Hjukrun.is-print-version

Framlag hjúkrunarfræðinga á nýju ári

Guðbjörg Pálsdóttir

Nýtt ár er gengið í garð sem vonandi felur í sér ný og spennandi tækifæri. Líkt og við gerum gjarna í byrjun árs setjum við okkur persónuleg áheit, en það er undir hverjum og einum komið hve mikið við leggjum á okkur að ná tilsettum markmiðum og með hvaða hugarfari við nálgumst það. Verður glasið mitt hálf tómt eða hálf fullt á nýju ári?

Árið leggst vel í mig og ég hlakka til að taka þátt í ráðstefnunni Hjúkrun í fararbroddi sem haldin er 18. janúar á vegum Hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands. Þar er tækifæri til að koma saman og taka þátt í spennandi dagskrá sem spannar mörg fræðasvið hjúkrunar en ráðstefnan er byggð upp á erindum, vinnusmiðjum og veggspjaldakynningum. Aðgangur er ókeypis og ennþá er hægt að skrá sig til leiks. Vonandi sjá sem flestir hjúkrunarfræðingar sér tækifæri til að taka þátt í henni enda nauðsynlegt að koma saman með öðrum hjúkrunarfræðingum á öðrum vettvangi en vinnunni og ná að lyfta sér upp úr dagleg amstri.

Ekki gleyma að huga að eigin heilsu

Byrjun ársins er oft á tíðum mjög þungur tími í heilbrigðiskerfinu sökum árstíðabundinna veikinda og flensufaraldra. Hjúkrunarfræðingar fara ekki varhluta af því í sínu starfi og veikjast einnig eins og aðrir. Ég vil biðja ykkur um að gæta fyrst og fremst að eigin heilsu því án hennar getum við ekki sinnt öðrum, staðið vaktina og veitt góða hjúkrun.

Á þessum fundum kom það berlega í ljós að hjúkrunarfræðingar framtíðarinnar líta á hjúkrun sem launaða vinnu en ekki lífsstíl og starfsumhverfi og launakjör vega þungt þegar kemur að því að velja vinnustað eftir útskrift.

Búið er að halda fundi með 4. árs hjúkrunarfræðinemum í Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri til að kynna starfsemi félagsins og ræða við þá um framtíðina. Í dag er áætlað að heildarfjöldi nemenda sem gæti útskrifast í vor sé um 115 manns. Það eru góðar fréttir fyrir heilbrigðiskerfið. Það leikur enginn vafi á að þessi árgangur á eftir að láta að sér kveða í réttindabaráttu hjúkrunarfræðinga. Á þessum fundum kom það berlega í ljós að hjúkrunarfræðingar framtíðarinnar líta á hjúkrun sem launaða vinnu en ekki lífsstíl og starfsumhverfi og launakjör vega þungt þegar kemur að því að velja vinnustað eftir útskrift. Mikilvægt er að atvinnurekendur geri sér grein fyrir þessum mikilvægu þáttum. 

Fundur með nýjum heilbrigðisráðherra

Framundan er fundur með nýjum heilbrigðisráðherra og ef marka má málflutning hans á fyrstu dögum í starfi getum við horft bjartsýn fram á árið. Fulltrúar félagsins munu ræða m.a. um  hvar ný tækifæri liggja í framlagi hjúkrunarfræðinga, en einnig deila með ráðherra áhyggjum okkar á brotthvarfi hjúkrunarfræðinga úr heilbrigðisgeiranum. Af nægum upplýsingum er að taka sem sýna alvarleika málsins. 

Konur í heilbrigðiskerfinu hafa sent frá sér yfirlýsingu af kynbundinni mismunun og kynferðislegri áreitni og ofbeldi í starfi líkt og margar aðrar starfstéttir. Fyrir hönd félagsins skrifaði ég undir viljayfirlýsingu um aðgerðir gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum sem Vinnueftirlit ríkisins hafði framgang um.

Félagið mun ekki láta sitt eftir liggja og hafin er vinna við viðbragðsáætlun í tengslum við „metoo“ átakið.  Ég vona að árið leggist vel í ykkur og að það verði okkur gott og gjöfult. 

Heilbrigðiskerfi

Hjúkrun

Kjör

Mönnunarmál

Stjórnvöld

Vinnumarkaður

Pistlar

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála