Eru hjúkrunargreiningar nægilega lýsandi?
Ásta Thoroddsen
Í ljósi þess hve algeng þrýstingssár og byltur eru hjá sjúklingum, og samfara aukinni notkun staðlaðs fagmáls í hjúkrun, þótti áhugavert að kanna hvaða hjúkrunargreiningar og hjúkrunarmeðferð íslenskir hjúkrunarfræðingar hafa notað til að skrá þrýstingssár og byltur eða hættu þar á.
Lýsandi rannsókn var gerð þar sem hjúkrunargreiningar og meðferð sem tengdust þrýstingssárum og byltum í sjúkraskrám sjúklinga á árunum 2004 og 2005 voru kannaðar. Kerfisbundin aðferð var notuð við val á sjúkraskrám (n=211 og n=196) inniliggjandi sjúklinga á 29 deildum Landspítala. Í ljós kom að fjórar hjúkrunargreiningar voru notaðar til að skrá hjúkrunarvandamál sem tengdust þrýstingssárum, en engin þessara greininga náði að lýsa með ótvíræðum hætti að um þrýstingssár eða hættu þar á væri að ræða. Fimm hjúkrunargreiningar voru notaðar til að skrá byltuhættu sjúklinga og lýsti langalgengasta greiningin byltuhættu ótvírætt. Notkun mismunandi hjúkrunargreininga til að skrá þrýstingssár og byltur getur bent til óöryggis hjúkrunarfræðinga í að beita stöðluðu fagmáli í klínískri vinnu eða rangrar notkunar hjúkrunargreininga. Óljóst orðalag og skortur á gagnsæi hindrar einnig að hjúkrunargreining sem best á við hjá sjúklingum hverju sinni sé notuð, en það getur stefnt öryggi sjúklinga í hættu ef viðeigandi hjúkrunarvandamál eru ekki greind eða skráð af nákvæmni.
Lykilorð: byltur, hjúkrunargreiningar, staðlað fagmál, þrýstingssár.
4.tbl. 2011: Eru hjúkrunargreiningar nægilega lýsandi?