Inn er eina leiðin út
Höfundur: Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir
„Já, ég þarf að byrja á því að kasta til veggja,“ sagði kollega mín hjúkrunarfræðingurinn þegar hún lýsti því hvað biði hennar á vaktafrísdeginum áður en hún tækist á við jólabaksturinn. Það væri allt búið að vera á haus hjá henni: nýtt barnabarn var komið í heiminn, breytingar stóðu yfir heima hjá henni og búið að fara í gegnum hirslur, skúffur og geymslur og það var líkt og draslið myndi bara aukast og verða fyrirferðarmeira. Í það minnsta gæti hún ekki hugsað sér annað en að byrja á að taka til – áður en hún tækist á við nokkurn hlut sem tengdist jólaundirbúningnum.
Sjaldan hefur umræðan um streitu, kulnun, örmögnun og álag verið jafnhávær og undangengið ár. Ekki heldur minnist ég þess að jafnólíkar og margar starfsstéttir hafi dregið umræðuna fram í dagsljósið. Til að mynda fjallaði háttvirtur forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, um streitu í ræðu sinni á ráðstefnu Hagvangs um vellíðan á vinnustað þann 23. október síðastliðinn. Hún benti á að á næstu árum yrðu sjúkdómar tengdir álagi og streitu stærsta viðfangsefni stjórnmálanna. Það er mikilvægt að hún, kona sem gegnir einni æðstu stjórnvaldsstöðu landsins, orði þennan veruleika sem hefur verið svo ógnarlega raunverulegur í daglegu lífi og starfi okkar hjúkrunarfræðinga um árabil.Við erum alltaf tengd!
Við erum alltaf tengd!
Þrátt fyrir stórstígar tækniframfarir, innleiðingu árangursríkra verkferla og gagnlegra breytinga á stjórnunaraðferðum, virðist frekar bæta í álagið í störfum okkar en draga úr því. Kröfurnar eru meiri og færri eru til að vinna störfin. Um leið tilheyrum við samfélagi sem færir okkur stöðugt skilaboð um að gera betur, vera betri, baka meira, þrífa betur, vera meira með vinunum, fjölskyldunni, börnunum, vera í betra formi, vera alltaf að læra meira og síðast en ekki síst, vera alltaf í sambandi. Í því felst líklega ein meginástæða þess að streitan og álagið er að sliga samfélag okkar. Við erum alltaf tengd. Samhliða stöðugt betri og meiri tengingu við umhverfi okkar og samferðafólk fækkar tækifærunum sem við höfum til að tengjast okkur sjálfum því það verður æ flóknara að draga mörk á milli okkar sjálfra og allra og alls annars.
„Maður þarf að horfast í augu við myrkrið til að geta séð ljósið,“ útskýrði listamaðurinn þegar hann var beðinn um að lýsa sýningunni sinni: að horfa inn á við er eina leiðin út.
Síðastliðið haust sótti ég sýningu listamannsins Jeppe Hein í Cisternerne sem er neðanjarðarsýningarrými í risastórum gömlum vatnstanki (sem er að sjálfsögðu búið að tæma) í Frederiksberg í Kaupmannahöfn. Sýningin lýsir uppgjöri og vegferð Heins til jafnvægis og vellíðanar eftir að hafa örmagnast árið 2009 í kjölfar mikils álags. Úrvinnslan varð næsta áþreifanleg þegar gengið var í gegnum sýningarrýmin þrjú, hvert af öðru. Fyrst mætti mér djúpt myrkrið í fyrsta rýminu sem einungis var truflað af eldtungu sem efldist eftir því sem staðið var nær henni. Næst tók við rými fullt af speglum af öllum stærðum og gerðum, sem minntu á flækjurnar og þjáninguna sem það getur valdið að horfast í augu við sjálfan sig. Að lokum tók við rými fullt af syngjandi hugleiðsluskálum sem voru lýstar upp af mjúkri birtu. „Maður þarf að horfast í augu við myrkrið til að geta séð ljósið,“ útskýrði listamaðurinn þegar hann var beðinn um að lýsa sýningunni sinni: að horfa inn á við er eina leiðin út.
Við getum ekki hlúð að öðrum ef við hlúum ekki að sjálfum okkur fyrst
Það er ekkert sem gefur til kynna að það muni draga úr áreitunum í samfélagi okkar eða að kröfurnar til okkar í starfi verði minni. Þvert á móti. Eina sem við getum gert til að bregðast við, sporna við álaginu og draga úr líkum á örmögnun okkar sjálfra við þessar aðstæður, er að draga mörk og horfa inn á við. Við getum ekki hlúð að öðrum ef við hlúum ekki að sjálfum okkur fyrst. Dalai Lama sagði okkur ekki geta fært öðrum frið ef það ríkir ekki friður innra með okkur. Við hjúkrunarfræðingar erum með háskólapróf upp á vasann sem gerir okkur sérfræðinga í að hjúkra og hlúa að. En við þurfum að byrja á því að kasta til veggja – taka til rými til hvíldar – ef við eigum að geta tekist á við starfið okkar og lífið sjálft. Við þurfum að byrja á að gefa okkur tíma fyrir reglulega hreyfingu, holla næringu og endurnæringu í formi góðra samskipta við ástvini. Hvíldin þarf að vera í forgangi, hvort sem við tökum hana út með því að ganga, sofa, hlaupa, lesa, fara í jóga, horfa á rigninguna, anda, hugleiða eða bara vera.
Líklega er besta tengslaræktin við okkur sjálf fólgin í þessum orðum sem ultu upp í fangið á mér í lok pistils rithöfundarins Guðrúnar Evu Mínervudóttur um hvíldina sem hún flutti á aðventukvöldi í Grafarvogskirkju í byrjun desember árið 2018:
Gerðu færra
Gerðu eitt í einu
Gerðu það hægar
Hafðu lengra bil á milli gjörða