Hjukrun.is-print-version

Ævistarfið orðið að útflutningsvöru

Viðtal við Herdísi Storgaard

Viðtal við Herdísi Storgaard

Herdísi Storgaard þarf vart að kynna fyrir landsmönnum en hún hefur haft veg og vanda af slysavörnum íslenskra barna í rúman aldarfjórðung. Herdís tekur á móti blaðamanni á heimili sínu á kolsvörtum janúarmorgni. Eftir vinalegar móttökur og að hafa hellt upp á kolsvart janúarkaffi er Herdís tilbúin að svara spurningum blaðamanns.

Nú má segja að þú hafir helgað líf þitt slysavörnum barna. Hvaðan kemur þessi áhugi?

Já, ég lærði hjúkrun í Bretlandi og ákvað þar að fara í bæklunar- og slysahjúkrun og fór í sérnám á stóran spítala í London en hafði þá ekki endilega hugsað mér að fara að vinna á slysadeild. En svo ákvað ég að koma heim og vinna í fríinu mínu og sæki um á slysadeildinni að gamni. Ég fer að vinna þar og verð voða áhugasöm þannig að þegar ég kem svo heim úr námi ræð ég mig á gömlu slysadeildina. Þar varð ég vitni að ofboðslega ljótum hlutum og þetta var löngu fyrir allt sem hét áfallahjálp, þannig að þetta var erfitt og hafði mikil áhrif á mann. Árið 1991 þegar ég var starfandi sem deildarstjóri á slysadeildinni fór ég svo á risastóra ráðstefnu, fyrstu alþjóðlegu slysaráðstefnuna, sem haldin var í Stokkhólmi og var svo uppveðruð af því hvað ég heyrði þar að ég vissi að þetta var eitthvað sem mig langaði að gera. Þannig að eftir að hafa þurft að horfa upp á fólk deyja að óþörfu og vera alltaf að búa um hendur á börnum sem voru að brenna sig á eldavélinni og fara svo á ráðstefnuna þá bara gerðist eitthvað innan í mér. Þetta var næstum eins og að verða fyrir trúarlegri reynslu, þetta var svo rosalega magnað. Þannig að þegar ég kom heim bara gat ég ekki hugsað um annað en „ég verð að fá vinnu við þetta“ og svo bara gerðist það, það var svo skrítið. En þetta hefur líka læknað sár að vera stöðugt að bæta umhverfi barna.

Löng þrautarganga

Það er greinilegt að Herdís brennur enn fyrir málefninu öllum þessum árum síðar. Þegar talið best að miðstöð slysavarna barna leynir eldmóðurinn sér ekki. 
Eftir að ég kom heim af þessari ráðstefnu birtist við mig blaðaviðtal í Tímanum sáluga um varnir gegn slysum á börnum og í framhaldi af því er haft samband við mig frá Slysavarnafélagi Íslands, þessu gamla, og það var nýlokið þingi hjá þeim og þangað hafði komið læknir sem var nýkominn heim frá Svíþjóð og starfaði úti á landi og hann var alveg orðlaus yfir fjölda slysa á börnum á Íslandi. Hann byrjaði á því að taka þetta saman en hann vissi ekkert hvað hann ætti að gera við þessa tölfræði því það virtist enginn hafa áhuga á þessu hjá hinu opinbera. Honum datt þess vegna í hug að hafa samband við Slysavarnafélagið, sem var náttúrlega þá bara mest að sinna björgun og svona meira í björgunarmálum almennt frekar en slysavarnamálum, þó þeir hafi alltaf sinnt slysavörnum á sjó. En þeir voru ekki svona að sinna „mjúkum málefnum“.

En slysavarnafélagar hlusta á þennan lækni og þetta einhvern veginn smellur allt saman því þeir höfðu lesið viðtalið við mig í Tímanum og hafa samband við mig og bjóða mér að koma á fund til sín. Ég var enn þá að vinna á slysadeildinni en eftir að ég segi þeim hvað er hægt að gera í slysavörnum barna þá bjóða þeir mér bara vinnu, með þeim fyrirvara að þeir geti fundið fé. Á þessum tíma var Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra og hún sagði strax já þegar leitað var til hennar um fjárveitingu og ég er þá ráðin til Slysavarnafélagsins 1991. Þá hefst þessi langa þrautaganga mín, að mennta mig í slysavörnum því ég var ekki sérfræðingur í því. Ég var menntuð í bráða-, bæklunar- og svæfingarhjúkrunarfræði og kennaramenntuð, en slysavarnir vissi ég ekkert um og vantaði því alla sérþekkingu til að geta breitt út boðskapinn.

Þannig að ég bara byrja og eitt af því fyrsta sem ég gerði – og ég sé núna að það var það eina rétta fyrir mig að gera – var að ég fór hringinn í kringum landið í samvinnu við allar deildir Slysavarnafélagsins og hélt fyrirlestra um allt land. Og með því að gera það vissi fólkið í landinu hvað ég var að gera og gat þá haft samband við mig. Ferðin í kringum landið stóð í eina 6-7 mánuði og það var óvíst um framhaldið varðandi fé en viðtökurnar voru svo stórkostlegar að orð frá því ekki lýst. Það mætti þarna fullt af fólki sem átti börn sem höfðu slasast og jafnvel dáið. Ég fékk víða mjög tilfinningaþrungin viðbrögð . Fólk sá kannski svona smá ljós við enda ganganna því nú væri einhver farinn að taka á þessum málum og það fóru að hellast yfir mig fyrirspurnir í gegnum síma. Í ljósi þessa veitti félagsmálaráðuneytið þessu verkefni áfram fé.

Með áframhaldandi fjárveitingu hóf Herdís að kortleggja vandann. Eftir að hafa unnið á slysadeildinni vissi hún hvers kyns áverkar voru algengastir en hana vantaði alla tölfræði. Hana gat hún auðveldlega nálgast því Ólafur Ólafsson, þáverandi landlæknir, sýndi þessum málaflokki alltaf sérstakan áhuga og aðstoðaði Herdísi á hvern þann veg sem hann mátti.
Allan tímann var ég að hugsa: Hvernig getum við vakið fólk til umhugsunar um vandann? Því að viðbrögðin sem ég fékk þarna 1991 voru svolítið merkileg. Ég komst að því að Íslendingar voru mjög forlagatrúar. Mörgum þeirra sem komu á fyrirlestra hjá mér fannst þetta nú bara svolítið bull í mér því ég sagði meðal annars í þessum fyrirlestrum að fyrirbærið slys væri ekki bara eitthvað sem gerðist út af engu. En þetta hafði ég lært á ráðstefnunni þar sem voru birtar niðurstöður rannsókna á margra ára slysavarnastarfi. Og sjálfsagt höfðu allar þjóðir verið búnar að glíma við þetta viðhorf, kannski 20-30 árum fyrr, að fólk væri forlagatrúar og þurftu því að reyna að fá fólk til að skilja það að slys er ekki eitthvað sem gerast bara af sjálfu sér. Ég var sem sagt að spá í það hvernig ég gæti náð til fólks og hafði þá samband við Heilsuverndarstöðina sem hafði þá það hlutverk að vera ráðgefandi í heilsuvernd fyrir allt landið. Það er nú svolítið fyndið að Heilsuverndarstöðin var lögð niður fyrir nokkrum árum en núna er búið að opna hana aftur! Þannig að þetta er nýjasta nýtt í heilsugæslunni. Það fer allt í hringi.

Ekki til í orðabókinni minni að hætta og gefast upp

Fyrst hringi ber á góma þá virðist sem fjármögnun ævistarfs Herdísar hafi aldrei verið almennilega tryggð og verkefnið færst hring eftir hring í kerfinu: frá Slysavarnafélaginu, til Heilsuverndarstöðvarinnar, til ríkisins og loks til einkaaðila þar sem Miðstöð slysavarna barna er núna. En skýtur ekki skökku við að það séu einkafyrirtæki sem haldi lífinu í þessu mikilvæga verkefni en ekki hið opinbera?
Jú, það gerir það. En ég er hætt að láta það hafa áhrif á mig, þetta mikla skilningsleysi. Það sem er líka ákaflega merkilegt er að það er alltaf verið að tala um heilbrigðiskerfið og hvað þrengi mikið að því og allt það, en til þess að skapa gott heilbrigðiskerfi þá þarf að vera með gífurlega öflugar forvarnir samhliða. Það er svo kjánalegt hvernig kerfið okkar er; við erum annars vegar með meðferðargeirann og hins vegar forvarnageirann og þessir geirar eru aðskildir, en forvarnirnar þurfa að vera hluti af kerfinu. Þannig er hægt að ná árangri. En þetta náttúrlega er ekkert í lagi, sérstaklega af því að það er í lögum að það eigi að stunda slysavarnir.

Þú hefur oft mætt miklu mótlæti á þessari vegferð, ekki fengið laun og stöðugt þurft að finna fjármagn. Hvarflaði aldrei að þér að hætta bara?
Nei, það er ekki til í orðabókinni minni að hætta og gefast upp. Það er bara ekki hægt. Ef maður byrjar á einhverju sem maður hefur trú á þá er alltaf einhver leið.

Í samvinnu við höfuðstöðvar Ikea

Og nú ertu á leið með verkefnið út í heim, ekki satt? 
Jú, ég byrjaði í samstarfi við Ikea árið 2006 en það eru bara svona þrjú ár síðan að forsvarsmenn Ikea á Íslandi ákváðu að segja frá þessu samstarfi og í framhaldinu var það kynnt í höfuðstöðvunum í Svíþjóð. Það vakti mikinn áhuga og það varð úr að ég fór út og hélt fyrirlestur og kynnti fyrirkomulagið sem við höfum á þessu hérna heima. Í kjölfarið komu fulltrúar þeirra í heimsókn hingað og þá fór boltinn að rúlla. Þeir urðu voða hrifnir af því sem ég var að gera. Ég var alveg á nálum fyrir þessa heimsókn, fannst ég ekki hafa mikið annað að sýna þeim en herbergi fullt af Ikeavörum. En svo sýndi ég bara það sem ég hafði verið að vinna með í mörg ár og sagði frá og þau fóru héðan ofsalega ánægð og fannst þetta alveg stórmerkilegt. Síðan byrja samskipti milli mín og höfuðstöðvanna í Svíþjóð og eftir að þetta hafði farið í gegnum yfirstjórn fyrirtækisins var að lokum haft samband við mig og óskað eftir samstarfi. Í þessu samstarfi finn ég að við erum að tala sama tungumálið. Við þurfum ekkert að útskýra okkur hvert fyrir öðru þannig að þetta skapaði strax mjög gott samstarf. Og nú er svo komið að við erum meðal annars búin að þróa app út frá námskeiðunum sem ég hef verið að halda. Þetta þýðir það að ég er farin að flytja þekkingu mína út.

Þegar ég var að byrja í þessu stefndi ég alltaf á að verða best í heimi í slysavörnum barna. Ég hafði náttúrlega enga samkeppni hérna heima og þá var eðlileg hvatning fyrir mig að hafa þetta markmið. Þannig að það er langt síðan ég fór að hugsa um að færa út kvíarnar og fara að sinna slysavörnum úti í heimi, sérstaklega á tímabilum þegar erfiðlega gekk að fjármagna og ég fékk ekki laun og svona. Það er fullt af löndum sem hafa ekki gert neitt í slysavörnum barna og það eru þúsundir foreldra sem fá engar upplýsingar. Þannig að þetta var búið að veltast um í höfðinu á mér lengi vel þegar ég fór að ræða við fólkið hjá Ikea. Appið er nú í prófun hér á Íslandi og í Ástralíu. Eftir prófunina verður tekin afstaða til þess hvort haldið verði áfram með verkefnið og þá fer þetta líklega að vinda allsvakalega upp á sig. Það er ofsalega spennandi að sjá það sem varð til í höfðinu á mér fyrir mörgum árum verða að veruleika.

Aldur er afstæður

Sólin er farin að brjóta sér leið inn í daginn og kaffið í bollunum löngu búið. Tíminn hefur flogið með Herdísi því hún hefur frá mörgu að segja og áhuginn á málefninu er smitandi. Að lokum bið ég hana að segja mér hvernig hún sjái framtíðina í slysavörnum barna á Íslandi.

Stjórnvöld þurfa að fara að viðurkenna að þetta er nauðsynlegt starf. Núna stöndum við til dæmis frammi fyrir því að efnið sem ég skrifaði fyrir heilsugæsluna, bæði kennslan fyrir fagfólk og upplýsingar fyrir foreldra sem heilsugæslan notar á sínum vef, er allt meira eða minna að verða úrelt. Það vantar einhvern til að sinna þessu. Þeim tíma er lokið að ég eyði mínum frítíma í vinna þessa vinnu í sjálfboðavinnu. Að sjálfsögðu væri frábært að fá einhvern á einhverjum tímapunkti sem myndi taka við af mér þannig að þetta starf héldi áfram inn í framtíðina. Það er svo kjánalegur hugsanaháttur að halda að það þurfi ekkert að gera meira vegna þess að það hefur orðið svo mikill árangur og dauðaslysum fækkað á meðal barna. Það er verið að hreykja sér af umferðaröryggi barna en það kemur ekkert af sjálfu sér. Það er til komið vegna þess að ég stend upp á endann í hverri einustu viku og tala við hóp foreldra um mikilvægi öryggisbúnaðar. Ástæðan fyrir því að svona vel hefur gengið í slysavörnum barna er að ég stend og horfi í augu foreldra í hverri viku og hef gert í mörg ár. Nú er hins vegar komið að því að einhver annar fari að taka við keflinu.

Þetta er mín ástríða. Það er heilmikið verk eftir og ég vona það að ég haldi áfram að fá styrki og hafi heilsu til að halda áfram að sinna þessum verkefnum sem ég held að ég geri þó svo að ég hætti að vinna einn daginn. Aldur í dag er svo afstæður.

Höfundur: Heiðrún Ólafsdóttir


Nútíð

Forvarnir og fræðsla

Saga

Viðtöl

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála