Hjukrun.is-print-version

Af hverju ítalskir en ekki íslenskir karlmenn?

3. tbl. 2017
Helga Ólafs

Á sama tíma og Ísland trónir á toppnum í árangri í jafnréttismálum þá eru eingöngu 2% hjúkrunarfræðinga á Íslandi karlar. Til að sporna við þessu lága hlutfalli hefur Háskólinn á Akureyri, í samvinnu við Jafnréttisstofu, sett fram aðgerðaáætlun og markmið að hlutfall karlmanna, sem útskrifist af heilbrigðisvísindasviði, verði 10% árið 2023.

„Við erum alltaf að leita leiða til að fjölga karlmönnum í stéttinni,“ segir dr. Gísli Kort Kristófersson. Í félagi við dr. Eydísi Kr. Sveinbjarnardóttur við Heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri flutti hann erindi á ráðstefnunni Hjúkrun 2017 um aðgerðaáætlun og stefnumótun til að hækka hlutfall karla í hjúkrun. Verkefnið, sem styrkt er af Norrænu ráðherranefndinni, felst í að kortleggja stöðu karla í hjúkrunarnámi á Íslandi, Danmörku og Noregi. Hlutfallið þar er heldur hærra, eða 3½% í Danmörku og 9% í Noregi. Hlutfallið er enn hærra víða annars staðar en á Ítalíu eru karlmenn fjórðungur stéttarinnar og helmingur allra hjúkrunarfræðinga í Márítíus. 

Lykill að langtímabreytingum

Í erindinu veltu þau fyrir sér af hverju ítalskir karlmenn geti orðið hjúkrunarfræðingar en ekki íslenskir. Það skjóti skökku við þegar litið er til árangurs Íslands í jafnréttismálum. Ísland hefur trónað í efsta sæti undanfarin sjö ár samkvæmt Global Gender Gap Report, en það er skýrsla um jafnréttismál í heiminum, sem gefin er út árlega af Alþjóðaefnahagsráðinu. Til samanburðar er Ítalía í 50. sæti. Það sem þarna vegur þyngst er forysta kvenna á sviði stjórnmála og aðgengi að menntun. Þá er Ísland í hópi tíu efstu landanna þegar litið er til atvinnuþátttöku og tækifæra á vinnumarkaði.

Fjöldi hugmynda er á teikniborðinu í þessu samnorræna verkefni. Verið er að kortleggja stöðu karla í hjúkrunarnámi til að leita leiða hvað gengur upp og hvað ekki, og hverju þurfi að breyta. Auk þess skuli stefnt að því að hlutfall karlmanna, sem útskrifist af heilbrigðisvísindasviði árið 2023, verði 10%. Þá þarf að efla fræðslu fyrir kennara og starfsfólk. Verkefnið felst til dæmis í að finna bestu leiðirnar til að hækka hlutfall karlmanna í hjúkrunarfræði, meðal annars með eigindlegum viðtölum við nemendur og kennara og rýna í námskrána okkar með kynjagleraugum, segja þau Gísli Kort og Eydís. „Við erum að hugsa þetta sem lykil að langtímabreytingum, ekki enn eitt átaksverkefnið. Við teljum að það sé mikilvægt að muna að engar rannsóknir, sem við höfum fundið, benda til þess að það séu verk innan hjúkrunarfræðinnar sem henti betur konum en körlum eða öfugt.“

Fagið

Fagleg málefni

Vinnumarkaður

Viðtöl

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála