Hjukrun.is-print-version

Margnota búnaður á heilbrigðisstofnunum er varasamur sjúklingum

Ljósmynd: Depositphotos
3. tbl. 2017
Þórdís Hulda Tómasdóttir
Á heilbrigðisstofnunum er margt sem getur haft áhrif á öryggi sjúklinga. Eitt af því er hætta á sýkingum sem geta leitt til alvarlegri veikinda og lengri dvalar á sjúkrahúsum, aukins kostnaðar og jafnvel valdið dauða. Árlega er talið að allt að 5–10% allra sem leggjast inn á vestræn sjúkrahúsfáispítalasýkingu af einhverju tagi. Algengastar eru þvagfærasýkingar, skurðsárasýkingar, neðri öndunarvegasýkingar og blóðsýkingar, en að meðaltali lengist dvöl sjúklinga um þrjá legudaga óháð tegund sýkingar (European Centre for Disease Prevention and Control, 2015). Á Landspítalanum var tíðni spítalasýkinga 7,1% árið 2016. Það þýðir að miðað við fjölda innlagna fengu tæplega 1800 einstaklingar spítalasýkingu, eða hátt í 5 sjúklingar á dag! Ljóst er að afar mikilvægt er að koma í veg fyrir sýkingar til að auka öryggi sjúklinga og starfsmanna.

Smitleiðir

Ferðalag sýkla um heilbrigðisstofnanir getur verið með ýmsum hætti og kallast það ferli smitleið. Algengasta smitleiðin er snerting sem jafnframt er sú smitleið sem auðveldast er að rjúfa. Snertismit skiptist í beint og óbeint snertismit. Beint snertismit felur í sér að líkamleg snerting sé á milli tveggja aðila þar sem örverur flytjast á milli hýsils og næms einstaklings og taka sér tímabundna eða varanlega bólfestu á húð þessa einstaklings. Beint snertismit berst á milli sjúklinga með höndum, yfirleitt höndum starfsmanna, og er rofið með handhreinsun. Þegar um óbeint snertismit er að ræða ferðast örverur milli hýsils og næms einstaklings með viðkomu á hlut sem hefur mengast við snertingu einhvers annars. Þá er smitleið rofin með handhreinsun starfsmanna og sjúklinga sem og umhverfisþrifum ásamt þrifum á búnaði og snertiflötum (Ásdís Elfarsdóttir Jelle, 2016).

Mikil smithætta getur fylgt margnota búnaði sem er notaður við marga sjúklinga þar sem líftími örvera getur verið langur á yfirborði þessara hluta og því fjöldi sjúklinga berskjaldaður fyrir smitinu.
Margir sýklar geta lifað á yfirborði hluta mánuðum saman og þannig verið uppspretta spítalasýkinga og jafnvel valdið faröldrum inni á sjúkrahúsum. Flestar gramjákvæðar bakteríur eins og Enterococcus spp. (þar með talið vankómýsín-ónæmir enterókokkar, VÓE), Staphylococcus aureus (þar með talið metisillín-ónæmir stafýlókokkar aureus, MÓSA) eða Streptococcus spp. geta lifað mánuðum saman á þurru yfirborði og sama á við um margar gram-neikvæðar bakteríurlíkt og E.coli, Pseudomonas og fleiri bakteríur. Ýmsar öndunarfæraveirur, eins og inflúensuveira og rhinoveira (kvefveira), geta lifað á þurru yfirborði frá nokkrum klukkustundum upp í nokkra daga en veirur úr meltingarvegi, líkt og nóróveiran og rotaveiran, geta lifað á þurru yfirborði í um það bil tvo mánuði (Kramer, Schwebke, og Kampf, 2006).

Örverur á margnota búnaði

Ljóst er að á sjúkrahúsum eiga sjúkdómsvaldandi bakteríur greiða leið til og á milli sjúklinga með óbeinu snertismiti. Þannig getur mikil smithætta fylgt margnota búnaði sem er notaður við marga sjúklinga þar sem líftími örvera getur verið langur á yfirborði þessara hluta og því fjöldi sjúklinga berskjaldaður fyrir smitinu. Margnota búnaður eru t.d. lífsmarkamælar, hlustunarpípur, hurðarhúnar, baðstólar, hjólastólar, lyftarar, lyftusegl, leikföng, millitjöld, milliveggir, rúmfatnaður og margt fleira.

Rannsóknir hafa sýnt að ófullnægjandi hreinsun á margnota búnaði hefur valdið spítalasýkingum og stuðlað að faröldrum (Rutala og Weber, 2008). Til að mynda hafa blóðþrýstings-manséttur og hitamælar, þau tæki sem eru einna mest notuð á heilbrigðisstofnunum, verið tengd við spítalasýkingar og faraldra ónæmra baktería (Uneke og Ijeoma, 2011). Þá hafa niðurstöður rannsókna sýnt að sömu örverur finnast á hlustunarpípum og á höndum þeirra sem notuðu þær (Longtin o.fl.,2014). Margnota búnað þarf því að hreinsa, sótthreinsa og eftir atvikum dauðhreinsa eftir hverja notkun og á milli allra sjúklinga (Schabrun og Chipchase, 2006). Sums staðar hefur verið brugðið á það ráð að setja kassa við rúmstæði sjúklings með lífsmarkamælum og hlustunarpípu ætluðum eingöngu þeim sjúklingi, sem er svo hreinsaður við útskrift sjúklings ásamt rúmstæðinu sjálfu.

Millitjöld og milliveggir

Nærumhverfi sjúklings er skilgreint sem svæðið sem er næst honum á sjúkrahúsinu og mikilvægt er að rjúfa allt mögulegt snertismit frá fjærumhverfi inn í nærumhverfi hans. Tæki og áhöld í nærumhverfi eru ætluð þeim sjúklingi eingöngu. Á einbýli tilheyrir allt í herberginu nærumhverfi sjúklingsins. Á fjölbýli afmarkast nærumhverfi af millitjöldum, milliveggjum eða næsta umhverfi við rúmstæði sjúklings (Sýkingavarnadeild LSH, 2015).

Millitjöld eru tjöld úr tauefni eða pappír sem hanga á sjúkrastofum (fjölbýlum) heilbrigðisstofnana til að afmarka nærumhverfi sjúklinga. Rannsóknir sýna að millitjöld eru oft menguð af sjúkdómsvaldandi bakteríum sem og ónæmum bakteríum á borð við VÓE og MÓSA (Klakus o.fl., 2008). Fjölmargir þættir valda því að millitjöld í nærumhverfi sjúklinga geta aukið umhverfismengun og þar með hættuna á óbeinu snertismiti. Í fyrsta lagi snerta starfsmenn og sjúklingar iðulega millitjöldin fyrir, eftir og á meðan á umönnun stendur og það getur hæglega borið örverur á tjöldin. Í öðru lagi sýna rannsóknir að örverur geta borist til sjúklinga af höndum starfsmanna þó að þeir hafi framkvæmt handhreinsun því starfsmenn eru líklegir til þess að snerta millitjöldin eftir handhreinsunina og síðan snerta sjúklinginn. Í þriðja lagi er erfitt að hreinsa og sótthreinsa millitjöldin og endurnýjun á þeim er ábótavant. Þar sem örverur geta lifað á dauðu yfirborði í marga daga eða vikur geta millitjöld átt sök á spítalasýkingum (Ohl o.fl., 2012).

Millitjöld í nærumhverfi sjúklinga á að þvo eða skipta um á minnst 14 daga fresti og alltaf þegar þau eru sjáanlega óhrein og hugsanlega menguð. Í öllum tilvikum þarf að skipta um millitjöld hafi þau verið notuð við rúmstæði sjúklings í einangrun eða rúmstæði sjúklings í fjölbýli sem greinst hefur óvænt með ónæmar bakteríur, s.s. MÓSA (Statum Serum Institut, 2017).

Milliveggir eru veggir úr plasti eða áli sem eru festir í veggi á sjúkrastofum til að afmarka nærumhverfi sjúklinga og því auðvelt að hreinsa þá og sótthreinsa til að draga úr möguleikanum á óbeinu snertismiti og þar með gæta öryggis sjúklinga og starfsmanna (Rutala og Weber, 2008).

Sængin uppreidd …

Rúmfatnaður og sængur eru hluti af nærumhverfi sjúklinga og eru skilgreind sem margnota búnaður sem þarf að hreinsa og sótthreinsa milli sjúklinga. Rannsóknir sýna að í óhreinum rúmfatnaði finnst mikill fjöldi baktería, bæði eðlileg húðflóra og sýklar, líkt og Staphylococcus aureus, Enterococcus faecium, Pseudomonas aeruginosa og Enterobacter aerogenes (Pinon o.fl.,2013).

Tilkynnt hefur verið um marga faraldra ónæmra baktería sem rekja má til sjúkrahúsrúma, sængurfatnaðar og rúmdýna, þar með talið faraldra af völdum MÓSA, VÓE og ESBL-myndandi baktería (Creamer og Humphreys, 2008). Við það að taka sængurver utan af sængum eða setja ver á sængur þyrlast upp mikið magn ryks sem inniheldur húðflögur, bakteríur, hár og annað sem getur hæglega borist á milli sjúklinga eða til starfsfólks. Þá getur hreinn rúmfatnaður smitast af bakteríum vegna óhreininda á fatnaði starfsmanna sem eru að setja hreint á sængurnar, og þar með ersjúklingurinn
berskjaldaður fyrir bakteríum (Pinon o.fl., 2013).

Sængurveralausar sængur geta stuðlað að auknu öryggi meðal sjúklinga þar sem þeim fylgja ekki sængurveraskipti og þar með fela þær í sér minni líkur á snertismiti.
Sængurveralausar sængur geta stuðlað að auknu öryggi meðal sjúklinga þar sem þeim fylgja ekki sængurveraskipti og þar með fela þær í sér minni líkur á snertismiti. Stundum fylgir falskt öryggi sængurveraskiptum, t.d. þegar skipt er um sængurver á líkamsvessamenguðum sængum, en sængurveralausar sængur fara strax í þvott við mengun og eru því öruggari að þessu leyti. Eins fela þær í sér tímasparnað fyrir heilbrigðisstofnanir þar sem ekki þarf að setja ver utan um þær, handtökum við að búa um fækkar og það losnar um tíma starfsmanna til að sinna sjúklingum. Þá eru sængurveralausar
sængur betri fyrir starfsfólkið þar sem minni líkur eru á að starfsfólk smitist af sýklum og auk þess er mun minna álag á axlir starfsfólksins.

Handhreinsun í langermafatnaði er nú meira sullið

Aldrei er sú góða vísa of oft kveðin að handhreinsun sé mikilvægasta atriðið í forvörnum gegn snertismiti, bæði beinu og óbeinu. Til þess að handhreinsun sé fullnægjandi er nauðsynlegt að starfsmenn heilbrigðisstofnana beri hvorki úr né skart á höndum sér né séu með gervineglur eða naglalakk. Þá hafa niðurstöður rannsókna sýnt að ómögulegt er að fylgja reglum um rétta handhreinsun eftir ef ermar vinnufatnaðar ná niður að úlnliðum líkt og á langerma læknasloppum. Sýnt hefur verið fram á fylgni á milli mengaðra handa og magns örvera á langerma sloppum. Rannsókn, sem var gerð á 119 starfsmönnum gjörgæsludeildar, sýndi að 17% starfsmanna voru með mengaðar hendur stuttu eftir handhreinsun og voru þeir starfsmenn líklegri til að vera í langerma sloppum (Bearman o.fl., 2014). Þá sýna rannsóknir einnig að sjaldnar er skipt um langerma sloppa fyrir hverja vakt en annan starfsmannafatnað og um leið er sýnt fram á að örveruflóran eykst verulega á fatnaði sem er ekki þveginn
eftir hverja vakt (Treakle o.fl., 2009).

Í löndunum í kringum okkur, sem við berum okkur gjarnan saman við, eru í gildi leiðbeiningar frá opinberum aðilum um vinnufatnað og skart á höndum starfsmanna til að minnka hættu á sýkingu af vinnufatnaði og auðvelda handhreinsun.
Í löndunum í kringum okkur, sem við berum okkur gjarnan saman við, eru í gildi leiðbeiningar frá opinberum aðilum um vinnufatnað og skart á höndum starfsmanna til að minnka hættu á sýkingu af vinnufatnaði og auðvelda handhreinsun. Árið 2007 setti heilbrigðisráðuneytið í Englandi fram leiðbeiningar um vinnufatnað og skart á höndum, og voru leiðbeiningarnar uppfærðar 2010. Þar kemur fram að heilbrigðisstarfsmenn, sem sinna sjúklingum, skuli klæðast vinnufatnaði með stuttum ermum og forðast hálsbindi og vinnusloppa með löngum ermum (UK Department of Health, 2010). Danir gerðu það sama þegar stjórn heilbrigðismála gaf út leiðbeiningar sem kveða á um að allir heilbrigðisstarfsmenn, sem sinna sjúklingum, eigi að vera í stutterma vinnufatnaði ásamt því að vera úr- og skartlausir (Sundhedsstyrelsen, 2011). Þá hafa Norðmenn og Svíar tekið upp sömu vinnubrögð (Folkehelseinstituttet, 2016, Vårdhandboken, 2017).

Ljóst er að í mörg horn er að líta þegar kemur að því að gæta að öryggi sjúklinga á heilbrigðisstofnunum þegar spítalasýkingar og dreifing ónæmra baktería er annars vegar. Fram kemur á heimasíðu sóttvarnalæknis að á deildarskiptum sjúkrahúsum skuli samkvæmt reglugerð um sóttvarnarráðstafanir starfa sýkingavarnanefnd og eftir atvikum sýkingavarnadeild sem hafi það hlutverk að skrá aðgerðatengdar sýkingar og stuðla að sýkingavörnum innan sjúkrahússins. Mjög virk sýkingavarnadeild er starfandi á LSH — og mikil sóknarfæri eru innan heilbrigðissviða háskólanna því sýkingavarnir eru enn sem komið er ekki kenndar sem námsgrein þrátt fyrir mikla þörf þar á. Kenna verður um sýkingavarnir og vinnubrögð sem draga úr sýkingahættu frá byrjun náms til að festa í sessi góð vinnubrögð sjúklingum til handa.

Hreinsun og sótthreinsun á margnota búnaði er auðveld leið til að gæta að öryggi sjúklinga okkar og er hluti að grundvallarsmitgát sem alltaf ber að beita gagnvart öllum sjúklingum.
Til mikils er að vinna að hindra beint og óbeint snertismit innan heilbrigðisstofnana. Hreinsun og sótthreinsun á margnota búnaði er auðveld leið til að gæta að öryggi sjúklinga okkar og er hluti að grundvallarsmitgát sem alltaf ber að beita gagnvart öllum sjúklingum. Sameiginlegt átak heilbrigðisstarfsmanna um að fara eftir leiðbeiningum í sýkingavörnum til þess að rjúfa smitleiðir getur hreinlega bjargað mannslífum.

Heimildir

Ásdís Elfarsdóttir Jelle (2016). Sýkingar tengdar heilbrigðisþjónustu og smitleiðir.
Tímarit hjúkrunarfræðinga, 1, 2–8.

Bearman, G., Bryant, K., Leekha, S., Mayer, J., Munoz-Price, S., og White, J. (2014). Healthcare personnel attire in non-operating room settings.
Infection Control and Hospital Epidemiology, 35 (2), 107–121.

Creamer, E., og Humphrey, H. (2008). The contribution of beds to healthcareassociated infection: The importance of adequate decontamination.
Journal of Hospital Infection, 69 (1), 8–23.

European Centre for Disease Prevention and Control (2015). Healthcare-associated infections in European hospitals.
Sótt 2. október 2017 á: https://ecdc.europa.eu/en/publications-data/healthcare-associated-infections-european-hospitals.

Folkehelseinstituttet (2016). Nasjonal veilederfor handhygiene.
Sótt 1. október 2017 á https://www.fhi.no/globalassets/dokumenterfiler/rapporter/handhygieneveileren.pdf

Klakus, J., Vaughn, N.L., og Boswell, T.C. (2008). Methicillin-resistant Staphylococcus aureus contamination of hospital curtains.
Journal of Hospital Infections, 68, 189–190.

Kramer, A., Schwebke, I., og Kampf, G. (2006). How long do nosocomial pathogens persist on inanimate surfaces? A systematic review.
BMC Infectious Diseases, 6 (130).

Longtin, Y., Schneider, A., Tschopp, C., Renzi, G., Gayet-Ageron, A., Schrenzel,J., og Pittet, D. (2014). Contamination of stethoscopes and physicians’ hands after a physical examination.
Mayo Clinic Proceedings, 89 (3), 291–299.

Ohl, M., Schweizer, M., Graham, M., Heilmann, K., Boyken, L., og Diekema, D. (2012). Hospital privacy curtains are frequently and rapidly contaminated with potentially pathogenic bacteria.
American Journal of Infection Control, 40, 904–906.

Pinon, A., Gachet, J., Alexandre, V., Decherf, S., og Vialette, M. (2013). Microbiological contamination of bed linen and staff uniforms in a hospital.
Advances in Microbiology, 3, 515–519.

Rutala, W.A., og Weber, D.J. (2008). Guidelines for Disinfection and Sterilization in Healthcare Facilities. Centers for Disease Control and Prevention.
Sótt 2. september 2017 á: https://stacks.cdc.gov/view/cdc/47378.

Schabrun, S., og Chipchase, L. (2006). Healthcare equipment as a source of nosocomial infection: A systematic review.
Journal of Hospital Infection, 63, 239–245.

Statum Serum Institut (2017). Infektionshygiejne.
Sótt 15. september 2017 á https://www.ssi.dk/~/media/Indhold/DK%20%20dansk/Smitteberedskab/Infektionshygiejne/NIR/NIR%20Tekstiler.ashx.

Sundhedsstyrelsen (2011). Vejledning om arbejdsdragt inden for sundheds og plejesektoren.
Sótt 15.september 2017 á https://www.sst.dk/Udgivelser/2011/Vejledning%20om%20arbejdsdragt%20inden%20for%20sundheds-%20og%20plejesektoren.aspx.

Sýkingavarnadeild LSH (2015). Gæðaskjal 24.01.01.02.01 Nær- og fjærumhverfi sjúklinga.
Reykjavík: Landspítali-háskólasjúkrahús.

Treakle, A., Thom, K., Furuno, J.P., Strauss, S., Harris, A., og Perencevich, E. (2009). Bacterial contamination of healthcare worker’s white coats.
American Journal of Infection Control, 31 (2), 101–105.

UK Department of Health (2010). Uniforms and workwear: An evidence base for developing local policy.
Sótt 2. október 2017 á http://webarchive.nationalarchives.gov.uk/20130107105354/http://www.dh.gov.uk/prod_consum_dh/groups/dh_digitalassets/documents/digitalasset/dh_078435.pdf.
 
Uneke, C.J., og Ijeoma, P.A. (2011). The potential for transmission of hospitalacquired infections by non-critical medical devices: The role of thermometers and blood pressure cuffs.
World Health & Population, 12 (3), 5–12.

Vårdhandboken (2017). Hygien, infektioner och smittspridning.
Sótt 12 október 2017 á: http://www.vardhandboken.se/Kategori/Hygien,_infektioner_och_smittspridning.

 

Fagið

Sýkingar og smit

Öryggi

Faggrein

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála