Reynsla ungmenna með langvinnan heilsuvanda af flutningi frá barnaþjónustu til fullorðinsþjónustu Landspítala
Kristín Lilja Svansdóttir, Landspítala
Árún Kristín Sigurðardóttir, heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri
Elísabet Konráðsdóttir, göngudeild barna á Landspítala
Tilgangur: Mikilvægt er að standa faglega að flutningi ungmenna með langvinnan heilsuvanda frá barnaþjónustu til fullorðinsþjónustu svo að þau nýti sér heilbrigðisþjónustu sem skyldi. Ef misbrestur verður þar á getur það haft neikvæð áhrif á heilsu, lífsgæði og framtíðarhorfur þeirra. Sýnt hefur verið fram á að ekki er staðið faglega að slíkum flutningi og mikil þörf er á að bæta undirbúning hans. Rannsakendur vildu kanna reynslu ungmenna með langvinnan heilsuvanda af flutningi frá barnaþjónustu til fullorðinsþjónustu Landspítala.
Aðferð: Notuð varfyrirbærafræðileg eigindleg rannsóknaraðferð samkvæmt greiningaraðferð Vancouver-skólans. Þátttakendur, sem voru valdir með tilgangsúrtaki, voru ellefu ungmenni með langvinnan heilsuvanda á aldrinum 20–26 ára. Tekið var eitt viðtal við níu þátttakendur og tvö við tvo þeirra.
Niðurstöður: Ungmennin litu á sig sem táninga en ekki fullorðna þegar þau voru 18 ára. Þeim fannst þau vera illa undirbúin og óvið-búin því að takast á við breytingarnar sem fylgdu flutningi frá barnaþjónustu til fullorðinsþjónustu. Með meiri reynslu hafa þau þó að eigin mati þroskast og aðlagast nýjum aðstæðum. Draga má þá ályktun af svörum ungmennanna að ekki hafi verið staðið faglega að flutningi þeirra frá barnaþjónustu til fullorðinsþjónustu Landspítala. Þeim fannst flutningurinn atburður sem hafði hvorki aðdraganda né eftirfylgni. Öll ungmennin komu með tillögur að því sem betur mætti fara við flutninginn og undirbúning hans.
Ályktanir: Ef ekki er staðið vel að undirbúningi ungmenna með langvinnan heilsuvanda við flutning frá barnaþjónustu til fullorðinsþjónustu er reynsla þeirra af flutningnum erfið. Niðurstöðurnar gefa vísbendingu um að fagfólk á Landspítala þurfi að endurskoða og samræma verklag sitt og að hjúkrunarfræðingar séu í lykilstöðu til að stjórna úrbótum á þessu sviði.
Lykilorð: Langvinnur heilsuvandi, reynsla, ungmenni, yfirfærsla