Hjukrun.is-print-version

Orlof

Ávinnsla orlofs

Orlofsréttur hjá ríki og sveitarfélögum er 30 dagar eða 240 stundir fyrir fullt starf. Ávinnsla orlofs er hlutfallsleg miðað við starfshlutfall og starfstíma á ávinnslutímabili orlofs, sem er frá 1. maí til 30. apríl. Með starfi á orlofsárinu ávinnur starfsmaður sér rétt til orlofs og orlofslauna á næsta orlofsári.  

Ákvörðun orlofs

Yfirmaður ákveður, í samráði við starfsfólk, hvenær orlof skuli veitt. Yfirmanni er skylt að verða við óskum starfsfólks um hvenær orlof skuli veitt, verði því við komið vegna starfsemi stofnunar. Ákvörðun um sumarorlof skal liggja fyrir 31. mars og tilkynnt starfsfólki með sannanlegum hætti, svo sem í tímaskráningarkerfi stofnunar, nema sérstakar aðstæður hamli.

Tímabil sumarorlofs

Tímabil sumarorlofs er frá 1. maí til 15. september, en hjá starfsfólki sveitarfélaga er það frá 15. maí til 30. september. Starfsfólk á rétt á að fá allt að 30 daga orlof, þar af 15 daga samfellda á sumarorlofstímabili, enda verði því við komið vegna starfa stofnunar.

Taka skal orlof fyrir lok orlofsársins, þ.e. fyrir 30. apríl ár hvert, þó er við sérstakar aðstæður hægt að fresta töku orlofs til næsta árs. Starfsfólk á rétt til þess að taka sumarfrí óháð því hvort viðkomandi eigi rétt á launum í orlofi. 

Lenging orlofs

Sé orlof eða hluti orlofs tekið utan sumarorlofstímabils, að skriflegri beiðni yfirmanns, skal sá hluti orlofsins lengjast um 25%. Óski starfsmaður eftir því að taka orlof utan sumarorlofstímabils kemur ekki til 25% lengingar á orlofi. 

Flutningur orlofs á milli orlofsára.

Samkvæmt orlofslögum nr. 30/1987 er flutningur orlofslauna milli ára er óheimil.  

Samkvæmt orlofskafla kjarasamninga á opinberum vinnumarkaði á starfsmaður sem átti gjaldfallið orlof þann 1. maí 2020, allt að 60 dagar og hafði ekki nýtt þá daga fyrir 30. apríl 2023, ekki lengur rétt á að flytja þá daga sem eftir standa á milli orlofsára. Vegna utanaðkomandi aðstæðna hefur nú (dags. 21. mars 2023) verið gengið frá samkomulagi um að fresta þessari framkvæmd til 30. apríl 2024.  

Eftir sem áður hvetur félagið hjúkrunarfræðinga til að taka orlof og safna því ekki upp.  Það orlof sem er verið að ávinna á yfirstandandi orlofsári og losnar 1. maí n.k. á að ljúka við að taka á orlofsárinu,  nema með eftirfarandi undantekningum:

  1. Ef starfsmaður tekur ekki orlof eða hluta af orlofi, að skriflegri beiðni yfirmanns, getur orlofið geymst til næsta orlofsárs. Sama gildir um fæðingarorlof.  Í slíkum tilvikum getur uppsafnað orlof þó aldrei orðið meira en 60 dagar. Nýti starfsmaður ekki hina uppsöfnuðu orlofsdaga, fyrnast þeir. 
  2. Veikist starfsmaður í orlofi, þannig að hann getur ekki notið orlofs, telst sá tími sem veikindum nemur ekki til orlofs, en þá skulu veikindi  sönnuð með læknisvottorði svo fljótt sem auðið er.  Í slíkum tilvikum er heimilt að flytja ótekið orlof til næsta árs.

Starfsmaður getur ekki talist að hálfu veikur eða hálfu frískur í orlofi.  Fari starfsmaður sem hefur verið í svokölluðum hlutaveikindum í orlof telst það að fullu til orlofstöku nema að læknir votti að starfsmaður geti ekki notið orlofs en þá telst fríið að fullu til veikinda.  

Sjálfkrafa fyrning orlofs

Samkvæmt nýlegum dómi Evrópudómstólsins frá 2022 er sjálfkrafa fyrning orlofs óheimil nema ljóst megi vera að starfsfólki hafi í raun verið gert kleift af hálfu vinnuveitanda að nýta rétt sinn. Þannig ber vinnuveitanda að tryggja að starfsfólk fái upplýsingar um ótekið orlof og frítökurétt og sömuleiðis að tryggja að starfsfólk geti nýtt áunnið orlof, að öðrum kosti getur ótekið orlof fallið niður. Samkvæmt dómnum getur vinnuveitandi sem vanrækir að skipuleggja orlofstöku starfsfólks ekki borið fyrir sig fyrningarreglu vegna orlofstöku.  Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga beinir því til félagsmanna að hafa samband við kjarasvið félagsins ef upp kemur ágreiningur vegna þessa.

Orlofsfé

Greitt er 13,04% orlofsfé af álagi og yfirvinnu og lagt inn á bankareikning (orlofsreikning) viðkomandi starfsmanns og greitt út í maí ár hvert.

Orlofsuppbót

Orlofsuppbót er greidd út 1. júní ár hvert.  Greitt skal hlutfallslega miðað við starfshlutfall og starfstíma. 


Orlofsvefur


Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála