Endurskoðað trúnaðarmannakerfi
Hjúkrunarfræðingar eru stór starfstétt og það er öllum hjúkrunarfræðingum til hagsbóta að hafa öfluga tengiliði inni á flestum vinnustöðum. Með því heyrast viðhorf hjúkrunarfræðinga alls staðar að og sjónarmið þeirra koma skýrt fram.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur í nokkurn tíma skoðað hlutverk og verkefni trúnaðarmanna félagsins. Núgildandi kerfi hefur verið óbreytt frá stofnun þess. Starfsmenn kjara- og réttindasviðs Fíh hafa nú í haust unnið að breytingum og einföldun á trúnaðarmannakerfinu. Þetta breytta fyrirkomulag var samþykkt af stjórn fíh um miðjan nóvember.
Kerfið einfaldað til að laða að fleiri trúnaðarmenn
Oft hefur reynst erfitt að fá trúnaðarmenn til starfa og utanumhald kerfisins verið flókið. Með breytingunum verður kerfið einfaldara og ábyrgð og álagi létt af hinum hefðbundna trúnaðarmanni. Þetta er gert í þeirri von að betur gangi að fá hjúkrunarfræðinga til að vera trúnaðarmenn. Nýju trúnaðarmannakerfi er skipt í tvo flokka, annars vegar hefðbundið trúnaðarmannakerfi og hins vegar trúnaðarmannaráð. Trúnaðarmenn verða fyrst og fremst tengiliðir inn á deildir og/eða stofnanir. Þeim til stuðnings verður minni hópur aðaltrúnaðarmanna sem situr í trúnaðarmannaráði. Trúnaðarmannaráð fær sérstaka fræðslu og laun frá félaginu fyrir störf sín. Starfsskyldur þeirra eru ríkari en almennra trúnaðarmanna sem og ábyrgð gagnvart félaginu. Trúnaðarmenn í trúnaðarmannaráði munu meðal annars hafa það hlutverk að þjóna fleiri en einni starfseiningu.
Til þess að einfalda utanumhald með kerfinu hefur verið ákveðið að kosning trúnaðarmanna og aðaltrúnaðarmanna í trúnaðarmannaráð skuli fara fram á tveggja ára fresti. Þannig er hægt að yfirfara kerfið á tveggja ára fresti þó vissulega sé hægt að skipta um trúnaðarmenn þess á milli ef nauðsyn ber til. Kosning trúnaðarmanna fer fram í janúar 2019 og kosning í trúnaðarmannaráð í febrúar 2019. Endurskoðað trúnaðarmannakerfi byggist á eldri vinnureglum Fíh um trúnaðarmenn og þeim lögum sem trúnaðarmenn starfa eftir.
Kosning í trúnaðarmannaráð Fíh starfstímabilið 2019–2021
Ágæti trúnaðarmaður.
Viltu hafa áhrif á laun og kjarasamninga hjúkrunarfræðinga?
Auglýst er eftir trúnaðarmönnum í trúnaðarmannaráð, og þurfa framboð að berast fyrir 1. mars 2019.
Hlutverk trúnaðarmannaráðs er að:
- Vera samninganefnd fíh innan handar við gerð kjarasamninga.
- Vinna að undirbúningi kröfugerðar fíh á hverjum tíma með starfsmönnum kjara- og réttindasviðs.
- Vinna að áherslumálum fíh í kjaramálum.
- Gegna ráðgjafahlutverki, en ráðið kemur þó ekki beint að gerð kjarasamninga.
Í ráðinu sitja samtals 18 fulltrúar auk starfsmanna kjara- og réttindasviðs Fíh. Skipan í ráðið tekur mið af viðsemjendum Fíh í miðlægum kjarasamningum og skiptist hún þannig:
Frá ríki, stofnunum þar sem hjúkrunarfræðingar vinna samkvæmt kjarasamningi við fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, sitja fulltrúar frá hverri heilbrigðisstofnun ríkisins.
- Sex fulltrúar Landspítala (einn frá hverju klínísku sviði)
- Einn frá Sjúkrahúsinu á Akureyri
- Einn af hverri heilbrigðisstofnun:
- Heilbrigðisstofnun Norðurlands
- Heilbrigðisstofnun Suðurlands
- Heilbrigðisstofnun Vestfjarða
- Heilbrigðisstofnun Vesturlands
- Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
- Heilbrigðisstofnun Austurlands
- Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
Frá öðrum viðsemjendum, þ.e. Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) og Reykjalundi situr einn fulltrúi frá hverjum viðsemjanda.
Kosið er í ráðið á tveggja ára fresti fyrir 1. Mars hvers árs sem stendur á oddatölu.
Tilnefningar frá stofnun eða deild skulu berast til kjararáðgjafa Fíh á netfangið eva@hjukrun.is fyrir 25. febrúar 2019.
Athugið að fyrir setu á fundum trúnaðarmannaráðs er greitt tímakaup skv. verklagsreglum Fíh og jafnframt er ferðakostnaður vegna fundarsóknar greiddur samkvæmt þeim reglum.