Hjúkrun og lækning að fornu
Dr. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir þjóðfræðingur
Fornar íslenskar heimildir greina frá konum og körlum sem fengust við að annast sjúka, aðstoða við fæðingar, binda um sár, bera smyrsl á þrota og bólgur og búa um beinbrot. Fyrir þá iðju að græða menn, eins og það var kallað, hlaut fólk auknefnið læknir þó að verkin sem unnin voru hafi oftar en ekki fallið undir það sem í dag tilheyrir starfssviði hjúkrunarfræðinga. Sú aðgreining sem nú gildir milli lækna og hjúkrunarfólks var þó ekki til staðar á ritunartíma Íslendingasagna. Hugsanlega hafa þær systur hjúkrun og umönnun verið svo snar þáttur í daglegu lífi að ekki hefur þótt ástæða til að sérgreina þær sérstaklega.
Fyrir utan almenna umönnun og fæðingarhjálp inni á heimilunum má segja að hjúkrunar- og læknisstörf fornkvenna hafi einkum verið tvenns konar: Að græða áverka og veita sálræna aðstoð.
Að „kunna sár að sjá“
Í Sigurdrífumálum Eddukvæða kennir valkyrjan Sigurði Fáfnisbana rúnir þær sem læra þarf „ef þú vilt læknir vera, og kunna sár að sjá“ (Eddukvæði, 245). Má af kvæðinu og öðrum fornbókmenntum ráða að konur hafa átt drjúgan þátt í því að græða menn og lækna þá, ekki síst eftir orusturnar sem fornsagnirnar hnitast margar um. Tekst stundum svo vel til að aðdáun vekur. Þannig segir frá því í annarri Jarteinabók Þorláks helga að kona saumar andlitssár með silkiþræði og bindur um með þeim ágæta árangri að „þrimr nóttum síðarr váru leyst bönd af andliti Orms, ok var svá gróit at trautt mátti á sjá, at sárt hefði verið“ (Ísl.fornr. XVI, 231).Á vígvöllum kom það í hlut hermanna að hlúa hver að öðrum en „læknarnir“ sem tilkvaddir voru reyndust oft og einatt vera konur. Þannig var það í Stiklastaðarorustu árið 1030. Í ýmsum stríðsátökum síðar hafa konur læknað, hjúkrað og annast særða hermenn líkt og Florence Nightingale þegar hún lagði grunn að núgildandi skipan hjúkrunarmála í Norður-Evrópu með því að skipuleggja hjúkrunarsveitir Englendinga í Krímstríðinu 1854–1856 (Vilmundur Jónsson 1949, 117).
Konan sem hlúir að særðum mönnum eftir Stiklastaðarorustu árið 1030 hefur átt annríkt eftir orustuna, eins og ráða má af Ólafs sögu helga. Er þar lýst aðstæðum í sjúkraskýli sem komið var upp til að annast þá sem bornir voru af vígvelli. Þormóður Kolbrúnarskáld leitar þangað helsærður og þar eru fyrir margir sárir menn:
Var þar að kona nokkur og batt um sár manna. Eldur var á gólfinu og vermdi hún vatn til að fægja sárin. […] Hún hafði þar gert í steinkatli, stappað lauk og önnur grös og vellt það saman og gaf að eta hinum sárum mönnum og reyndi svo hvort þeir hefðu holsár […] Hún bar það að Þormóði, bað hann eta.
Hann svarar: „Ber brott. Ekki hefi eg grautsótt.“
Með því að gefa særðum mönnum lauksúpu mátti meta hvort lífhimnan var heil eða rofin. Væri himnan rofin barst lauklykt frá sárinu eftir að súpunnar hafði verið neytt. Þormóður ber lítið skynbragð á þessa greiningaraðferð konunnar eins og sjá má. Hann skipar henni að skera til örvarendans sem stendur fastur í honum svo hann geti sjálfur kippt honum í burtu. Hún hlýðir en ekki tekst betur til en svo að þegar Þormóður kippir örinni úr sárinu fylgja með tægjur úr hjartanu, rauðar og hvítar. „Vel hefir konungurinn alið oss. Feitt er mér enn um hjartarætur,“ sagði hann þá og hné dauður niður (Heimskringla II, 539-540).
„Úr hvorra liði sem eru“
Í Víga-Glúms sögu má lesa um Halldóru Gunnsteinsdóttur, konu Glúms, sem sögð var „væn kona ok vel skapi farin“. Í orustu á Hrísateigi, þar sem reidd voru „stór hǫgg ok mörg“ með mannfalli, kveður Halldóra með sér konur á vettvang og segir: „skulum vér binda sár þeira manna, er lífvænir eru, ór hvárra liði sem eru.“ Ekki eru konurnar fyrr komnar að en Þórarinn á Espihóli er höggvinn af Má Glúmssyni „ok var öxlin hǫggvin frá, svá at lungu fellu út í sárit.“ Batt Halldóra um sár Þórarins og sat yfir honum þar til bardaganum lauk. Þetta varð eiginmanni hennar til lítillar gleði því að bardaganum loknum mælti Glúmur til konu sinnar: „För vár mundi hafa orðit góð í dag, ef þú hefðir heima verit ok hefði Þórarinn eigi lífs brott komizt.“ Lét Halldóra sér fátt finnast um snuprur hans (Ísl. fornr. IX, 35, 78).Göfuglyndi Halldóru Gunnsteinsdóttur, hlutleysi hennar gagnvart þeim sem sárir eru og umönnunarvilji vekur aðdáun. Ríkari ástæðu hafði Þuríður spaka í Hörgsholti sem frá er sagt í Landnámu. Þegar Guðlaugur auðgi og Þorfinnur Selþórisson féllu báðir eftir hólmgöngu „grœddi [Þuríður] þá báða ok sætti þá“ enda tengdamóðir annars en mágkona hins (Ísl. fornr. I, 100).
Ónefndar eru enn margar konur sem Íslendingasögurnar greina frá að grætt hafi menn og annast þá særða. Njála greinir frá Hildigunni þeirri sem græddi sár Þorgeirs og Starkaðar eftir bardagann við Knafahóla. Í Droplaugarsona sögu segir af Álfgerði á Ekkjufelli sem bindur sár Gríms og í Harðar sögu og Hólmverja er getið um Helgu Haraldsdóttir í Geirshólmi sem græddi Geir eftir viðureign hans við Ref. Skörungurinn Ólöf Hrolleifsdóttir í Þórðar sögu hreðu og Gríma, kona Gamla, í Fóstbræðra sögu sem var „svarkr mikill“ en engu að síður „gǫr at sér um mart, læknir góðr ok nǫkkut fornfróð“ (Ísl. fornr. VI, 242).
Læknisdómar í fórum kvenna
Þekking á verkun grasa til að lina þrautir eða létta sóttir voru lykilatriði varðandi það hvernig til tóks við græðslu sára og meina. Í goðafræðinni lesum við að Menglöð „sú hin sólbjarta“ hefst við á Lyfjabergi með meyjum sínum, eins og segir í Fjölsvinnsmálum (Eddukvæði, 419).Lyfjagerð og -gjafir hafa þess vegna tengst konum frá upphafi vega enda liður í heimilishaldi og meðhöndlun matvæla og drykkja sem voru í verkahring kvenna. Á hverju íslensku heimili var að finna ýmis efni sem nota mátti í lyf og smyrsli: Mjólk, mysu, smjör og ýmis grös og jurtir. Má geta nærri að það hafi komið í hlut kvennanna að útbúa grashnyklana sem hér tíðkuðust lengi og innihéldu sérstaklega umbúinn skammt lyfjagrasa í tiltekið magn seyðis eða soðs. Um einn slíkan er getið í Kormáks sögu þar sem maður státar sig af því að hafa aldrei þurft að binda sér „belg at hálsi, urtafullan“ (Ísl. fornr. VIII, 249).
Auk þekkingar á grösum og meðferð þeirra þurfti hver sá sem græða vildi mannamein að kunna skil á lækningarmætti náttúrusteina sem voru viðurkennd meðul í heiðni og lengi fram eftir öldum. Náttúrusteinar hafa oft fundist í heiðnum kumlum hérlendis, ekki síst kvenkumlum. Er þess vegna talið að steinninn í fórum konunnar eigi sér mun dýpri rætur en svo að hann hafi einungis verið til skrauts (Kristján Eldjárn 1956; Jón Steffensen 1975, 184-185).
Sálhjúkrun kvenna
Eddukvæðið Oddrúnargrátur greinir frá sálhjúkrun eða sállækningu. Þegar Oddrún hefur aðstoðað Borgnýju í barnsnauð upphefur hún raunasögu sína og verður það tregróf báðum konunum til hugarhægðar. Höfum við þar eitt elsta dæmi fornra kvæða um geðlausn sem veitist með samtali.Í Íslendingasögum sjáum við konur oft í hlutverki græðara en karla í stöðu sjúklings þó að hvorki sé talað um lækningu né hjúkrun af því tilefni. Karlinn – oftar en ekki náinn fjölskyldumeðlimur – þiggur af konunni sálfræðiaðstoð eða sállækningu sem ólíkt sáralækningum á vígvellinum fer fram innan veggja heimilisins með málrænni meðferð.
Gott dæmi er samtalsmeðferðin sem Þorgerður, elsta dóttir Egils Skallagrímssonar, veitti föður sínum þegar hann eftir sonarmissi var lagstur í rekkju sína til að deyja og vildi hvorki vott né þurrt. Með vel útfærðu samtali fær Þorgerður föður sinn til þess að tyggja söl og drekka. Þar með er hungurferlið rofið svo að lífslöngun kviknar á ný. Annað glöggt dæmi eru hjónin Bjargey og Hávarður sem frá er sagt í Hávarðar sögu Ísfirðings. Með samtalstækni kemur Bjargey Hávarði á fætur þegar hann hefur legið rúmfastur í sorg eftir víg sonar síns mánuðum saman. Hún kemur honum til þess að sækja rétt sinn og ná fram hefndum. Við það nær hann andlegum bata og verður eftir það „svá kátr ok glaðr við hvert mannsbarn sem ungr væri“ (Ísl. fornr. VI, 336).
Konur ruddu brautina
Konur hafa frá fornu fari gegnt lykilhlutverki í lækningum, fæðingarhjálp, hjúkrun og sálrænni aðhlynningu á Íslandi og Norðurlöndum, ekki aðeins innan veggja heimilisins þar sem þær tóku á móti börnum, gerðu lyf og grashnykla, mögnuðu náttúrusteina, önnuðust sjúka og veittu geðlausn í hugarangri og harmi heldur einnig þar sem sárir menn lágu óvígir eftir orustur. Við getum þess vegna skyggnst mun aftar en til Florence Nightingale (1820-1910) til þess að finna rætur hjúkrunar og lækningaskipulags í menningu okkar daga. Til forsögulegra kvenna má rekja elstu lærdóma um ljósmóður- og lækningastörf. Til kvenna eins og Þorgerðar Egilsdóttur Skallagrímssonar og Bjargeyjar í Hávarðar sögu Ísfirðings má rekja sálræna aðhlynningu og samtalsmeðferð. Til kvenna á borð við Halldóru Gunnsteinsdóttur úr Víga-Glúms sögu má rekja það göfuga sjónarmið sem Rauði krossinn, Læknar án landamæra og raunar allt menntað heilbrigðisstarfsfólk virðir enn í dag, tíu öldum síðar: Að líkna og hjúkra særðum og sjúkum „úr hvorra liði sem eru“.Heimildir
Eddukvæði. Gísli Sigurðsson sá um útgáfuna. Mál og menning. Reykjavík 1998.Heimskringla I-III. Mál og menning. Reykjavík 1991.
Íslenzk fornrit I-XVI. Hið íslenzka fornritafélag. Reykjavík 1933-2002.
Jón Steffensen (1975). Menning og meinsemdir. Ritgerðasafn um mótunarsögu íslenzkrar þjóðar og baráttu hennar við hungur og sóttir. Sögufélagið. Reykjavík.
Kaiser, Charlotte (1998). Krankheit und Krankheitsbewältigung in den Isländersagas. Medizinhistorischer Aspekt und Erzältechnische Funktion. Seltman & Hein Verlag. Köln.
Kristján Eldjárn (1956). Kuml og haugfé úr heiðnum sið á Íslandi. Norðri. Akureyri.
Vilmundur Jónsson (1949). Lækningar – Curationes – séra Þorkels Arngrímssonar sóknarprests í Görðum á Álftanesi. Helgafell. Reykjavík.