Hjukrun.is-print-version

Munu ungir hjúkrunarfræðingar starfa við hjúkrun?

3. tbl. 2017
Helga Ólafs

Yfir þriðjungur nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga og hjúkrunarnema telja líklegt að þeir muni starfa við annað en hjúkrun í framtíðinni. Fyrsta árið í starfi einkennist oft af streitu og kvíða og telja nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar að auki þurfi herminám og klíníska kennslu til að vera betur undirbúin fyrir starfið. Þá fara allmargir ungir hjúkrunarfræðingar sem hætta störfum í hjúkrun í flugfreyjustarf. Þetta er meðal rannsóknarniðurstaðna á hjúkrunarfræðinemum og ungum hjúkrunarfræðingum sem framkvæmdar hafa verið nýlega við Háskóla Íslands undir leiðsögn Birnu G. Flygenring lektor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og fjallað var um á ráðstefnunni Hjúkrun 2017.

Þriðji hver vill starfa við annað en hjúkrun

Birna segir áhyggjuefni hversu margir ungir hjúkrunarfræðingar hætta í hjúkrun á fyrstu tveimur árum eftir útskrift bæði hér á landi og erlendis. Að því er fram kom í könnun sem framkvæmd var meðal 112 hjúkrunarfræðinema við bæði Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri sem útskrifuðust vorið 2017, er aðstoð samstarfsmanna sá áhrifaþáttur sem vegur þyngst í ákvörðun þeirra að starfa við hjúkrun á næstu árum. Þá vega þættir eins og sanngjörn laun og hæfilegt vinnuálag, að öryggi starfsmanna sé tryggt, góður starfsandi og vinnuleiðbeiningar, áhugavert starf og stuðningur og leiðsögn stjórnenda mikið í þeirri ákvörðun. Um þriðjungur aðspurðra telja líklegt að þeir myndu starfa við annað en hjúkrun í framtíðinni. Þá hafði þriðjungur einnig velt því oft fyrir sér að skipta um námsgrein. Enginn marktækur munur var á milli nemenda við háskólana.

Meirihluti sem hætta fara í flugfreyjustörf

Að því er fram kemur í rannsókn sem náði til 50 hjúkrunarfræðinga á aldrinum 27-43 ára sem hætt hafa í hjúkrun störfuðu 61% þeirra sem flugfreyjur. Meirihlutinn, eða sjö af hverjum tíu, hefur áhuga á að starfa við hjúkrun í framtíðinni en rúmlega helmingur þeirra telur það óvíst hvenær það verður. Ein aðalástæðan að hjúkrunarfræðingar hætta í hjúkrun eru launakjör. Aðrir þættir eru mikið vinnuálag og streita í starfi. Erfiðleikar við að samræma vinnu og fjölskyldulíf hafa einnig töluverð áhrif á ákvörðun þeirra að hætta í hjúkrun. Svarhlutfall í rannsókninni var 88%. Þessar kannanir er hluti af stærri rannsókn Birnu G. Flygenring lektors og Herdísar Sveinsdóttir prófessor á því hvers vegna ungir hjúkrunarfræðingar hætta í hjúkrunarstörfum.

Ljósm. Kristinn Ingvarsson

 

Fagið

Fagleg málefni

Hjúkrun

Mönnunarmál

Viðtöl

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála