Þverfagleg geðheilbrigðisþjónusta fyrir verðandi og nýorðnar mæður
Almenn heilsa og félagslegur og tilfinningalegur aðbúnaður kvenna á meðgöngu og á fyrstu mánuðum eftir fæðingu getur haft áhrif á þroska barnsins. Ómeðhöndlað þunglyndi kvenna á meðgöngu og eftir fæðingu hefur áhrif á þroska ákveðinna heilastöðva barnsins og getur hægt á vitsmunalegum þroska þess og aukið líkur á þunglyndi seinna á lífsleiðinni. Sýnt hefur verið fram á að áföll og óuppgerðar tilfinningar hjá verðandi móður og föður eða erfið kjör í uppeldi, svo sem vanræksla eða ofbeldi, séu miklir áhættuþættir sem hindra eðlileg tengsl foreldra og barns og geta valdið varanlegu tilfinningalegu eða líkamlegu heilsutjóni fyrir barnið ef ekkert er að gert (Landlæknisembættið, 2013).
Víða erlendis eru dæmi um að fyrirbyggjandi vinna og snemmtæk íhlutun í bernsku styrki geðheilbrigði barnsins síðar á ævinni (Daly og Bray, 2015; Eckenrode o.fl., 2010; Glover, 2014). Hafa breskir stjórnmálamenn meðal annars brugðist við þessu með því að gera með sér þverpólitískan sáttmála sem nefnist „Fyrstu 1001 dagarnir“ um að byggja upp þjónustu fyrir þennan hóp sem nær frá grunnþjónustu að sjúkrahúsþjónustu (The 1001 critical days, nóv. 2015).
Hér á landi er einnig vitundarvakning sem birtist til dæmis í undirmarkmiðum þingsályktunar um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Þar er lagt til að þjónusta við sjúklinga, sem glíma við geðrænan vanda, sé samþætt og samfelld og að uppeldisskilyrði barna stuðli að vellíðan þeirra. Aðgerðir, sem m.a. eru settar fram til að ná þessum markmiðum, eru að auka geðræna þjónustu innan heilsugæslunnar, stuðningur verði aukinn við börn sem eiga foreldra með geðvanda og sett verið á fót geðheilsuteymi í samstarfi heilbrigðisþjónustu og sveitarfélaga (Þingskjal 1217, 2015-2016).