Framlag geðhjúkrunar til eflingar geðheilbrigðisþjónustu
Samþætt og samfelld þjónusta
Ljóst er að bæta þarf þjónustu við einstaklinga á öllum aldri sem glíma við geðröskun til lengri eða skemmri tíma. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga leggur áherslu á að þjónustan við einstaklinga með geðröskun og fjölskyldur þeirra þurfi að vera samþætt og samfelld, auk forvarna sem eru undirstaða góðrar heilbrigðisþjónustu. Til þess að svo megi verða þarf þverfagleg vinnubrögð og meðferð þar sem margar fagstéttir koma að málum, þar með taldir geðhjúkrunarfræðingar. Einnig þarf þjónustan að vera einstaklingsmiðuð, heildræn og örugg, en til að svo geti orðið þarf að vera til staðar þekking og færni í geðhjúkrun auk viðeigandi mönnunar geðhjúkrunarfræðinga og annars fagfólks.
Í skýrslunni er bent á og lögð áhersla á mikilvægi framlags geðhjúkrunarfræðinga og geðhjúkrunar til eflingar geðheilbrigðisþjónustu hér á landi. Hjúkrunarfræðingar starfa innan félags-, heilbrigðis- og menntakerfisins og hafa því góða yfirsýn yfir þá þjónustu sem fyrir hendi er í dag. Auk þess hafa þeir haldbæra vitneskju um hvað þarf að bæta til að efla faglega og samfellda þjónustu við einstaklinga með geðræn vandamál og fjölskyldur þeirra.
Þá telur félagið brýna þörf á að sérfræðingar í geðhjúkrun verði ráðnir til heilsugæslunnar til að sinna þörf fyrir aukna sálræna þjónustu þar.
Mikilvægt að byggja upp sérfræðimenntun í geðhjúkrun
Í skýrslunni eru settar fram tillögur um framlag hjúkrunarfræðinga við einstaka liði í aðgerðaáætluninni. Má þar nefna tillögur eins og að geðhjúkrunarfræðingar taki þátt í fjölgun geðheilsuteyma og stýri þverfaglegum teymum í umhverfi sem sinna fræðslu, þjálfun, ráðgjöf og stuðningi við við foreldra og fjölskyldur. Skipaður verði sérfræðingur í geðhjúkrun í starfshóp um geðræktarstarf í skólum, og skólahjúkrunarfræðingar verði ráðnir í alla grunn-, framhalds- og háskóla og þeir þjálfaðir sérstaklega í geðvernd, skimun og íhlutun eftir því sem við á. Þá telur félagið brýna þörf á að sérfræðingar í geðhjúkrun verði ráðnir til heilsugæslunnar til að sinna þörf fyrir aukna sálræna þjónustu þar. Hlutverk þeirra þar væri annars vegar ráðgjöf og handleiðsla fyrir heilsugæsluhjúkrunarfræðinga og hins vegar bein þjónusta við einstaklinga á öllum aldri með geðræn vandamál og fjölskyldur þeirra. Fjölga þarf stöðugildum sérfræðinga í geðhjúkrun og hjúkrunarfræðinga með diplómanám í geðhjúkrun á BUGL auk þess sem efla þarf þverfaglega samvinnu fagaðila þar. Einnig er lagt til að sérfræðingar í geðhjúkrun stýri fræðslu og kennslu bæði faglærðra og ófaglærðra starfsmanna sem starfa innan heilbrigðis- og félagsþjónustunnar. Á þetta ekki hvað síst við inni á hjúkrunarheimilum þar sem rannsóknir sýna að þunglyndi og kvíði eru mjög algeng mein hjá íbúunum. Til að hægt sé að veita öldruðum, sem eiga við geðræn vandamál að stríða, góða og árangursríka hjúkrun þarf hjúkrunarfræðinga með sérþekkingu í geðhjúkrun. Því þarf að fjölga hjúkrunarfræðingum með viðbótarmenntun í geðhjúkrun aldraðra á hjúkrunarheimilum svo þeir geti sinnt stöðugri fræðslu, þjálfun, stuðningi, ráðgjöf og handleiðslu hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og ófaglærðs starfsfólks sem þar starfar ásamt því að veita íbúum með geðræn vandamál þjónustu og meðferð. Auk þess er bent er á nauðsyn þess að veitt verði auknu fjármagni til hjúkrunarfræðideilda HÍ og HA til að byggja upp sérfræðimenntun í geðhjúkrun, stöðugildum sérfræðinga í geðhjúkrun verði fjölgað umtalsvert innan geðheilbrigðiskerfisins og heilsugæslunnar og fjölgað verði samningum Sjúkratrygginga Íslands við sjálfstætt starfandi meðferðaraðila í geðhjúkrun.Íslenskir hjúkrunarfræðingar hafa víðtæka, fræðilega og hagnýta þekkingu á sviði almennrar og sérhæfðrar hjúkrunar. Styrkur geðhjúkrunarfræðinga, sem starfa innan geðheilbrigðisþjónustunnar, er auk geðhjúkrunarinnar þekking þeirra á lífeðlisfræðilegum ferlum, sjúkdómafræði og meðferð líkamlegra kvilla sem skapar það heildræna vinnulag sem geðhjúkrunarfræðingar beita í störfum sínum. Geðhjúkrunarfræðingar hafa sértæka þekkingu og reynslu sem nýtist vel í þverfaglegum teymum. Aukin þátttaka þeirra í þverfaglegum teymum ásamt aukinni sérhæfðri meðferð er framlag geðhjúkrunarfræðinga til eflingar geðheilbrigðis landsmanna og þjónustu við einstaklinga með geðræn vandamál og geðsjúkdóma.
Í starfshópnum sátu
Aðalbjörg J. Finnbogadóttir, hjúkrunarfræðingur, MS. Sviðstjóri fagsviðs Fíh.
Margrét Grímsdóttir, hjúkrunarfræðingur, BS, MSW. Framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsustofnun NLFÍ. Formaður fagdeildar geðhjúkrunarfræðinga.
Guðrún Úlfhildur Grímsdóttir, geðhjúkrunarfræðingur, MS. Deildarstjóri bráðaþjónustu geðdeildar Landspítala.
Dr. Gísli Kort Kristófersson, sérfræðingur í geðhjúkrun. Lektor í geðhjúkrun við Heilbrigðisvísindasviðs Háskólans á Akureyri og formaður hjúkrunarfræðideildar HA.
Helena Bragadóttir, hjúkrunarfræðingur á geðsviði Landspítala.
Herdís Hólmsteinsdóttir, geðhjúkrunarfræðingur. Forstöðumaður vettvangsgeðteymis Reykjavíkur.
Dr. Jóhanna Bernharðsdóttir, geðhjúkrunarfræðingur. Lektor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, forstöðumaður fræðasviðs í geðhjúkrun á Landspítala.
Rósa María Guðmundsdóttir, sérfræðingur í geðhjúkrun. Hjúkrunar- og teymisstjóri í geðheilsuteymi Reykjalundar.
Sigríður Hrönn Bjarnadóttir, sérfræðingur á sviði geðhjúkrunar með áherslu á afleiðingar ofbeldis. Verkefnastjóri geðteymis geðheilsustöðvar Breiðholts.
Höf. Aðalbjörg Finnbogadóttir