Hjukrun.is-print-version

Hjúkrun jaðarsettra einstaklinga

Elísabet Brynjarsdóttir

Elísabet Brynjarsdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Rauða krossinum

Það getur vakið upp ýmis viðbrögð þegar ég segi frá vinnustað mínum og fólk kemst að því að ég keyri stundum um á bíl, með sjálfboðaliðum, og gefi fólki sem nota vímuefni í æð hreinar sprautur og nálar. Í fyrstu gæti fólk haldið að ég sé meðvirk, að ég sé jafnvel að stuðla að notkun vímuefna eða þá að koma mér í hættulegastöðu. Allar þessar hugsanir geta verið eðlilegar hjá þeim sem ekki hafa fræðst nægilega um vímuefni, vímuefnavanda eða skaðaminnkun. Án þess að fræðast höfum við ekki fullnægjandi upplýsingar til þess að meta aðstæður og það getur jafnvel stuðlað að fordómum. Þess vegna langar mig að segja betur frá skaðaminnkun, hjúkrun fyrir jaðarsetta hópa og verkefninu sem ég vinn hjá sem hjúkrunarfræðingur, Frú Ragnheiður – skaðaminnkun.

Frú Ragnheiður

Árið 2009 var sjálfboðaliðaverkefnið Frú Ragnheiður sett á fót hjá Reykjavíkurdeild Rauða krossins. Verkefnið miðar að því að ná til jaðarsettra einstaklinga í samfélaginu þar sem nálum og sprautum er dreift til þeirra sem nota vímuefni í æð. Verkefnið styðst við skaðaminnkandi hugmyndafræði sem miðar að því að draga úr skaða sem hlotist getur af hvers kyns notkun vímuefna. Með því að beita skaðaminnkun viðurkenna þátttakendur áhættuhegðun, að það sé óhjákvæmilegt að einstaklingar í hverju samfélagi fyrir sig stundi einhverja áhættuhegðun og að skaðinn sem hlýst af henni sé töluverður. Áhættuhegðunin, sem við einblínum á snýst fyrst og fremst um notkun vímuefna með sprautubúnaði, felst meðal annars í því að sprautubúnaður sé notaður oft eða að hann sé samnýttur með öðrum, en einnig felst þessi hegðun í áhættusömu kynlífi. Slík hegðun getur verið mjög afdrifarík fyrir heilsu hins sjúka, fjölskyldu hans og haft áhrif á samfélagið. Skaðaminnkandi úrræði eru sömuleiðis notuð í forvörnum gegn smitsjúkdómum þar sem leitast er við að draga úr áhættunni og koma í veg fyrir smit milli einstaklinga.

Stærsti hluti sjálfboðaliðanna, sem standa vaktina, eru hjúkrunarfræðingar. Þjónustan fer fram í sérinnréttuðum bíl sem ekur um höfuðborgarsvæðið sex kvöld vikunnar, og þrír sjálfboðaliðar eru á hverri vakt ásamt einum lækni á bakvakt. Nálaskiptaþjónusta er stærsti hluti þjónustunnar þar sem tekið er við notuðum sprautubúnaði í nálaboxum og honum fargað á öruggan hátt ásamt því að skjólstæðingar geta sótt til okkar hreinan búnað, nálabox og fengið skaðaminnkandi leiðbeiningar. Árið 2018 leituðu um 450 einstaklingar til Frú Ragnheiðar og voru heimsóknir um 3.600 talsins. Af þeim voru 1.900 komur í nálaskiptiþjónustuna og um 1.270 komur voru fyrir hlý föt, svefnpoka, mat og/eða sálrænan stuðning og ráðgjöf. Starfsmenn verkefnisins förguðu um 2.800 lítrum af notuðum sprautubúnaði árið 2018.

Sýklalyfjameðferð í samstarfi við lækna

Að undanförnu hefur heilbrigðisþjónustan vaxið talsvert í verkefninu en í bílnum er meðal annars hugað að sárum, umbúðaskiptum, saumatöku, blóðþrýstingsmælingum og hægt að fá almenna heilsufarsráðgjöf og skoðun, þar með talið fræðslu um HIV- og lifrarbólgusmitleiðir. Frú Ragnheiður hefur tekið þátt í Clifrarbólguverkefninu síðustu ár og aðstoðað skjólstæðinga við að komast í meðferðina, bjóða upp á hraðpróf og haldið utan um lyfjagjafir. Á síðasta ári var jafnframt tekin upp þjónusta þar sem sýklalyfjum er ávísað til skjólstæðinga við sýkingum, í samstarfi við þá lækna sem eru á bakvakt í verkefninu, og þannig er hægt að grípa fyrr inn í og koma jafnvel í veg fyrir innlagnir á spítala. Á aðeins átta mánuðum, frá því að við hófum sýklalyfjameðferð, höfum við aðstoðað 40 einstaklinga við að fá sýklalyf og höfum fylgt öllum fyrirmælum um sýklalyfjameðferð eftir með skráðum endurkomum. Af þessum 40 einstaklingum kláruðu 37 einstaklingar meðferð hjá okkur án innlagnar á spítala. Alls voru skráðar 219 komur í bílinn á tímabilinu sem voru vegna sýkingar eða sárameðferðar.

Í tengslum við umræðu um skaðaminnkun er mikilvægt fyrir okkur sem fagaðila að viðurkenna að jaðarsettir hópar samfélagsins mæta fjölmörgum hindrunum þegar þeir sækja sér heilbrigðisþjónustu: undirliggjandi fordómum og fyrirframákveðnum hugmyndum um erindagjörðir þeirra er meðal þess sem skjólstæðingar Frú Ragnheiðar hafa margoft upplifað. Iðulega neita þeir einfaldlega að leita sér heilbrigðisþjónustu fyrr en vandinn er orðinn grafalvarlegur og krefst ef til vill langrar innlagnar.

Þess vegna eru verkefni á borð við Frú Ragnheiði mikilvæg til þess að styðja við heilbrigðiskerfið sem og fjölbreyttar þarfir jaðarsettra hópa. Skjólstæðingum er mætt á þeim stað sem þeir eru í hvert sinn, líkamlega og andlega. Þjónustan, sem flokkast sem nærþjónusta, felst í því að þeir sem veita þjónustuna leita uppi einstaklingana. Þannig nálgumst við þá í því umhverfi sem er aðgengilegast fyrir þá og þjónustan er sótt á þeirra forsendum. Komið er fram við notendur af virðingu og fordómaleysi og með skilning gagnvart þörfum þeirra að leiðarljósi. Með því að veita jaðarsettum hópum þjónustu í þeirra umhverfi eykst aðgengi þeirra að ráðgjöf, fræðslu og skaðaminnkandi aðgerðum. Jafnframt er ávallt heilbrigðisstarfsmaður á vakt í bílnum sem getur sinnt grunnheilbrigðisþjónustu á borð við það sem talið var upp hér að ofan.

Allir eiga rétt á heilbrigðisþjónustu

Á síðustu árum hefur verkefnið vaxið talsvert að umfangi. Samstarf hefur verið aukið við önnur úrræði sem standa jaðarsettum einstaklingum til boða og heilbrigðisþjónustan hefur sífellt aukist í bílnum. Nýlega var undirrituð ráðin sem hjúkrunarfræðingur í verkefnið. Hlutverk mitt er meðal annars að hafa yfirsýn yfir alla þá heilbrigðisþjónustu sem er veitt í verkefninu, ásamt því að sinna málsvarastarfi fyrir jaðarsetta hópa í samfélaginu. Í dag erum við því tvær sem störfum í verkefninu og getum við þannig sinnt málefnum á milli vakta og fylgt þeim eftir og komið í réttan farveg. Í mörgum tilfellum snýst þetta um að koma skjólstæðingum í rétt meðferðarúrræði, í samband við réttan lækni eða félagslega þjónustu.

Þó að verkefni á borð við Frú Ragnheiði sé mikilvægt og góð viðbót getum við öll tileinkað okkur hugmyndafræðina sem liggur að baki skaðaminnkun, sama hvar við störfum. Allir eiga rétt á heilbrigðisþjónustu og það er hlutverk okkar hjúkrunarfræðinga að vera málsvarar skjólstæðinga, sérstaklega þegar takmarkað er hlustað á þeirraviðhorf. Það er því viðeigandi að enda þennan pistil á vísun í siðareglur hjúkrunarfræðinga: „Hjúkrunarfræðingur er málsvari skjólstæðings og stendur vörð um reisn hans og rétt og stuðlar að því að komið sé fram af virðingu og heiðarleika. Hjúkrunarfræðingur stendur vörð um sjálfsákvörðunarrétt skjólstæðings og rétt til bestu mögulegrar þjónustu á hverjum tíma.“

Nútíð

Fíkn og vímuvarnir

Hjúkrun

Hreinlæti

Upplýsingar og ráðgjöf

Öryggi

Pistlar

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála