunarfræðinga sem vilja skrá sig á útkallslista velferðarþjónustu, það er hjúkrunarheimili.
Þær heilbrigðisstofnanir sem óska eftir að ráða sér liðsauka úr bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar geta nálgast lista með upplýsingum um þá sem hafa skráð sig til þátttöku hjá heilbrigðisráðuneytinu. Stofnanirnar munu sjálfar hafa beint samband við bakverði og verður ráðningarsambandið á milli viðkomandi stofnunar og þess einstaklings sem ræður sig til starfa.
Leitað er að einstaklingum sem geta skuldbundið sig tímabundið í allt að tvo mánuði, hvort sem um er að ræða fullt starf, hlutastarf eða tímavinnu.
Laun taka mið af kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags á viðkomandi stofnun og er í samræmi við stofnanasamninga og launaröðun.
Gott er að hafa í huga að eftirfarandi upplýsingar þurfa að koma fram á ráðningarsamningi:
- Nafn, heimilisfang og kennitala stofnunar
- Nafn, heimilisfang og kennitala starfsmanns
- Vinnustaður
- Starfsheiti, stutt útlistun á umfangi og ábyrgðarsviði
- Forsendur launaröðunar, vísa í ákvæði stofnanasamnings
- Vinnutími (dagvinna, vaktavinna, fastar næturvaktir, bakvaktir)
- Starfshlutfall
- Upphaf ráðningar og starfslok ef ráðning er tímabundin
- Gagnkvæmur uppsagnarfrestur
- Lífeyrissjóður og viðbótarlífeyrissparnaður
- Stéttarfélag
Gagnkvæmur uppsagnarfrestur hjá einstaklingum er einn mánuður hvort sem um er að ræða tímavinnu eða tímabundna ráðningu.
Ef einstaklingur ræður sig í meira en 60% starf í meira en mánuð ráðleggur kjara- og réttindasvið Fíh að gerður sé tímabundinn ráðningarsamningur við stofnun.
- Orlofsréttindi eru greidd jafnóðum.
- Veikindaréttur er í samræmi við ákvæði kjarasamninga við ríkið, miðað er við grein 12.2.6 í kjarasamningum um meðaltalslaun og þann rétt sem viðkomandi á til veikinda skv. grein 12.2.2. Réttur tímavinnumanna til veikinda er almennt að hámarki einn mánuður en samþykktur hefur verið sér ákvæði vegna covid-19 sem má sjá hér neðar.
- Matar og kaffitími 25 mín (0,42) og er greiddur fyrir hverja vakt, óháð lengd vaktar.
- Tímavinnukaup í dagvinnu er 0,615% af mánaðarlaunum í hverjum launaflokki og er greitt fyrir vinnu kl. 8-17 mánudaga - föstudaga.
- Tímavinnukaup í yfirvinnu er 1,0385 af mánaðarlaunum í hverjum launaflokki og er greitt eftir kl 17 virka daga og um helgar.
- Yfirvinna sem unnin er á stórhátíðum er greidd með tímakaupi sem nemur 1,375% af mánaðarlaunum
- Fast starfshlutfall: Samið er um tiltekið starfshlutfall og eru vinnuskil í samræmi við það.
- Mánaðarlaun, vaktaálag og yfirvinna: Greidd eru mánaðarlaun, vaktaálag fyrir vinnu utan dagvinnu og yfirvinna fyrir unna tíma umfram starfshlutfall.
- Orlof og frítökuréttur: Ávinnsla orlofs- og frítökuréttar er til samræmis við kjarasamning og er hann greiddur út við starfslok.
- Greiðsla matar- og kaffitíma: Dagvinnumenn í tímabundnu ráðningarsambandi eiga rétt á 15 og 20 mín kaffitíma á dagvakt. Vaktavinnumenn fá matar- og kaffitíma greidda í yfirvinnu, greiddar 25. mín í yfirvinnu fyrir hverja vakt og 12 mínútur greiddar fyrir hverja unna klst. í yfirvinnu.
Já. Ef að þú býður þig fram og á meira en stöku vaktir ættir þú að íhuga að gera fremur tímabundinn ráðningarsamning við stofnunina sem þú ferð að vinna á sbr. spurningin hér að ofan.
Við mat á ávinnslurétti starfsmanns skal auk fyrri þjónustualdurs hjá viðkomandi launagreiðanda einnig telja þjónustualdur hjá stofnunum ríkisins, sveitarfélögum og sjálfseignarstofnunum sem kostaðar eru að meirihluta til af almannafé.
Í gildi er yfirlýsing ráðherra um aukinn veikindarétt starfsmanna í Bakvarðarsveit, en hún á þó einungis við ef um er að ræða COVID-19 sjúkdóm. Í áðurnefndum leiðbeiningum vegna veikindaréttar Bakvarðarsveitar segir:
"Starfsmenn sem ráðnir eru tímabundið í Bakvarðasveit njóta sérstaks veikindaréttar vegna COVID-19 í samræmi við yfirlýsingu fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra frá 6. mars 2020. Í þeim tilvikum nýtur liðsmaður í Bakvarðasveit rétts til launa í veikindum líkt og hann væri ráðinn til starfa á mánaðarlaunum. Við mat á ávinnslurétti starfsmanns skal auk fyrri þjónustualdurs hjá viðkomandi launagreiðanda einnig telja þjónustualdur hjá stofnunum ríkisins, sveitarfélögum og sjálfseignarstofnunum sem kostaðar eru að meirihluta til af almannafé."
Fíh telur mjög mikilvægt að með þessu er búið að tryggja að heilbrigðisstarfsmaður í Bakvarðasveit sem sýkist af COVID-19 veirunni nýtur veikindaréttar eins og hann hefði verið ráðinn á ráðningarsamningi hvort sem um tímabundinn ráðningarsamning eða tímavinnu er að ræða.
Tryggingar eru samkvæmt kjarasamingi félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við viðsemjendur:
Já það er hægt. Það er gert annað hvort með hléi á fæðingarorlofi. Ef einstaklingur er ekki í fullu fæðingarorlofi er möguleiki á að hægt sé að vinna hlutastarfsamhliða.
Nánari upplýsingar má finna hér: http://www.faedingarorlof.is/
Skrifstofa Fíh er opin mánudaga til fimmtudaga 10-16, og föstudaga 10-12. Opnað hefur verið fyrir notkun félagsmanna á sölum Fíh, en þó með fjöldatakmörkunum og verklagi í samræmi við núverandi sóttvarnarreglur.
Starfsfólk mun eftir sem áður einnig sinna erindum gegnum síma og tölvupóst. Aðalnúmer Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga er 540 6400 og tölvupóstur er hjukrun@hjukrun.is. Hér má finna tölvupóstföng starfsmanna, en hægt er að panta símtal frá viðkomandi starfsmanni með því að senda honum tölvupóst. Öllum fyrirspurnum er svarað eins fljótt og auðið er.
Kjaramál
Hægt er að hafa samband við ráðgjafa kjarasviðs í síma 540 6408 og 540 6413. Einnig er hægt að senda tölvupóst á kjarasvid@hjukrun.is.
Styrkir og sjóðir
Umsóknir í sjóði félagsins fara fram á Mínum síðum, að undanteknum sjúkradagpeningum. Vegna sjúkradagpeninga þarf að fylla inn umsóknareyðublað. Mikilvægt er að undirrita umsóknina. Umsókn er hægt að skanna/mynda og senda á sjodir@hjukrun.is.
Fyrirspurnir varðandi styrktarsjóð eða starfsmenntunarsjóð má senda á netfangið sjodir@hjukrun.is
Orlofshúsnæði
Sjóðsfélagi sem er skipaður í sóttkví eða einangrun að beiðni sóttvarnarlæknis þegar hann á úthlutað orlofshúsnæði Fíh á rétt á fullri endurgreiðslu, bæði á punktum og peningum. Til að afbóka þarf að senda póst þess efnis á hjukrun@hjukrun.is
Við minnum á að það er með öllu óheimilt að nota íbúðir og bústaði orlofssjóðs fyrir sóttkví. Ef grunur leikur á að smitaður einstaklingur hafi dvalið í íbúð eða orlofshúsi félagsins, þá ber að tilkynna það strax til félagsins og þrífa sérstaklega vel að dvöl lokinni.
Þá er einnig óheimilt með öllu að nota orlofskosti Fíh fyrir einangrun.
Verklag
- Mælt er með því að panta salinn með ágætum fyrirvara, með því að senda póst á hjukrun@hjukrun.is eða hringja í síma 540-6400.
- Fundarhaldarar bera ábyrgð á því að gildandi takmarkanir séu virtar.
- Nándarviðmið eru 1 metri. Allir gestir noti andlitsgrímu þar sem ekki er hægt að halda 1 metra nálægðarmörkum.
- Þeir sem fá salinn lánaðan raða borðum og stólum upp eftir eigin ósk. Eftir notkun skal gengið frá salnum í fyrra horf og spritta alla yfirborðsfleti.
Núgildandi sóttvarnareglur um fyrirlestra, ráðstefnur og sambærilegt
- Gestir mega ekki sitja andspænis hver öðrum
- Heimiluð nándarmörk milli ótengdra aðila eru nú 1 metri
- Gestir skulu nota andlitsgrímu þar sem ekki er hægt að halda 1 metra nálægartakmörkum
Sjóðsfélagi sem er skipaður í sóttkví eða einangrun að beiðni sóttvarnarlæknis þegar hann á úthlutað orlofshúsnæði Fíh á rétt á 80% endurgreiðslu, og fær punkta bakfærða. Til að afbóka þarf að senda póst þess efnis á hjukrun@hjukrun.is
Við minnum á að það er með öllu óheimilt að nota íbúðir og bústaði orlofssjóðs fyrir sóttkví. Ef grunur leikur á að smitaður einstaklingur hafi dvalið í íbúð eða orlofshúsi félagsins, þá ber að tilkynna það strax til félagsins og þrífa sérstaklega vel að dvöl lokinni.
Þá er einnig óheimilt með öllu að nota orlofskosti Fíh fyrir einangrun.