Aðalmálið er að hlúa að sjálfum sér
Starf hjúkrunardeildarstjóra er krefjandi og álagið oft og tíðum mikið. Mikilvægi þess að hlúa reglubundið að sér og að hafa stuðning frá næsta yfirmanni eru lykilþættir í vellíðan meðal hjúkrunardeildarstjóra að því er kemur fram í nýlegri meistararannsókn Aðalbjargar Stefaníu Helgadóttur. Meirihluti þeirra höfðu á einhverjum tímapunkti í starfi fundið fyrir einkennum kulnunar.
Aðalbjörg útskrifaðist úr grunnnámi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands sumarið 2011, þá 39 ára gömul. Fjölbreytt lífsreynsla hennar hefur nýst henni vel á þeim vettvangi sem hún hefur starfað við síðan, en hún starfar nú sem deildarstjóri hjúkrunar á Heilsustofnuninni í Hveragerði. Sjálf hefur hún margoft fundið það hve mikilvægt það er að gæta að eigin heilsu og vellíðan – ekki síst þegar lífsstarfið felur í sér að annast um aðra. Aðferðir til að efla vellíðan og farsæld hjúkrunarfræðinga og annarra sem starfa við að annast um fólk hafa lengi verið henni hugleiknar.
„Ég hef hitt og unnið með alls konar fólki sem býr að fjölþættri lífs- og starfsreynslu sem því hefur annaðhvort tekist að nýta sér til sjálfseflingar eða sem hefur dregið úr því starfsorku og starfsgleði“
Aðalbjörg skrifaði bókina Samskiptaboðorðin, sem kom út árið 2016, sem fjallar um samskipti og áhrif þeirra á líðan og farsæld. Í grunnnámi í hjúkrun vann framkvæmdi hún viðtalsrannsókn um handleiðslu í starfi, en í meistaranáminu hélt hún áfram að skoða mikilvægi þess að hlúa að starfandi hjúkrunarfræðingum og þá sérstaklega bæði gagnlegar stjórnunaraðferðir og með hvaða hætti stjórnendurnir sjálfir hlúa að sér. Viðfangsefni meistararannsóknarinnar átti nokkuð langan meðgöngutíma. „Þegar ég lít til baka tel ég að vegferð mín í námi og starfi hafi leitt mig að þessu efni. Ég hef hitt og unnið með alls konar fólki sem býr að fjölþættri lífs- og starfsreynslu sem því hefur annaðhvort tekist að nýta sér til sjálfseflingar eða sem hefur dregið úr því starfsorku og starfsgleði. Það má því segja að meistararannsóknin sé sprottin úr þessum hugðarefnum mínum: að efla þekkingu á aðferðum sem geta eflt kollega mína, starfsánægju þeirra, ímynd hjúkrunar og vakið athygli á gagnlegum stjórnunaraðferðum.“
Tilgangur rannsóknarinnar var að auka þekkingu á reynslu hjúkrunardeildarstjóra á Íslandi af álagi og vandasömum viðfangsefnum í starfi og bjargráðum í því samhengi. Rannsóknin er eigindleg og fylgir fyrirbærafræðilegri aðferð Vancouver-skólans. Þátttakendur, 16 konur, voru valdir með tilgangsúrtaki en skilyrðið var að þeir væru á aldrinum 35 til 55 ára og hefðu sjö ára starfsreynslu sem stjórnendur. Aðalbjörg hitti hjúkrunardeildarstjórana á starfsstöðvum sínum sem að sögn hennar var mjög gagnlegt og studdi rannsóknina og úrvinnslu hennar. Með því fékk hún meiri skilning á starfi og starfsaðstæðum hvers og eins stjórnanda, auk þess að fá dýpri og yfirgripsmeiri rannsóknargögn.
Vellíðan og sátt eða örmögnun og vansæld
Niðurstöður rannsóknarinnar komu fram í fjórum meginþemum: Maður fer aldrei úr þessari kápu vísar til starfs hjúkrunardeildarstjóranna sem þeir sögðu umfangsmikið og ábyrgðina takmarkalausa. Þú ræður eiginlega ekki þó þú ráðir vísar til starfsumhverfis þeirra þar sem þær finna fyrir áhrifaleysi sem birtist í því að þær ráða litlu um eðli og ákvarðanir yfirstjórnenda sem þær þurfa svo að framfylgja. Það sést þegar manni líður vel vísar til líðanar þeirra í starfi sem er annaðhvort vellíðan og sátt í starfi eða örmögnun og vansæld. Maður þarf að vera viðbúinn hreinlega öllu vísar til reynslu hjúkrunardeildarstjóranna af bjargráðum til að takast á við starfið. Undirstöðubjargráðið endurspeglast svo í meginniðurstöðu rannsóknarinnar, að Aðalmálið er að hlúa að sjálfum sér.
Nokkrar þeirra sem ekki nutu stuðnings næsta yfirmanns höfðu fundið leið til sáttar með því að hlúa að sjálfum sér. En þær sem bæði hlúðu að sér reglubundið og nutu stuðnings næsta yfirmanns fundu fyrir vellíðan og sátt í starfi sínu.
Aðspurð hvað kom helst á óvart í niðurstöðunum var meginniðurstaðan hve mikilvægt það var að þær tækju mjög meðvitaða ákvörðun um að hlúa að sjálfum sér til að geta tekist á við krefjandi starf deildarstjórans – og alveg einkanlega þegar álagið í starfinu var mikið. Þær nefndu til dæmis jóga, gönguferðir, fjallgöngur, hlaup, svefn, borða reglulega næringarríkan mat, fara í nudd og hitta ástvini sína og vini. Að sögn Aðalbjargar kom þeim einnig á óvart hve þáttur næstu yfirmanna hjúkrunardeildarstjóranna var fyrirferðamikill í líðan þeirra í starfi. Þar skiptist hópurinn í tvennt: þær sem fengu stuðning næsta yfirmanns leið almennt betur í starfi og voru sáttari en þær sem ekki fengu stuðning næsta yfirmanns leið ver í starfi og voru ósáttari. Nokkrar þeirra sem ekki nutu stuðnings næsta yfirmanns höfðu fundið leið til sáttar með því að hlúa að sjálfum sér. En þær sem bæði hlúðu að sér reglubundið og nutu stuðnings næsta yfirmanns fundu fyrir vellíðan og sátt í starfi sínu. „Það kom mér á óvart hve þessi niðurstaða var afgerandi og skýr.“
Miklar kröfur gerðar til hjúkrunardeildarstjóra
„Ég er ekki viss um að þetta sé veruleiki sem einungis hjúkrunardeildarstjórar standa frammi fyrir. Bbæði reynsla mín af lífssamferð með alls konar fólki og einnig reynsla mín af samskiptum við dvalargesti í starfi mínu sem deildarstjóri hjúkrunar á Heilsustofnun, hefur leitt í ljós að skortur á stuðningi næstu yfirmanna samhliða erfiðleikum við að forgangsraða sjálfum sér fremst – hlúa að sér fyrst – leiðir af sér vanlíðan og ósátt í starfi,“ segir Aðalbjörg. Hún telur þó, í ljósi rannsóknarniðurstaðna hennar og fleiri, að hjúkrunardeildarstjórar séu berskjaldaðri fyrir því að verða fyrir kulnun í starfi. Ástæðurnar telur hún helstar vera vegna eðlis starfsins, stöðugra krafna um hagkvæmni og bestu gæði þjónustu á sama tíma og þeir leitast við að hlúa að starfsfólki sínu sem þarf að hlaupa æ hraðar og vera stöðugt reiðubúið fyrir, já, næstum hvað sem er, segir hún enn fremur. „Það er mjög auðvelt í því umhverfi sem heilbrigðisþjónustan er núna að hjúkrunardeildarstjórar festist á milli annars vegar skilaboða frá yfirstjórnum stofnananna, sem þeir starfa hjá, og hins vegar krafna undirmanna sinna. Þeir eru mikilvægur hlekkur þarna á milli og til að allt gangi sem best fyrir sig þurfa þeir að búa yfir yfirsýn, samskiptafærni og vera lausnamiðaðir, ásamt því að vera faglega færir, metnaðarfullir og með skarpa framtíðarsýn. Þetta eru ekki smávægilegar kröfur sem eru settar á herðar hjúkrunardeildarstjóra!“
„Hjúkrunardeildarstjórarnir, sem ég talaði við, höfðu flestallir, á einhverjum tímapunkti í starfi, fundið einhver einkenni kulnunar. Í kjölfarið tóku þeir ákvörðun um að annaðhvort vera áfram á vinnustaðnum eða gera breytingar.“
Aðalbjörg segir að munurinn á hjúkrunardeildarstjórum sem millistjórnendum í heilbrigðisþjónustu og öðrum millistjórnendum sé einkum sá að þeir bera fleiri hatta, líkt og hún orðar það. Hún bendir þannig á að millistjórnendur eru oftast „eingöngu“ stjórnendur en hjúkrunardeildarstjórar eru einnig klíniskir hjúkrunarfræðingar sem þurfa oftar en ekki að stökkva í ýmis hjúkrunarverk samhliða því að vera stjórnendur. „Viðmælendur mínir bentu einmitt á að starf stjórnandans þarf of oft að víkja fyrir hefðbundnum hjúkrunarstörfum og það kemur aftur niður á rekstri og stjórnun starfsstöðvanna. Við megum heldur ekki gleyma því að hjúkrunardeildarstjórar stýra mjög misstórum einingum, eru ekki allir í þeirri stöðu að geta útdeilt verkefnum og ábyrgð og starfseiningarnar, sem þeir stýra, styðja við skjólstæðinga sem eru oft að ganga í gegnum þjáningarmesta tímabil ævi sinnar.“ Allir þessir þættir gera hjúkrunardeildarstjóra viðkvæmari en margar aðrar starfsstéttir fyrir kulnun að sögn Aðalbjargar.
„Hjúkrunardeildarstjórarnir, sem ég talaði við, höfðu flestallir, á einhverjum tímapunkti í starfi, fundið einhver einkenni kulnunar. Í kjölfarið tóku þeir ákvörðun um að annaðhvort vera áfram á vinnustaðnum eða gera breytingar. Það var einmitt þessi innri styrkur þeirra, þessi sannfæring um að þær hefðu sjálfar mest um eigin vellíðan og stöðu að segja, sem gerði útslagið. Þessi sannfæring kom ekkert endilega einmitt á þeirri stundu þegar þær tóku að finna til einkenna kulnunar. Oft gerðist eitthvað sem leiddi til þess að þær hugsuðu mér sér: „Nei, hingað og ekki lengra.“ Ég var oft orðlaus yfir styrk þeirra og æðruleysi og líka yfir því hve meðvitaðar þær voru um eigin sjálfsvitund sem birtist í því að þær eru hversdagshetjur sem aldrei myndu bera sigra sína eða sorgir á torg. Gjörðir þeirra lifa með þeim sem starfa með þeim og sem þær starfa fyrir.“
Fyrst og síðast að forgangsraða sjálfum sér fremst
Í ljósi niðurstaðnanna hvetur Aðalbjörg alla hjúkrunarfræðinga, hvar svo sem þeir starfa og hvaða starfshlutverki þeir sinna, til að gæta að því fyrst og síðast að forgangsraða sjálfum sér fremst. „Að gæta þess að iðka samkennd í eigin garð með því að borða reglulega, hreyfa sig, eiga í uppbyggilegum og nærandi samskiptum og rækta hugann og hjartað, til dæmis með núvitundarhugleiðslu. Þetta er örugglega oft hægara um að tala en í að komast en er svo mikilvægt, ekki síst í því samfélagi sem við búum í í dag,þar sem ekki aðeins kröfur starfsins eru miklar heldur erum við sítengd við samfélagsmiðla, alltaf er hægt að ná í okkur og við viljum standa okkur vel á öllum vígstöðvum.“
„Allir viðmælendur mínir voru konur og allar höfðu næstu yfirmenn sem einnig voru konur. Þrátt fyrir það fundu þær ekki endilega stuðning næsta yfirmanns; sumar lýstu jafnvel tilfinningu um skeytingarleysi og að vera haldið niðri.“
Jafnframt telur hún að hjúkrunarfræðingar sem fagstétt þurfi að standa saman og gæta hver að öðrum. „Ég skoðaði sérstaklega þá staðreynd að hér á landi eru 98% hjúkrunarfræðinga konur. Allir viðmælendur mínir voru konur og allar höfðu næstu yfirmenn sem einnig voru konur. Þrátt fyrir það fundu þær ekki endilega stuðning næsta yfirmanns; sumar lýstu jafnvel tilfinningu um skeytingarleysi og að vera haldið niðri. Þarna tel ég vera sóknarfæri, að við leitum leiða til að nálgast hver aðra og hvert annað og vera til staðar hvert fyrir annað. Það er mikið ríkidæmi fólgið í því að tilheyra fagstétt sem hefur að meginmarkmiði að stuðla að lífsgæðum og vellíðan annarra. Okkur er oft sniðinn þröngur stakkur, erum í of litlum skóm miðað við sjúklingahópinn, eins og einn af viðmælendum mínum orðaði það. Við getum kannski ekki breytt kerfinu í einu vetfangi en við getum byrjað á að hlúa að okkur sjálfum og hvert að öðru.“