Forprófun á mælitæki til að meta þekkingu og viðhorf hjúkrunarfræðinga til verkja og verkjameðferðar
Elfa Þöll Grétarsdóttir, hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Landspítala
Sigríður Zoëga, hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Landspítala
Gunnar Tómasson, Bostonháskóla
Sigríður Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Landspítala
Tilgangur: Að þýða og prófa áreiðanleika og hugtakaréttmæti mælitækisins „Könnun á viðhorfi og þekkingu til verkja og verkjameðferðar“ (Knowledge & Attitudes Survey Regarding PainK&A-SRP).
Aðferð: Mælitækið metur þekkingu og viðhorf til verkjameðferðar. Það samanstendur af 22 rétt/rangt spurningum og 17 fjölvalsspurningum. Eitt stig fæst fyrir hvert rétt svar og mest er hægt að fá 39 stig, þannig að hærri stigafjöldi endurspeglar meiri þekkingu.
Mælitækið var þýtt og bakþýtt af fjórum hjúkrunarfræðingum. Í úrtaki voru hjúkrunarnemar á öðru ári við Háskóla Íslands (n=82), hjúkrunarfræðingar á kvenna- og barnasviði, geðsviði og bráðasviði á Landspítala (n=381) og 13 meistaramenntaðir hjúkrunarfræðingar með reynslu af verkjameðferð. Kannanakerfið Lime Survey var notað og könnunin send með tölvupósti til hjúkrunarfræðinga og hjúkrunarnema. Meistaramenntuðu hjúkrunarfræðingarnir fengu listann sendan í pósti. Lýsandi tölfræði, ANOVA og línuleg aðhvarfsgreining var notað í gagnaúrvinnslu.
Niðurstöður: Fjöldi hjúkrunarnema var 25 (14,7% þátttakenda)(30,5% svörun), flestir á aldrinum 20-30 ára (76%). Hjúkrunarfræðingar voru 135 (79,4% þátttakenda) (35,4% svörun), flestir á aldrinum 31-40 ára (33,1%) og flestir höfðu unnið við hjúkrun í 15 ár eða lengur (38,5%). Meistaramenntaðir hjúkrunarfræðingar með reynslu af verkjameðferð voru 10 (5,9% þátttakenda) (77% svörun). Engum lýðfræðilegum upplýsingum var safnað um þann hóp vegna smæðar hans. Áreiðanleiki listans í heild (Cronbachs alfa) var 0,75. Meðalskor (staðalfrávik) á K&ASRP listanum fyrir hópinn í heild var 24,3 (7,1), spönn 5 til 39.
Meðalskor hjúkrunarnema var 23,7 (5,2), hjúkrunarfræðinga 26,6 (4,9) og meistaramenntaðra hjúkrunarfræðinga með reynslu af verkjameðferð 34,8 (3,2) stig. Munur reyndist marktækur (p<0,05) á þekkingu á milli hópa, þekking var meiri eftir því sem menntun var meiri.
Ályktanir: Mælitækið er áreiðanlegt og er fært um að meta mun á milli hópa sem ætla má að hafi mismikla þekkingu á verkjameðferð og styður það hugtakaréttmæti listans.
Lykilorð: verkir, verkjameðferð, viðhorf, þekking og hjúkrunarfræðingur.
4. tbl. 2011: Forprófun á mælitæki til að meta þekkingu og viðhorf hjúkrunarfræðinga til verkja og verkjameðferðar