Hjukrun.is-print-version

Reynsla fólks af auknum þroska í kjölfar sálrænna áfalla

1. tbl. 2018
Ritrýnd grein: Hulda Sædís Bryngeirsdóttir og Sigríður Halldórsdóttir

Hulda Sædís Bryngeirsdóttir, Starfsendurhæfingu Norðurlands, aðjúnkt við Heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri
Sigríður Halldórsdóttir, Prófessor og deildarformaður framhaldsnámsdeildar, Heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri


Bakgrunnur: Rannsóknir á afleiðingum sálrænna áfalla hafa aðallega beinst að neikvæðum afleiðingum þeirra. Tilgangur þessarar rannsóknar var að auka þekkingu og dýpka skilning á reynslu fólks af sálrænum áföllum og auknum þroska í kjölfar þeirra.

Aðferð: Rannsóknaraðferðin var fyrirbærafræðileg og gögnum safnað með einu til tveimur viðtölum við 12 einstaklinga sem orðið höfðu fyrir sálrænu áfalli og náð auknum þroska í kjölfarið, samtals 14 viðtöl. Þátttakendur voru 34-52 ára, fimm karlar og sjö konur.

Niðurstöður: Titill rannsóknarinnar; „Eins og að fara niður svarta brekku og koma svo upp græna hlíðina,“ er orðrétt lýsing eins þátttakanda á þeirri lífsreynslu að verða fyrir sálrænu áfalli og ná meiri þroska í kjölfar þess. Þetta lýsir vel þeirri erfiðu vegferð sem áfallið var upphafið að. Þátttakendur misstu fótanna við áfallið en töldu innri þætti á borð við þrautseigju, seiglu, og hugrekki til að horfast í augu við líðan sína, skipta mestu máli í úrvinnslu þess. Öll urðu þau fyrir frekari áföllum á vegferðinni, höfðu mikla þörf fyrir stuðning og umhyggju, og sögðu frá jákvæðum áhrifum þess að takast á við ný verkefni. Allir þátttakendur töldu upphaf aukins þroska tilkomið vegna innri þarfar fyrir breytingar. Sá aukni þroski sem þau upplifðu fannst þeim einkennast af bættum og dýpri tengslum við aðra, meiri persónulegum þroska, jákvæðari tilveru, aukinni sjálfsþekkingu og bættri sjálfsmynd. Þátttakendur lýstu „þungum dögum“ þrátt fyrir meiri þroska en fannst þau engu að síður standa uppi sem sigurvegarar.

Ályktanir: Rannsóknarniðurstöður benda til þess að það að verða fyrir áfalli sé verulega krefjandi lífsreynsla en að tilteknir innri þættir séu forsenda aukins þroska í kjölfar áfalls. Mikilvægt er að hjúkrunarfræðingar og annað fagfólk bregðist við áföllum skjólstæðinga sinna með snemmtækri greiningu og íhlutun, ásamt stuðningi, umhyggju og eftirfylgni.

Lykilhugtök:
Geðhjúkrun, sálrænt áfall, aukinn þroski í kjölfar áfalls, fyrirbærafræði, viðtöl.

1. tbl. 2018: "Eins og að fara niður svarta brekku og koma svo upp græna hlíðina": Reynsla fólks af auknum þroska í kjölfar sálrænna áfalla

Fagið

Ritrýnd grein

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála