Formaður í tveimur félögum
Ég tók við formennsku í Félagi háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga (Fhh) í október 1989 af Lauru Sch.Thorsteinsson. Ég var þá fræðslustjóri Borgarspítalans og Laura var nýkomin til starfa þar, mér við hlið. Hún var að leita að eftirmanni í formannsembættið og fannst greinilega hæg heimatökin að ég tæki við félaginu. Ég hafði áður tekið þátt í starfi félagsins bæði í stjórn og fræðslunefnd og hafði ánægju af félagsstörfum, m.a. tók ég virkan þátt í stúdentapólítíkinni á háskólaárum mínum.
Ég var formaður félagsins í rúm fjögur ár en þá var ég kjörin formaður nýs sameinaðs félags hjúkrunarfræðinga, Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, í ársbyrjun 1994. Ég hafði þá ásamt Vilborgu Ingólfsdóttur, formanni Hjúkrunarfélags Íslands, stýrt vinnu við undirbúning að sameiningu félaga hjúkrunarfræðinga um nokkurt skeið. Ég gaf kost á mér til formennsku í nýju félagi því mér fannst vera hugur í stéttinni til stórra verka, félagslega, faglega og kjaralega, sem ég hafði áhuga á að fylgja eftir. Jafnframt fann ég að það hafði opnast ákveðinn gluggi hjá stjórnvöldum gagnvart hjúkrunarfræðingum sem ég vildi nýta stéttinni til hagsbóta.
Hvað einkenndi tíðarandann í samfélaginu þegar þú varst formaður? Eftir sameiningu félaganna var mikill samhugur og kraftur í hjúkrunarstéttinni og náði félagið að marka sér bás í umræðu um heilbrigðismál svo eftir var tekið. Hjúkrunarfræðingar nutu, eins og nú, stuðnings og velvilja frá samfélaginu sem var mikill styrkur fyrir stéttina, ekki síst í erfiðri kjarabaráttu sem einkenndi árin fram undan.
Helstu baráttumál hjúkrunarfræðinga í minni formannstíð: Eins og gefur að skilja fór mikill tími í vinnu við sameiningu félaga hjúkrunarfræðinga í tíð minni sem formaður Fhh Við höfðum fundið að klofningur hjúkrunarstéttarinnar í tvö félög var farinn að vinna gegn henni í margvíslegu tilliti og m.a. af þeim sökum var sameining óhjákvæmileg.
Nýtt félag náði ágætum árangri í kjarasamningum fljótlega eftir sameiningu. Nokkru síðar vann félagið með BHM að útfærslu á nýju launakerfi ríkisins sem m.a. fól í sér að færa fastar yfirvinnugreiðslur í grunnlaun. Við vissum að þá kæmi í ljós launamunur milli hjúkrunarfræðinga, sem höfðu fæstir slíkar greiðslur, og annarra háskólastétta. Þetta skapaði sóknarfæri og með öflugum samtakamætti stéttarinnar náðist að bæta kjör hennar. Mikil gróska var í faglegu starfi félagsins, stofnaðar voru fagdeildir sem héldu úti öflugu starfi og nefndir félagsins voru virkar. Einnig var m.a. unnið að stefnumótun í málefnum félagsins og sýn þess á heilbrigðisþjónustuna og siðareglur hjúkrunarfræðinga voru mótaðar. Á einhverjum tímapunkti taldist mér að um 500 hjúkrunarfræðingar væru í kjörnum störfum á vegum félagsins, í stjórn, svæðisdeildum, nefndum, fagdeildum og sem trúnaðarmenn félagsins.
Félagið tók þátt í erlendu samstarfi hjúkrunarfræðinga, bæði norrænu, evrópsku og alþjóðlegu, og mér fannst það til marks um viðurkenningu á árangri íslenskra hjúkrunarfræðinga þegar ég var beðin um að taka sæti í stjórn ICN, Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga, á árinu 1999, en þar átti ég sæti til ársins 2005 og var m.a. varaformaður samtakanna síðustu fjögur árin.
Hvað var eftirminnilegast? Það sem mér þykir einna eftirminnilegast frá formannstíð minni er hvað hjúkrunarfræðingar voru virkir og samtaka í þátttöku í starfi félagsins, stórhuga og metnaðarfullir fyrir hönd félagsins og stéttarinnar. Þegar ég hætti sem formaður fyrir hjúkrunarfræðinga á árinu 1999 var ég kjörin á Alþingi þar sem ég starfaði næstu tíu ár. Ég fór þangað með mikla þekkingu á málefnum heilbrigðisþjónustunnar og einbeitti mér sérstaklega að þeim málaflokki. Menntunarlegur bakgrunnur og reynsla af störfum fyrir hjúkrunarfræðinga var mér þar verðmætur.
Hvað hefur breyst og hvernig myndi ég vilja sjá hjúkrun þróast? Nú tuttugu árum eftir að ég lét af störfum fyrir hjúkrunarfræðinga finnst mér stéttin hafa miklu áorkað. Hjúkrunarfræðingar eru mjög vel menntaðir, þeir njóta trausts og taka á sig flókin störf innan heilbrigðiskerfisins. Ég tel samt sem áður að þeir geti tekið að sér mun víðtækari og sjálfstæðari verkefni en þeir gera í dag. Við stöndum einnig frammi fyrir því að störf þeirra eru ekki sérlega vel kynnt, þau eru unnin í of miklum kyrrþey. Ég vildi sjá breytingu á því.