Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga sameinast B-deild LSR
Alþingi hefur samþykkt lög þess efnis að Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga (LH) sameinist B-deild LSR 1. janúar 2018. Aðdragandi málsins er sá að í lok árs 2011 fól stjórn LH nefnd að gera úttekt á hagkvæmni þess að sameina LH og LSR. Tilefni þess var m.a. að sjóðfélögum LH hefur farið ört fækkandi á síðustu árum en virkir sjóðfélagar sjóðsins voru einungis 265 á síðastliðnu ári. Nefndin skilaði af sér úttekt á árinu 2013 sem var m.a. lögð fram í stjórn LH og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Úttektin fékk að auki kynningu í stjórn LSR og var lögð fyrir fjármála- og efnahagsráðherra. Í úttektinni voru lagðar fram þrjár mismunandi leiðir við sameiningu sem gengu mislangt. Með lagasetningu þessari er farið eftir þeirri leið sem lengst gekk með fullri sameiningu sjóðanna en með henni næst fram mest hagræðing.
Við sameininguna renna eignir og skuldbindingar LH í B-deild LSR. Réttindi sjóðfélaga, sem eru hjá LH, verða flutt yfir í B-deild LSR og réttindakerfi sjóðanna samræmt. Þess hefur verið gætt að enginn sjóðfélagi tapi réttindum vegna sameiningarinnar. Samkvæmt lögum um LH er hjúkrunarfræðingum heimilt að greiða í sjóðinn án tillits til starfshlutfalls en samkvæmt lögum um B-deild LSR má starfið eigi vera minna en hálft starf til að heimilt sé að greiða í B-deild. Þessi sérregla fyrir sjóðfélaga LH fellur niður og mun sama regla gilda um þá og sjóðfélaga í B-deildar LSR. Þó mun þeim hjúkrunarfræðingum sem greiddu af minna en 50% starfshlutfalli á árinu 2017, vera það heimilt áfram.
Lífeyrisréttindi í B-deild LSR
Allir nýir sjóðfélagar LSR greiða í A-deild en B- deild sjóðsins var lokað fyrir nýjum sjóðfélögum í árslok 1996 eins og LH. Þeir sem eiga rétt til aðildar að B-deild skulu vera í að minnsta kosti hálfu starfi, þó með þeirri undantekningu fyrir sjóðfélaga LH sem fram kemur hér að ofan og eru í minna en hálfu starfi á árinu 2017. Ef um tímabundna ráðningu er að ræða má hún ekki vera til skemmri tíma en eins ársFyrir hvert ár í fullu starfi ávinnst 2% lífeyrisréttur og hlutfallslega fyrir lægra starfshlutfall.
Sjóðfélagar eiga rétt á töku lífeyris við 65 ára aldur. Þeir sem ná 95 ára reglu geta þó hafið töku lífeyris fyrr, allt frá 60 ára aldri, eða þegar samanlagður lífaldur og iðgjaldagreiðslutími er samtals 95 ár. Sjóðfélaginn þarf þá að fara á lífeyri í beinu framhaldi af starfi og hafa náð reglunni fyrir 64 ára aldur.
Skilyrði fyrir töku lífeyris úr B-deild er að sjóðfélagi hafi látið af því starfi sem veitti rétt til aðildar að sjóðnum. Lífeyririnn reiknast sem hlutfall af dagvinnulaunum fyrir lokastarf eða annað hærra launað starf sem sjóðfélaginn hefur hugsanlega gegnt í samtals meira en 10 ár. Þeir sjóðfélagar sem hefja töku lífeyris í beinu framhaldi af starfi eiga kost á því að velja á milli meðaltalsreglu eða eftirmannsreglu. Almenna reglan er að breytingar á lífeyri fylgi meðaltalsreglu, þ.e. fylgi þeim breytingum sem verða á föstum launum opinberra starfsmann fyrir dagvinnu. Hagstofa Íslands reiknar þessar breytingar mánaðarlega. Breytingar á lífeyri samkvæmt eftirmannsreglu fylgja hins vegar kjarasamningsbundnum breytingum sem verða á launum fyrir lokastarf (eða eftir atvikum hærra launað starf en lokastarf). Verði breytingar á launum eftirmanns í starfi kannar sjóðurinn í samráði við launagreiðanda hvort lífeyrisþegi skuli njóta þeirrar hækkunar.
Sjóðfélagar eru hvattir til þess að hafa samband við sjóðinn til þess að fá upplýsingar og ráðgjöf um lífeyrisréttindi sín en einnig má nálgast upplýsingar bæði á vef LSR og inni á sjóðfélagavefnum.
Auk ellilífeyris er greiddur makalífeyrir eftir látinn sjóðfélaga og á maki rétt á ævilöngum lífeyri í B-deild. Fjárhæð makalífeyris fer eftir áunnum réttindum látins sjóðfélaga og fær makinn helming af þeim rétti. Auk þess getur makinn átt rétt á 20% viðbótarréttindum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Sjóðurinn greiðir einnig örorkulífeyri til þess að bæta upp tekjumissi þeirra sjóðfélaga sem hafa þurft að minnka við sig vinnu eða látið af störfum vegna sjúkdóms eða slyss. Réttur til örorkulífeyris miðast við að starfsorkutap sé metið 10% eða meira. Örorkulífeyrir tekur mið af örorkumati og fjárhæð fer eftir þeim réttindum sem sjóðfélagi hefur áunnið sér við starfsorkutap. Ef rekja má örorku til starfs er réttur framreiknaður til 65 ára aldurs. Sjóðurinn greiðir einnig barnalífeyri til barna látinna sjóðfélaga og örorkulífeyrisþega til 18 aldurs.
Sjóðfélagar eru hvattir til þess að hafa samband við sjóðinn til þess að fá upplýsingar og ráðgjöf um lífeyrisréttindi sín en einnig má nálgast upplýsingar bæði á vef LSR og inni á sjóðfélagavefnum. Rétt er að benda á að alltaf þarf að sækja sérstaklega um lífeyri með því að skila inn útfylltri og undirritaðri umsókn og sjóðurinn kallar svo eftir upplýsingum frá launagreiðanda um starfslok.