Hjukrun.is-print-version

Athafnir og þátttaka eldri borgara

1. tbl. 2018
Ritrýnd grein: Margrét Brynjólfsdóttir, Guðrún Pálmadóttir og Sólveig Ása Árnadóttir

Margrét Brynjólfsdóttir, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Patreksfirði.
Guðrún Pálmadóttir, Heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri: Iðjuþjálfunarfræðideild.
Sólveig Ása Árnadóttir, Heilbrigðisvísindasvið, Læknadeild: Námsbraut í sjúkraþjálfun.


Tilgangur: Meðalævilengd Íslendinga fer stöðugt hækkandi og á sama tíma eru vaxandi kröfur um að aldraðir eyði ævikvöldinu í heimahúsum. Árið 2013 voru 13,6% íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum 65 ára eða eldri. Tilgangur verkefnisins var að rannsaka athafnir og þátttöku í daglegu lífi meðal heimabúandi eldri borgara á þessu svæði.

Aðferð: Rannsóknin var lýsandi þversniðsrannsókn og byggðist á heildarúrtaki allra íbúa rannsóknarsvæðisins sem höfðu náð 65 ára aldri og bjuggu heima. Þátttakendur voru 68 konur og 61 karl á aldrinum 65-91 árs (þátttökuhlutfall=80,1%). Gögnum var safnað með staðlaða mælitækinu „Efri árin, mat á færni og fötlun“ þar sem þátttakendur meta erfiðleika sína við athafnir,tíðni þátttöku sinnar og takmörkun sína á þátttöku. Niðurstöðurnar eru á jafnbilakvarða (0-100) þar sem fleiri stig þýða minni erfiðleika við athafnir, tíðari þátttöku eða minni takmörkun á þátttöku. Niðurstöður voru bornar saman eftir kyni og aldurshópum (65-74 ára og 75-91 árs) og marktektarmörk sett við p<0,05.

Niðurstöður: Í heildina álitu karlar erfiðleika sína við athafnir minni (M=68,0) en konur (M=61,3) og hið sama gilti um yngri aldurshópinn (M=72,2) miðað við þann eldri (M=57,4). Konur tóku oftar þátt í athöfnum (M=51,9) en karlar (M= 49,2) og yngri aldurshópurinn (M=52,0) var einnig virkari en sá eldri (M= 49,3). Eldri hópurinn taldi þátttöku sína líka takmarkaðri en sá yngri (M=68,8 og M=78,8). Þátttakendur lýstu ýmiss konar hindrunum sem eldri borgarar þurfa að yfirstíga til að eiga möguleika á að sjá um sig sjálfa og að taka þátt í samfélaginu.

Ályktanir: Niðurstöðurnar gefa innsýn í athafnir og þátttöku eldri borgara á afmörkuðu dreifbýlu svæði og hafa hagnýtt gildi fyrir öldrunarþjónustu á rannsóknarsvæðinu.

Lykilorð: athafnir daglegs lífs (ADL), dreifbýli, félagsleg þátttaka, heilsa, öldrun.

1. tbl. 2018: Athafnir og þátttaka eldri borgara: Lýðgrunduð rannsókn á 65 til 91 árs íbúum á sunnanverðum Vestfjörðum

 

Fagið

Ritrýnd grein

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála