„Það á engin fagstétt hugmyndafræði núvitundar“
Gísli Kort Kristófersson stóð fyrir vinnusmiðjunni Núvitund fyrir hjúkrunarfræðinga á ráðstefnunni Hjúkrun 2017. Allflestir þátttakendur þekktu til hugmyndafræði núvitundar enda núvitundarmeðferð verið mikið til umfjöllunar og rannsóknar hér á landi sem erlendis. Í doktorsrannsókn sinni beindi Gísli Kort sjónum sínum að áhrifum núvitundarmeðferðar (e. mindfulness based intervention) á einkenni þunglyndis, kvíða, lífsgæða og fleira meðal einstaklinga með fíknisjúkdóma og heilaskaða (Kristofersson, 2012). Í vinnusmiðjunni kynnti Gísli rannsóknir sem styðja notkun núvitundar til að minnka streitu, koma í veg fyrir kulnun í starfi og styrkja innri stjórnrót meðal hjúkrunarfræðinga. Jafnframt fjallaði hann um áhættu og ávinning sem fólginn er í notkun núvitundar. Einnig fór hann yfir grunnatriði núvitundar og kenndi þátttakendum æfingar sem þeir geta notað til að takast á við streitu í starfi og einkalífi.
Ekki henta sömu lausnir öllum
Gísli byrjaði erindi sitt á því að kynna 10. lögmál Jante: Þú skalt ekki halda að þú getir kennt okkur eitthvað (Sandemose, 1933) og minnti viðstadda hjúkrunarfræðinga á að það sé ekkert sem virki fyrir alla nema vatn og súrefni. Þetta var áhugaverð kynning á viðfangsefni vinnusmiðjunnar, að nota eina af meginstoðum hugmyndafræði núvitundar: æðruleysi, vísa í áratugagamlar heimildir og gefa þátttakendum strax til kynna að ekki henti sömu lausnir öllum nema þá lausnir sem varða lífsnauðsynlegar grunnþarfir hverrar manneskju. Áður en hann hóf að kynna inntak hugmyndafræði núvitundar velti hann því upp að svo virtist sem ákveðnar fagstéttir vilji eigna sér fræðilegar hugmyndir og kastaði fram þeirri spurningu til þátttakenda hvaða fagstétt hefði eignað sér hugmyndafræði núvitundar – án þess að svara spurningunni beint. Líkt og Gísli Kort leyfi ég lesendum að velta fyrir sér svarinu.Núvitundin er vöðvi sem þarf að þjálfa líkt og aðra vöðva
Talið er að núvitund byggist á hugmyndafræði sem á sér meira en 2500 ára sögu. Megininntakið er að fólk beini athyglinni að augnablikinu og dæmi ekki það sem það verður vart við. Núvitund gerir kleift að mæta mótlæti með skýrleika, stöðugleika, innsæi og æðruleysi og tilgangurinn er að temja sér meðvitaða athygli á núinu. Þetta er gert með ýmsum æfingum því núvitundin er eins og vöðvi sem þarf að þjálfa líkt og aðra vöðva. Núvitund er almennt viðhorf um sátt, vera opinn og forvitinn og með núvitund er hægt að rjúfa vítahring áreitis og vanhugsaðra viðbragða. Gísli lýsti tengslum núvitundar og samskipta enda átti það vel við þar sem störf hjúkrunarfræðinga snúast ekki aðeins mjög mikið um samskipti heldur hafa samskipti þeirra við skjólstæðingana oft meðferðarlegt gildi. Gísli sagði núvitundaræfingarnar leiða til þess að þeir sem þær stunduðu stöldruðu við eitt andartak í núvitund á milli áreitis og svars, þar af leiðandi yrðu samskiptin meðvitaðri; meðvitaðar athafnir tækju við af ómeðvituðum viðbrögðum.
Búið væri að sýna fram á að hjúkrunarfræðingar, sem stunda núvitund reglulega, búa yfir meiri næmni, skilningi og þolinmæði, sterkari nærveru og tengslum og auknu innsæi.
„Núvitund er almenn geðrækt í sjálfu sér“
En hvað gerir núvitund fyrir hjúkrunarfræðinga sérstaklega? Gísli benti á að núvitund er almenn geðrækt í sjálfu sér og jafn mikilvægt fyrir hjúkrunarfræðinga að hlúa að og stunda reglubundna geðrækt eins og að stunda reglubundna líkamsrækt. Núvitund gerir hjúkrunarfræðingum einnig kleift að vera meira til staðar – vera hér og nú í augnablikinu – og það leiðir til þess að skjólstæðingar þeirra, aðstandendur og samstarfsfólk finna sterkar fyrir nærveru þeirra. Hjúkrunarfræðingarnir eru nær þeim af því þeir gefa sér tíma til að vera viðstaddir. Búið væri að sýna fram á að hjúkrunarfræðingar, sem stunda núvitund reglulega, búa yfir meiri næmni, skilningi og þolinmæði, sterkari nærveru og tengslum og auknu innsæi. Hvað sjúklingana varðar lagði Gísli áherslu á að einn helsti kostur núvitundar sem meðferðarúrræðis væri að hún gengi vel með öðrum úrræðum. Þannig væri hægt stunda núvitundarhugleiðslu samhliða göngu eða hlaupum og samhliða samtalsmeðferð og lyfjameðferð vegna geðröskunar og hún væri gagnlegt úrræði við streitu og álagi í vinnu og einkalífi. Gísli benti loks á að núvitund ætti ekki alltaf við og að ákveðið áhættumat þurfi að eiga sér stað. Sem dæmi má nefna að ef einstaklingur hefur orðið fyrir miklum sálrænum áföllum getur núvitundarmeðferð haft neikvæð áhrif á líðan viðkomandi og jafnvel í versta falli orsakað geðrof.Gott verkfæri í verkfæratöskuna
Í lokin leiddi Gísli þátttakendur í tvær núvitundarhugleiðslur og studdist við myndbandsupptökur hans sjálfs. Allur hópurinn ásamt Gísla sat með lokuð augun og beindi sjónum inn á við að morgni fimmtudagsins 28. september á annarri hæð Hótel Nordica. Það var líkt og tíminn stæði í stað, viðstaddir nutu augnabliksins og fundu á eigin núvitundarvöðva að þarna væri komið gott verkfæri í verkfæratöskuna sem hægt er að grípa til til að takast á við streitu og kulnun og eflir eigin stjórnrót. En iðkendur uppskera eins og þeir sá. Eftir því sem núvitund er iðkuð reglulegar, því hjálplegri reynist hún. .
Erindi Gísla var gagnlegt, skemmtilegt og valdeflandi. Sá hjúkrunarfræðingur, sem þetta ritar, þekkir vel til núvitundar sem meðferðar fyrir skjólstæðinga og nýtir sér hana einnig daglega. Gísli efldi bæði kjark og hugmyndir þátttakenda um fagmennsku hjúkrunar þegar hann sýndi fram á að hugmyndafræði er ekki eign neinna ákveðinna fagstétta. Við hjúkrunarfræðingar getum og eigum að nýta okkur núvitund, bæði í meðferðarlegum tilgangi fyrir skjólstæðinga okkar og til að styrkja okkar eigin stjórnrót, sporna við kulnun og streitu.
Höf. Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir
Heimildir:
Kristofersson, G.K. (August, 2012). The effects of mindfulness based intervention on impulsivity, symptoms of depression, anxiety, experinces and quality of life of persons suffering from substance use disorders and traumatic brain injury. Doktorsritgerð. Minneapolis, MN: University of Minnesota.
Sandemose, A. (1933). En flyktning krysser sitt spor. Ósló: Aschehoug.