Hjukrun.is-print-version

Frú Sigríðar Eiríksdóttur minnst

Viðtal við Vigdísi Finnbogadóttur

Sögu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga verða ekki gerð skil án þess að minnast á frú Sigríði Eiríksdóttur. Sigríður var fædd í Miðdal í Mosfellssveit en ólst upp í Reykjavík. Hugurinn stóð til Menntaskólans í Reykjavík eftir barnaskóla en fyrst sá draumur rættist ekki stundaði hún nám í Verslunarskólanum. Sigríður sigldi til Kaupmannahafnar til að nema hjúkrun. Íslenskir hjúkrunarnemar notuðu oft næturvaktir á spítölunum til að bródera púðaver og fleira sem þær seldu til að eiga vasapeninga. Sigríður var ötul við hannyrðirnar því auk þess að eignast svolítinn vasapening safnaði hún sér fyrir reiðhjóli sem hún notaði til að geta heimsótt Vigdísi systur sína sem lá berklaveik á spítala þar ytra.

Sigríður varð formaður Félags íslenskra hjúkrunarkvenna árið 1924, fyrst íslenskra kvenna. Hún gegndi formennsku í 36 ár eða allt til ársins 1960. Ólíkt flestum öðrum konum sem gegndu hjúkrunarstörfum á þessum tíma hætti Sigríður ekki að vinna við hjúkrun eftir að hún giftist Finnboga Rúti Þorvaldssyni verkfræðingi, síðar prófessor við Háskóla Íslands, sem hún hafði kynnst á meðan þau voru bæði við nám í Kaupmannahöfn.
Dóttir Sigríðar er okkur heldur ekki ókunnug en það er frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands. Hún var fús til viðtals um það hvernig var að vera dóttir þessarar merku konu.

„Mér fannst hún stundum ætlast til mikils af okkur. Hún gerði miklar kröfur til okkar í uppeldinu en ekki augljósar. Hún var ástrík móðir og afskaplega góð mamma, alltaf að passa okkur og hún gætti þess að við fengjum það sem var best. Við gengum bæði í Landakotsskóla eins og hún hafði gert í bernsku, því hún taldi þann skóla vera bestan, og það reyndist okkur góð undirstaða. Já, og hún lagði ríka áherslu á að við fengjum allt það besta – enda var hún orðin svo fullorðin þegar við fæddumst; hún var orðin 36 ára þegar ég fæddist og 38 þegar Bói bróðir kom. Við vorum svo óendanlega velkomin systkinin. Þau hjón voru búin að bíða eftir okkur.“

Sigríður og Finnbogi Rútur gengu í hjónaband árið 1926 en þurftu, eins og Vigdís segir, að bíða í fjögur ár eftir henni – frumburðinum. Bróðir Vigdísar, Þorvaldur, eða Bói eins og hún kallar hann, fæddist rúmu ári seinna, í lok árs 1931.

„Hún var ákaflega ræktarsöm mamma, hún fór alltaf á fætur með okkur á morgnana, var búin að elda hafragraut þegar við komum niður og svo smurði hún fyrir okkur í skólann. Við erum alin upp á mjög heilbrigðum mat, systkinin, en ég missti bróður minn þegar hann var tvítugur. Það var mikill harmur fyrir okkur öll.“

Og Vigdís heldur áfram: „Frú Sigríður var margra manna maki, ég sé það vel núna. Til dæmis þegar ég fór til útlanda þá skrifaði hún mér bréf sem hún vélritaði minnst einu sinni í viku, stundum oftar, og sagði mér allt sem var að gerast heima á Íslandi. Hún var mjög afkastamikil í félagsstörfum en hafði samt alltaf tíma til að bródera. Hún var sívinnandi. Hún skrifaði greinar um hin ýmsu málefni á nóttunni og flutti meðal annars erindi í útvarpinu um heilbrigðismál. Og alltaf hafði hún tíma til að vera skemmtileg og vera til. Ég sé það núna að hún var alveg stólpagreind kona hún mamma, hún hefur verið ljóngáfuð. Og því náttúrlega fylgdi að vera ekki alvinsæll – hún þorði að segja skoðanir sínar, á því leikur ekki nokkur vafi.“

Mamma símalanga

Frú Sigríður var með skrifstofu hjúkrunarfélagsins á heimili sínu alla sína formannstíð. Hjá þeim hjónum bjuggu líka tengdaforeldrar hennar um tíma svo það liggur beinast við að spyrja hvort hafi ekki oft verið mikið um að vera í húsinu á Ásvallagötunni þar sem Vigdís ólst upp?

„Heldur betur. Amma og afi höfðu staðið fyrir stórbúi á prestsetrinu í Sauðlauksdal. Fólk að vestan kom mikið að heimsækja þau þegar það átti erindi til borgarinnar. Mamma var endalaust að baka og bera bakka upp til þeirra. Hún var sko í mörgum djobbum hún mamma. Hún kenndi í Kvennaskólanum í Reykjavík í mörg ár og gekk þangað í öllum veðrum, öðruvísi var ekki hægt að komast. Þar var hún kölluð Sigga heilbrigða. Svo kenndi hún líka í Húsmæðraskólanum í Reykjavík í mörg ár og ég held að það hafi nú fyrst og fremst verið til að drýgja tekjurnar því hún var með stórt heimili. Hún hafði reyndar alltaf stúlkur að vestan til að hjálpa til, þær fóru svo reyndar flestar í hjúkrun.

Mamma var alltaf með hjúkrunarfélagið heima og ég blygðaðist mín mikið fyrir það að það var alltaf ritvél á borðstofuborðinu hjá okkur og pappírar úti um allt. Heima hjá vinkonum mínum var allt svo óskaplega vel tekið til og stundum dagblöð á gólfunum þegar nýbúið var að bóna. Heima hjá mér þetta pappírsflóð. Svo sögðu vinkonur mínar seinna, þegar við vorum orðnar fullorðnar: „Það var allt svo spennandi heima hjá þér.“ Þær hafa fundið að það var alltaf svo mikið að gerast, andrúmsloftið var þannig. Þeim fannst svo gaman að koma í borðstofuna heima hjá mér af því að þar var ritvél og mamma að vinna við hana. Þær sáu aldrei ritvél heima hjá sér.“

En þú manst þá væntanlega ekkert eftir þér án þess að formaður Félags íslenskra hjúkrunarkvenna væri á heimilinu? „Nei, nei, og svo var hún líka formaður Hjúkrunarfélagsins Líknar sem stóð fyrir berklavörnum og heimahjúkrun í Reykjavík. Ég ólst upp með þessu fernu: Líkn, Félagi íslenskra hjúkrunarkvenna, ömmu og afa, og vestfirskum ungmeyjum. Ég lærði snemma að taka niður beiðnir um heimilishjúkrun – ég var bara smástelpa. Skrifaði þær í gula bók. Þetta var fyrir Hjúkrunarfélagið Líkn og þær beiðnir fóru í gegnum mömmu af því að hún var í formennsku þar. Ég hef ekki verið meira en svona sjö, átta ára þegar ég byrjaði að taka þessar beiðnir varðandi heimahjúkrun niður. Ég veit alveg hvað þetta allt heitir … klisma, stólpípa og ulcus ventriculi … læknarnir töluðu við mig á latínu og ég tók alltaf niður, ulcus ventriculi, magasár.

Ég komst ekki hjá því að heyra margt af því sem mamma talaði um löngum stundum í símann. Bróðir minn kallaði hana „mamma símalanga“ af því hún talaði svo mikið í símann. Hún var alveg mögnuð. Ég dáðist að henni þegar hún var í þessum löngu símtölum, til dæmis að bjarga lífeyrissjóði hjúkrunarkvenna, ég held að hún hafi verið meginstoðin þar á þeim tíma. Það féll í hennar hlut. Svo er annað sem mér þótti líka mjög merkilegt en það er að hún hafði svo mikinn skilning á aðstöðu kvenna. Ég man eftir því að ég heyrði hana einhvern tíma segja í símann: „Þér ætlið þó ekki að segja mér, prófessor, að þér ætlið að stoppa stúlkuna af því að hún er gravid?“ Ég hef þá verið mjög ung því ég man að mig langaði svo að vita hvað þetta gravid þýddi. En nú finnst mér svo flott að hún skyldi hafi sagt þetta af því þetta er mjög snemma á stríðsárunum og mikið verið að fjalla um siðsemi kvenna í sambandi við hernámið. Mér finnst þessi afstaða vera mikil og góð framtíðarsýn fyrir konur þegar ég hugsa um þetta núna. Því þá átti að stoppa stúlku í Hjúkrunarskólanum af því að hún var gravid. Hún mátti ekki taka próf! Meira að segja þegar ég var í menn-tó, í MR, og það er nú orðið dálítið langt síðan, þá hættu stelpur í skólanum ef þær urðu barnshafandi. Hættu í skóla og komu kannski aldrei aftur. Það að verða gravid stoppaði framgang kvenna. En þetta hefur nú skánað. Stúlkan hefur áreiðanlega fengið að taka próf af því mamma sótti það svo fast.“

Félagið alltaf hluti af lífi Vigdísar

Í starfi sínu sem formaður Félags íslenskra hjúkrunarkvenna var frú Sigríður í tíðum samskiptum við stallsystur sínar á Norðurlöndunum. Hún var formaður Samvinnu hjúkrunarkvenna á Norðurlöndum um tíma, sótti þar fundi og stóð í bréfaskriftum við starfssystur sínar á Norðurlöndunum en það varð til þess að góð vinátta myndaðist á vettvangi hjúkrunarfræða milli landanna. Í bókinni Saga hjúkrunar á Íslandi á 20. öld er fjallað um þessa vináttu og þess meðal annars getið að ritari Félags norskra hjúkrunarkvenna hafi nefnt það í bréfi til Sigríðar að hún teldi að Vigdís væri orðin nógu stór til að koma með móður sinni á fundi og ráðstefnur. Ég spyr Vigdísi hvort hún hafi einhvern tíma farið með mömmu sinni út?

„Nei, ég gerði það aldrei. En hún var ófrísk að mér á fundi í Finnlandi held ég, frekar en Noregi, og hún var svo lasin að þær vissu strax að hún hlaut að vera barnshafandi. Hún var ein af þeim fáu sem var frú, þær voru allar frökenar, en þá var hún búin að vera gift í fjögur ár og var kölluð frú Thorvaldson. Þær gátu ekki skilið að hún héldi eigin nafni eftir að hún var gift, hún bara hlyti að hafa ættarnafn og af því að hún átti mann sem var Þorvaldsson þá var hún kölluð Thorvaldson. En ég var alltaf svo mikið í uppáhaldi hjá þessum konum, þessum fullorðnu ógiftu konum, að eftir stríðið sendu þær mér afskaplega fallegan grip sem ég á enn þá. Það er áletrað með friðardúfu …“

Vigdís stendur upp og kemur stuttu seinna með hálsmenið. Forláta silfurmen með friðardúfu og áritun; Vigdís - från nordiska Gudmödrarna 1945. „Vináttan hélst alla tíð og í útför frú Sigríðar komu tvær konur frá Norræna samvinnufélaginu sem fluttu minningarorð úr kórnum í Dómkirkjunni. En það tíðkast víða á Norðurlöndum að fleiri en prestur flytji eftirmæli. Mér þótti vænt um það.“

Það má með sanni segja að félagið hefur verið stór hluti af æsku Vigdísar … „Svo átti ég dúkku sem hét Kristófína Mikkelína. Ég hafði fengið hana að gjöf og skírði hana í höfuðið á stofnanda Félags íslenskra hjúkrunarkvenna og fyrsta formanns þess, Christophine Mikkeline Bjarnhéðinsson. Ég er eiginlega alin upp með Félagi íslenskra hjúkrunarkvenna, eins og það hét, nú Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, ég er í raun litla systir, eða stóra systir. Og út á þetta er ég gerð að heiðursfélaga. Félagið hefur alltaf verið hluti af mínu lífi og ég hef einatt gert mér far um að rækta það. Það er eins og félagið hafi vitað að það ætti eitthvað í mér.“

Viðtal: Heiðrún Ólafsdóttir

Fortíð

Fagleg málefni

Saga

Viðtöl

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála