Hjukrun.is-print-version

Samanburður á heilsufari, færni, einkennum og meðferðarmarkmiðum íbúa á íslenskum hjúkrunarheimilum eftir áætluðum lífslíkum

3. tbl. 2017
Ritrýnd grein: Jóhanna Ósk Eiríksdóttir, Helga Bragadóttir og Ingibjörg Hjaltadóttir

Jóhanna Ósk Eiríksdóttir, skurðlækningasviði og lyflækningasviði Landspítala
Helga Bragadóttir, hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands
Ingibjörg Hjaltadóttir, hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og flæðissviði Landspítala
 

Tilgangur: Á síðustu árum hefur dvalartími íbúa á íslenskum hjúkrunarheimilum styst og því hafa margir þeirra þörf fyrir líknarmeðferð og umönnun við lífslok fljótlega eftir flutning þangað. Mikilvægt er að þekkja breytingar á heilsufari og einkennum sem verða þegar nær dregur lífslokum svo að íbúarnir fái viðeigandi umönnun og líði sem best. Tilgangur rannsóknarinnar var að varpa ljósi á heilsufar, færni, einkenni og meðferðarmarkmið íbúa á hjúkrunarheimilum, sem hafa hálfs árs lífslíkur eða minni, og bera saman við aðra íbúa.

Aðferð: Rannsóknin var lýsandi þversniðs- og samanburðarrannsókn byggð á fyrirliggjandi RAI-gögnum (e. Resident Assessment Instrument) frá íbúum allra hjúkrunarheimila á Íslandi. Kvarðar og breytur, sem lýsa heilsufari, færni, einkennum og meðferðarmarkmiðum, byggðust á síðasta mati ársins 2012 (N=2337). Lífslíkur íbúa voru áætlaðar í sama mati og flokkaðar í annars vegar hálft ár eða minna
og hins vegar meira en hálft ár.

Niðurstöður: Meðalaldur var 84,7 ár (sf=8,2; spönn=20–106 ár) og hlutfall kvenna var 65,6%. Heilsufaríbúa með minni lífslíkur var verra en annarra íbúa. Vitræn geta mæld á vitrænum kvarða (0–6) var að meðaltali 5,0 (sf=1,3) meðal íbúa með minni lífslíkur en hálft ár, en annarra 3,3 (sf=1,8), p<0,001. Færni þeirra var einnig verri, meðaltal á löngum ADL-kvarða (0-28) var 26,3 (sf=3,0) samanborið við 16,5 (sf=8,3), og byltur voru einnig algengari (27,9%) en meðal annarra íbúa (12,8%), p<0,001. Íbúar með minni lífslíkur voru með meiri verki og önnur erfið einkenni heldur en aðrir íbúar. Hlutfallslega helmingi fleiri voru með verki daglega (61,3%) og þeir voru einnig oftar með slæma eða óbærilega verki (42,7%) en aðrir (14,8%), p<0,001.

Ályktanir: Niðurstöðurnar staðfesta mikla umönnunarþörf og erfið einkenni þeirra sem dvelja á hjúkrunarheimilum, einkum þeirra sem eru með skemmri lífslíkur. Leggja þarf áherslu á fræðslu og þjálfun starfsfólks, ásamt breyttu mönnunarfyrirkomulagi í samræmi við heilsufar og þarfir þessa hóps.

Lykilorð: Hjúkrunarheimili, heilsufar, einkenni, verkir, lífslíkur

3.tbl. 2017: Samanburður á heilsufari, færni, einkennum og meðferðarmarkmiðum íbúa á íslenskum hjúkrunarheimilum eftir áætluðum lífslíkum

Fagið

Ritrýnd grein

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála