Að vera hjúkrunarfræðingur á Íslandi
Coleen A. Lastimosa
Orðabækur skilgreina hjúkrun sem starf eða iðju við að hlúa að sjúkum, særðum og hrumum. Þegar ég var að klára framhaldsskóla árið 1992 þá var vinsælt að fara í hjúkrunarfræði. Þótt það sé dýrt á Filippseyjum þá voru margir skráðir í námið. Foreldrar mínir sáu um að greiða allan kostnað eins og venjan er þar. Í fyrstu sá ég ekki sjálfa mig verða hjúkrunarfræðing. Það má líka sjá á einkunnabókum mínum fyrsta eitt og hálft árið að ég var með mótþróa gagnvart náminu. Afstaða mín breyttist þó mikið þegar við nemarnir fórum inn á sjúkrahús. Þar varð ég vitni að samstilltu átaki bæði lækna og hjúkrunarfræðinga við að bjarga mannslífum. Það að sjá drifkraft hjúkrunarfræðinga við störf sín breytti minni sýn. Ég útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur tvítug og fékk fyrsta starfið mitt fljótlega eftir það. Ég þakka móður minni fyrir mikla hvatningu og einnig þakka ég systur minni fyrir hennar þátt en án hennar væri ég á öðrum stað í dag.
Starfið var við lítinn spítala og vegna skipulagsins þar fékk ég að prófa mjög mismunandi svið hjúkrunar. Fyrir utan að stunda almenn hjúkrunarstörf tók ég líka á móti börnum og hugsaði um nýfædd börn, en einnig tók ég þátt í bæði litlum og stórum aðgerðum. Þetta gaf mér fjölbreytta reynslu. Það er lagaleg skylda að taka þátt í námskeiðum og þjálfun bæði til að viðhalda þekkingu og til að safna tímum fyrir næstu endurnýjun á hjúkrunarleyfinu, enda er stranglega bannað að stunda hjúkrun án leyfis.
Lífið er fullt af litlum sigrum
Tækifærið að stunda hjúkrun á Íslandi var lagt að fótum mér því systir mín var þá þegar komin til landsins og bauð mér og hingað var ég komin í desember 2001. Ég hóf vinnu við öldrunar- og endurhæfingardeild fyrir lungnaveika. Tengiliður spítalans fyrir útlendinga fylgdi mér á deildina fyrsta daginn. Starfsfólk tók vel á móti mér frá fyrsta degi og mér fannst ég vera velkomin. Í byrjun fólst starfið í umönnun við sjúklinga, eins og að búa um rúm, klæða og mata sjúklinginn, fylgja á salerni, aðstoða hann við að þvo sér og baða. Ekkert af þessu hafði ég gert áður í fyrra starfi því þar er það mun meiri skylda aðstandenda að sjá um sína nánustu sem eru veikir en hér. En þessi vinna veitti mér mikla gleði og ég minnist þess sérstaklega þegar ég þurfti að hjálpa hundrað ára gamalli konu að klæða sig í korselett og sokka með sokkaböndum og flétta gráa hárið hennar. Það tók óratíma að klæða hana en tókst að lokum – lífið er þannig fullt af litlum sigrum hér og þar. Vorið 2012 var ég ráðin á hjartadeild LSH og hef verið þar síðan. Starfið þar er mjög krefjandi og gefandi.Heillaðist af tungumálinu
Þótt okkur langi mikið að ná góðum tengslum við fólk í kringum mann þá gerist það ekki nema læra tungumálið vel. Ég átti ekki í miklum vandræðum að læra enda lagði ég mig heilshugar fram og var heilluð af tungumálinu. Einnig hjálpaði mikið að eldra fólkið, sem lá á deildinni, gaf sér tíma til að tala við nýbúann. Eftir sex mánuði hafði ég náð nógu góðum tökum á tungunni til að geta hafið hjúkrunarstörf. Ég varð ekki vör við mikla fordóma, en í þau fáu skipti sem það gerðist fékk ég aðstoð frá samstarfsfélögum mínum og slíkt varð aldrei vandamál. Það að fá klapp á bakið frá sjúklingi, aðstandanda eða samstarfsfólki var mikill sigur.Því miður ríkti misskilningur á hjúkrunarstarfinu á Filippseyjum og hann hafði náð fótfestu í samfélaginu. Starf hjúkrunarfræðings var takmarkað og fólst aðallega í að framfylgja skipunum læknis, fylgja
fyrirframsettum ferlum, gefa lyf, skrifa niður framvindu og gefa leiðbeiningar fyrir útskrift. Þessu fylgdi sú tilfinning að starfsfólk hittist ekki á jafnréttisgrundvelli.
Lífstíðarstarf að fullnema sig í hjúkrunarfræði
Starf hjúkrunarfræðings á Íslandi gefur manni mun meira. Hér hef ég mun meiri tækifæri til að tala við sjúklinginn og meta ástand hans betur. Vera hans talsmaður. Hér erum við ekki einungis að hjúkra líkama sjúklingsins heldur hjúkrum við honum öllum og stundum fjölskyldu hans líka ef þörf er á. Við horfum á hagi hans heima fyrir, bæði fjárhagslega og fjölskyldu, áður en við tökum ákvörðun um útskrift og hvort kalla þurfti til heimahjúkrun. Hér setjumst við og læknar niður saman og gerum áætlanir. Sjúkdómsgreiningar og horfur eru ræddar á flettifundum sem gerir að verkum að ég þekki sjúklinginn minn betur og get veitt honum viðeigandi aðstoð. Við vinnum með fjölbreyttu teymi af læknum, hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum, sjúkraþjálfurum, næringarsérfræðingum og fleirum og það gerir starfið mjög spennandi. Í heimalandi mínu var okkur hjúkrunarfræðingum oft ýtt til hliðar og við nutum ekki sammælis.Eins og með margar faggreinar er það lífstíðarstarf að fullnema sig í hjúkrunarfræði. Fræðslunefnd LSH og félag hjúkrunarfræðinga veitir okkur tækifæri til að viðhalda þekkingarstigi okkar og læra það nýjasta sem er að gerast í heimi hjúkrunarfræðinnar. Við getum valið milli námskeiða, fyrirlestra og þinga á sviði hjúkrunar og lækninga. Við eigum aldrei að staðna heldur dafna í starfi. Stéttarfélag okkar er mun sterkara hér en ég minnist frá heimalandi mínu og það er mikils virði.
Örlög manns ráðast ekki í happdrætti í flestum tilfellum heldur er þau val. Ég valdi að verða hjúkrunarfræðingur á Íslandi og hef aldrei séð eftir því. Að stunda hjúkrun hér hefur gefið mér nýja sýn á starfið og meiri reynslu en ég hefði annars geta fengið og það eru forréttindi. Ég er búin að tileinka mér nýja skilgreiningu á orðinu hjúkrun. Kudos til allra hjúkrunarfræðinga hér á landi og til hamingju með 100 ára afmæli Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga! Mabuhay!