Hjukrun.is-print-version

Áhrif svæðameðferðar á þunglyndi og kvíða

Slembuð, framskyggn meðferðarrannsókn
Hólmfríður Margrét Bjarnadóttir, Sjúkrahúsinu á Akureyri
Árún K. Sigurðardóttir, heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri 


Rannsókn þessi var gerð til að kanna áhrif svæðameðferðar á þunglyndi og kvíða. Þunglyndi er algengt og veldur meiri röskun á högum einstaklingsins en flestir aðrir sjúkdómar.

Rannsóknir hafa rennt stoðum undir að svæðameðferð dragi úr kvíða en áhrif hennar á þunglyndi eru óþekkt. Rannsóknin var framskyggn, slembuð meðferðarprófun með víxlsniði þar sem 19 þátttakendum, sem greindir höfðu verið þunglyndir af lækni, var skipt með tilviljunaraðferð í tvo hópa.

Þátttaka í rannsókninni tók 16 vikur. Rannsóknartíminn skiptist í 8 vikna biðtíma og 8 vikna meðferðartíma en röðun í hópa réð því hvort byrjað var á meðferð eða bið. Hver þátttakandi fékk svæðameðferð 10 sinnum og voru áhrif meðferðar mæld með þunglyndiskvarða Beck og kvíðakvarða Spielberger. Hver þátttakandi svaraði spurningalistunum þrisvar, við upphaf rannsóknartímabils og síðan eftir 8 og 16 vikur. Rannsóknartímabilið stóð frá janúar til ágúst 2008.

Breyting á stigafjölda á biðtíma var lítil en það bendir til þess að einungis svæðameðferðin hafi breytt stigafjölda eftir meðferðartíma. Ekki reyndist marktækur munur milli hópa hvað varðar stigafjölda þunglyndis- eða kvíðakvarða eftir 8 vikur þegar einungis annar hópurinn hafði fengið meðferð. Niðurstöður úr pöruðu Wilcoxon t-prófi sýndu að svæðameðferð dró marktækt úr þunglyndi miðað við svörun á þunglyndiskvarða Beck hjá báðum hópum eftir meðferð (p<0,001). Meðferðin dró einnig marktækt úr ástandskvíða (p<0,001) en lyndiskvíði jókst (p<0,014).

Rannsóknarniðurstöður gefa vísbendingar um að beita megi svæðameðferð sem sjálfstæðri meðferð eða viðbótarmeðferð við þunglyndi og kvíða. Niðurstöður gefa jafnframt tilefni til frekari rannsókna um hvernig meðferðin þjóni best skjólstæðingum innan sem utan heilbrigðiskerfisins.

Meginhugtök: Svæðameðferð, óhefðbundin meðferð, þunglyndi, kvíði, framskyggn meðferðarrannsókn.

5.tbl. 2011: Áhrif svæðameðferðar á þunglyndi og kvíða: Slembuð, framskyggn meðferðarrannsókn

Ritrýnd grein

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála