Hjukrun.is-print-version

Notkun interRAI-upphafsmats til að meta þjónustuþörf í heimahjúkrun og félagslegri heimaþjónustu

1. tbl. 2018
Ritrýnd grein: Ingibjörg Hjaltadóttir og Hallveig Skúladóttir

Ingibjörg Hjaltadóttir, Landspítala og Háskóla Íslands
Hallveig Skúladóttir, Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Höfða


Bakgrunnur: Mikil fjölgun í hópi þeirra sem vilja búa í sjálfstæðri búsetu þrátt fyrir versnandi heilsufar og óska eftir þjónustu heimahjúkrunar gefur tilefni til þess að skoða kosti þess að nota samræmt matstæki, eins og interRAI-matstækið (Resident Assessment Instrument) sem metur heilsufar, færni og þjónustuþörf þjónustuþega.

Tilgangur: Að skoða heilsufar, færni og þjónustuþörf einstaklinga sem njóta þjónustu heimahjúkrunar á Akranesi og á Sauðárkróki samkvæmt upplýsingum úr interRAI-HC upphafsmati og MAPLe-reikniritinu sem forgangsraðar einstaklingum í þjónustuflokka eftir upplýsingum úr matinu. Jafnframt að bera saman niðurstöður og skoða muninn á þeim og athuga hvort gagnlegt er fyrir heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu að nota slíkt matstæki.

Aðferð: Rannsóknin var megindleg afturskyggn lýsandi samanburðarrannsókn. Úrtakið var 60 skjólstæðingar heimahjúkrunar á Akranesi og 42 skjólstæðingar á Sauðárkróki.

Niðurstöður: Meðalaldur skjólstæðinga heimahjúkrunar á Akranesi var 79,4 ár en 83,4 ár á Sauðárkróki. Aldursflokkurinn 81‒90 ára var fjölmennastur, 43,3% á Akranesi og á Sauðárkróki 48,8%. Fleiri skjólstæðingar á Akranesi fundu til einmanaleika, höfðu dregið úr þátttöku í félagsstarfi og höfðu orðið fyrir áföllum síðustu 90 daga en skjólstæðingar á Sauðárkróki. Einvera yfir daginn og skerðing á skammtímaminni hjá skjólstæðingum var sambærileg á Akranesi og á Sauðárkróki. Um helmingur skjólstæðinga á báðum stöðum var með mæði eða öndunarerfiðleika og meirihluti skjólstæðinga á báðum stöðum fann til þreytu, eða í um 90% tilvika. Um þriðjungur skjólstæðinga á báðum stöðum hafði hlotið byltur síðustu 90 daga. Fleiri þurftu aðstoð við lyfjatöku á Sauðárkróki en á Akranesi. Ekki var marktækur munur á dreifingu í MAPLe-flokka og þjónustuþörf á Akranesi og á Sauðárkróki. Skjólstæðingar á Sauðárkróki fengu ekki kvöldþjónustu frá heimahjúkrun og hvorki kvöld- né helgarþjónustu frá félagslegri heimaþjónustu en slík þjónusta var veitt á Akranesi.

Ályktanir: Niðurstöður gefa til kynna að interRAI-HC-upphafsmatið og MAPLe-flokkarnir geti nýst bæði heimahjúkrun og félagslegri heimaþjónustu til að meta stöðu og þjónustuþörf skjólstæðinga þeirra og þar með veita þjónustu við hæfi og forgangsraða þjónustu til þeirra sem mest þurfa á henni að halda.
Lykilorð: Aldraðir, félagsleg heimaþjónusta, heimahjúkrun, interRAI-HC, MAPLe, upphafsmat.

1.tbl. 2018: Notkun interRAI-upphafsmats til að meta þjónustuþörf og forgangsraða þjónustu í heimahjúkrun og félagslegri heimaþjónustu


Fagið

Ritrýnd grein

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála