Mat hjúkrunarfræðinga sem sjá um bráðatilvik á landsbyggðinni á eigin hæfni
Íris Kristjánsdóttir, Deildarstjóri Slysa- og bráðamóttaka heilbrigðisstofnun Suðurnesja
Herdís Sveinsdóttir, hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og skurðlækningasvið Landspítala
Tilgangur: Bráðamóttökum landsbyggðarinnar er ætlað að veita skammtímabráðaþjónustu sjúklingum sem hafa slasast eða veikst alvarlega. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvernig hjúkrunarfræðingar landsbyggðarinnar, sem taka á móti og sinna bráðveikum og slösuðum sjúklingum, meta hæfni sína.
Aðferð: Rannsóknin er lýsandi þversniðsrannsókn sem gerð var vorið 2016. Notuð var íslensk þýðing mælitækisins Nurse Competence Scale (NCS) sem samanstendur af 73 spurningum sem skiptast í sjö hæfniþætti. Spurningalisti var sendur til 87 hjúkrunarfræðinga á landsbyggðinni sem taka á móti og sinna að minnsta kosti tíu bráðveikum og slösuðum sjúklingum á mánuði. Svörun var 60%. Gögnin voru greind með lýsandi tölfræði og ályktunartölfræði.
Niðurstöður: Hjúkrunarfræðingar mátu hæfni sína mesta og framkvæmdu oftast verkefni í hæfniþættinum stjórnun í aðstæðum. Þeir mátu hæfnina minnsta í tryggingu gæða en framkvæmdu sjaldnast verkþætti í kennslu- og leiðbeinandahlutverki. Í einstökum hæfniverkefnum mátu þeir hæfni mesta og framkvæmdu oftast hæfniverkefnið sjálfstæði í störfum. Hjúkrunarfræðingar með meira en fimm ára starfsaldur meta hæfni sína marktækt meiri í fimm hæfniþáttum (stjórnun í aðstæðum, starfshlutverk, greiningarhlutverk, hjúkrunaríhlutanir og kennslu- og leiðbeinandahlutverk) en þeir sem hafa styttri starfsaldur. Hjúkrunarfræðingar sem höfðu lokið viðbótarnámi í hjúkrun að loknu B.S. prófi mátu hæfni sína marktækt meiri í öllum hæfniþáttum en þeir sem höfðu ekki lokið viðbótarnámi.
Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar gefa vísbendingu um að viðbótarnám og starfsreynsla hafi áhrif á hvernig hjúkrunarfræðingar sem sinna bráðatilvikum á landsbyggðinni meta hæfni sína. Stjórnendur stofnana almennt ættu að gera hjúkrunarfræðingum fært að sækja sér endurmenntun og leitast við að halda í þá sem hafa mikla starfsreynslu.
Lykilorð: Hæfni, bráðamóttaka, landsbyggð, hjúkrunarfræðingar, hjúkrun bráðveikra.