Horft um öxl
Kristín Björnsdóttir, hjúkrunarfræðingur og prófessor við hjúkrunarfræðideild HÍ
Það er gaman að fá tækifæri til að líta yfir farinn veg og íhuga fræðistörf mín. Í námskeiðum Mörgu Thome á fyrsta ári í hjúkrunarfræði var lagður grunnur að þeim skilningi á eðli umönnunar og heilbrigðisþjónustu sem mótaði afstöðu mína. Marga kynnti okkur fyrir áhugaverðum hugmyndum og óvenjulegum leiðum til að takast á við viðfangsefnin. Í náminu vandist ég á að beita gagnrýnni hugsun í þeim skilningi að skoða allar hliðar mála og spyrja mig stöðugt hvort hlutirnir gætu verið með öðrum hætti en virtist liggja beinast við. Að starfa við hjúkrun er mikil reynsla sem mótar mann á svo margvíslegan hátt. Líkt og svo margir aðrir hjúkrunarfræðingar fannst mér ég skynja ákveðna töfra í hjúkrun sem tengdust því að annast um fólk sem var í mörgum tilvikum að takast á við mikla erfiðleika. Með fræðimennsku minni hef ég leitast við að skilja þessa töfra og þær aðstæður sem móta þá.
Eðli hjúkrunarstarfsins
Þegar í grunnámi beindist áhugi minn að femínískum kenningum sem ég hélt áfram að kynna mér og beita eftir að ég hóf framhaldsnám í Bandaríkjunum. Ég fann áhugaverðan grunn í þeirri þekkingarfræði sem margir áhrifamiklir femínískir fræðimenn settu fram á síðari hluta tuttugustu aldar og jafnframt heillaðist ég af femínískum siðfræðikenningum líkt og margir aðrir hjúkrunarfræðingar. Vissulega mótaðist þessi áhugi minn af þeirri staðreynd að þegar hjúkrun varð að formlegri starfsgrein um miðja tuttugustu öldina var starfið kvennastarf. Margir fræðimenn leituðust við að varpa ljósi á eðli kvennastarfa og umönnunarstarfa og gera þau sýnileg. Þó ég hafi alltaf verið talsmaður þess að fjölga karlmönnum í hjúkrun, hef ég engu að síður talið mikilvægt að skoða þann styrk sem konur hafa fært starfinu. Þessar áherslur koma sterkt fram í doktorsritgerð minni og í fyrstu ritverkum mínum, m.a. bókinni Líkami og sál: Hugmyndir, þekking og aðferðir í hjúkrun. Í þeirri bók leitaðist ég við að skilja eðli hjúkrunarstarfsins, þær hefðir og gildi sem hjúkrunarfræðingar hafa haft að leiðarljósi, eðli þeirrar þekkingar sem skilar árangri í starfi og þeim starfsaðstæðum sem hjúkrun hefur verið búin. Saga fagsins mótaðist af baráttunni fyrir bættri menntun, mannsæmandi launum og viðunandi starfsskilyrðum. Auk þess að nýta hinar femínísku kenningar við greiningu á hjúkrunarstarfinu hef ég einnig beitt þeim í rannsóknum mínum á hlutskipti fjölskyldumeðlima sem annast um einstakling heima, en framan af voru konur í yfirgnæfandi meirihluta þeirra. Eins og fjölmargar rannsóknir hafa sýnt og halda áfram að sýna eru slík störf afar krefjandi og ef ekkert er að gert draga þau úr lífsgæðum þeirra sem umönnun veita.Áhugi á heimahjúkrun færist í aukana
Áhugi minn á heimahjúkrun spratt úr rannsóknum mínum á sögu hjúkrunar. Ég áttaði mig á að hjúkrunarstarfið varð ekki til sem aðstoðarmannsstarf lækna á stofnunum heldur umönnun og leiðbeining til fólks, sem bjó á heimilum sínum en átti við veikindi að stríða, um hollustuhætti og góðan aðbúnað. Með þeirri stofnanavæðingu heilbrigðisþjónustunnar sem átti sér stað megnið af tuttugustu öldinni minnkaði þó stöðugt áhuginn og þörf fyrir heimahjúkrun. Undir lok aldarinnar og alla tuttugustu og fyrstu öldina hefur áhuginn á heilbrigðisþjónustu á heimilum og þar með heimahjúkrun færst í aukana. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með endurkomu heimahjúkrunar í stefnumörkun alþjóðastofnana og stjórnvalda einstakra landa. Í rannsóknum mínum og annarra vísindamanna á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu hefur komið fram að heimahjúkrun verður stöðugt tæknilega flóknari og krefst sérhæfðari þekkingar. Fólk dvelur skemur á sjúkrahúsum og það kallar á ný verkefni í heimahjúkrun. Einnig hafa þessar rannsóknir leitt í ljós að hjúkrunarfræðingar í heimahjúkrun stýra fjölbreyttri starfsemi sem kallar á samvinnu við fjölmarga aðila og samhæfingu starfa. Ég notaði hugmyndina um net til að lýsa því hvernig teymisstjórar í heimahjúkrun tengja ólíka aðila saman til að skapa heildstæða, örugga og áreiðanlega heilbrigðisþjónustu á heimilum. Í þeim störfum nýta hjúkrunarfræðingarnir meginreglur teymisvinnu þar sem þekking og styrkur ólíkra aðila eru nýtt á sem árangursríkastan hátt.Mikilvægt að tileinka sér tækniframfarir
Stjórnvöld á Íslandi, líkt og í nágrannalöndum okkar, leitast við að stuðla að upptöku stafrænna aðferða í heilbrigðisþjónustunni og tryggja með því innleiðingu hinnar svokölluðu fjórðu iðnbyltingarinnar. Þegar má finna áhrif þessarar þróunar á sviði heimaþjónustu. Með innleiðingu rafrænnar skráningar hefur gagnkvæmur aðgangur starfsmanna að heilsufarsupplýsingum stórbatnað og þar með tækifæri til samfellu og samhæfingar sem eru lykilþættir í allri samþættingu. Í samvinnu við nemendur mína hefur rannsóknaáhugi minn í auknum mæli beinst að kostum stafrænna aðferða fyrir heimahjúkrun. Ég tel afar brýnt að við fylgjumst mjög vel með tækniframförum á þessu sviði og leitumst við að tileinka okkur þær.Um árabil hef ég starfað með kanadískum hjúkrunarfræðingum, þeim Mary Ellen Purkis og Christine Ceci, að rannsóknum á starfsháttum (e. practice) í hjúkrun. Árið 2015 hófst rannsóknarverkefni sem beinist að fólki með heilabilun sem býr heima og fjölskyldum þess. Markmið hennar er að átta sig á því hvað þessum fjölskyldum finnst hjálplegt og hvaða aðferðir þær beita til að takast á við aðstæður sínar. Hugsunin er sú að bera niðurstöður frá ólíkum löndum saman. Það tók töluverðan tíma að fjármagna þetta verkefni hér heima en er nú komið mjög vel á veg. Margrét Guðnadóttir hjúkrunarfræðingur, sem hefur áralanga reynslu af að starfa sem teymisstjóri í heimahjúkrun, hlaut þriggja ára doktorsnemastyrk til að vinna að því. Niðurstaðna er að vænta á næstu misserum og það er von okkar að þetta verkefni geti orðið til að styðja að uppbyggingu þjónustu fyrir þennan ört vaxandi en viðkvæma hóp fólks sem nýtur heimaþjónustu.
Auk Margrétar hlotnaðist mér einnig að vinna með Ingu Valgerði Kristinsdóttur að doktorsverkefni hennar sem hefur hlotið styrk til þriggja ára. Inga ætlar að skoða ýmsa þætti heimaþjónustu með það fyrir augum að koma auga á þau atriði sem mætti styrkja. Hún mun byggja á gögnum úr IBenc-verkefninu sem var samstarfsverkefni 8 Evrópulanda þar sem gagna var safnað með Inter-RAI HC-mælitækinu.
Nú fer að halla á seinni hluta minnar starfsævi. Þetta hefur sannarlega verið ánægjulegt ferðalag, en það besta er að sjá nýja kynslóð taka við kyndlinum af þrótti og þekkingu.