Hugleiðingar eftir 25 ár í starfi á Íslandi
Grazyna Ugorenko
Erlendum hjúkrunarfræðingum hefur fjölgað talsvert á Íslandi undanfarin ár og því fylgja breytingar. Margbreytileg viðhorf og nýliðun í starfstéttinni bætir gæði hjúkrunar á faglegan og fjölmenningarlegan hátt. Á síðustu áratugum hafa einnig farið vaxandi fagleg og menningarleg samskipti og samvinna hjúkrunarfræðinga heimshorna á milli.
Þegar ég fékk hjúkrunarleyfi árið 1994 voru 83 erlendir hjúkrunarfræðingar með hjúkrunarleyfi á Íslandi, en í lok ársins 2018 var talan komin upp í 359. Samsetning þjóðarinar hefur breyst mikið á þessum árum. Þegar ég kom til landsins 1991 bjuggu hér fáir erlendir ríkisborgarar en nú erum við um það bil 42.000, eða 12,6% þjóðarinnar, sem erum af erlendum uppruna. Fjölgun og breytt samsetning þjóðarinnar kallar á breytingar á faglegri fræðslu til starfstéttarinnar um menningarlega hjúkrun.
Tortryggni við að ráða erlenda hjúkrunarfræðinga þrátt fyrir mikinn skort
Ég útskrifaðist úr hjúkrun 1985 í Póllandi. Eftir útskrift vann ég í 6 ár á almennri skurðdeild á sjúkrahúsi í Gdansk, auk þess að vinna sem kennari í verklagskennslu hjúkrunarnema á háskólasjúkrahúsinu þar. Ég hóf störf sem hjúkrunarfræðingur hér á landi 1994 og vann ég eingöngu með íslenskum hjúkrunarfræðingum. Nú vinn ég á Landspítala á Landakoti þar sem flestir hjúkrunarfræðingar eru af erlendum uppruna. Þetta er mikil breyting.Það var nokkkuð flókið fyrir mig að fá viðurkenningu til að starfa sem hjúkrunarfræðingur á Íslandi þar sem sumir stjórnendur voru tortryggnir á að ráða erlenda hjúkrunarfræðinga til starfa á þessum tíma, þrátt fyrir það að mikill skortur væri á hjúkrunarfræðingum. En þegar ég byrjaði að vinna tóku flestir starfsmenn mér vel.
Hjúkrunarferill minn á Íslandi byrjaði í janúar 1994 á almennri deild sem var einnig bráðadeild á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði. Á vöktum þurfti ég að aðstoða við fæðingar og hjálpa til á öldrunardeild. Síðar varð ég deildarstjóri á öldrunardeild. Vinna á öldrunardeild fannst mér mjög skemmtileg, krefjandi og fræðandi. Á þessum tíma lærði ég mikið um sögu, hefðir og venjur Íslendinga með því að spjalla við aldraða sjúklinga.
Samskipti og samvinna í þessum litla hópi hjúkrunarfræðinga úti á landi byggðist á trausti og hjálpsemi. Það var gaman að sjá hvernig fagleg kunnátta, skipulag, tilitssemi og vinátta á þessari litlu einingu, sem ég var í fyrsta skipti á ævinni að vinna á, hafði mikil áhrif á starfsemi stofnunarinnar og öryggi samfélagsins í bæjarfélaginu. Þarna kynnist ég fyrst áfallahjúkrun eftir veðurhamfarir sem gengu yfir svæðið. Þetta var nýtt viðfangsefni fyrir mig. Með aðstoð frábærra samstarfsaðila með mikla reynslu á þessu sviði gekk þetta allt vel, ég gat aðstoðað marga einstaklinga sem áttu um sárt að binda. Sumir gátu auk þess ekki tjáð sig á íslensku. Þessi reynsla hefur verið dýrmætt veganesti fyrir mig og þroskað mig mikið sem hjúkrunarfræðing bæði faglega og persónulega.
Fyrstu kynnin í nýju heimalandi móta viðhorf til frambúðar
Ég á margar góðar og lærdómsríkar minningar eftir að hafa unnið á þessum stað í níu ár samfellt. Þarna upplifði ég líka skemmtilegar samverustundir með vinnufélögum, t.d. á golfmótum, siglingum, ferðalögum og samkomum. Enn í dag þegar ég heyri frá eða hitti gamla vinnufélaga frá Ísafirði eða Bolungarvík verða miklir fagnaðarfundir. Ég segi þetta hér til að benda á hvað það er mikilvægt að taka vel á móti samstarfsfólki af erlendum uppruna. Fyrstu kynnin í nýja heimalandinu móta viðhorf hins nýkomna til frambúðar.Ég a auðvelt með að aðlagast nýjum aðstæðum og er mjög opin fyrir nýjum verkefnum og tækifærum. Það er alltaf gaman að læra eitthvað nýtt, kynnast nýjum samstarfsfélögum. Árið 2002 flutti ég til Reykjavíkur og fór að vinna hjá Liðsinni. Þessa 28 mánuði sem ég var þar vann ég á 18 mismunandi deildum, mest á lyflækningadeildum, öldrunardeildum og í heilsugæslu í Reykjavík, Keflavík og Bolungarvík.
Starfið var einstaklega fjölbreytt og skemmtilegt, þar kynntist ég mörgum hjúkrunarfræðingum sem voru sérfræðingar á hinum ýmsu sviðum. Þeir voru alltaf tilbúnir að deila reynslu sinni með öðrum og aðstoða eftir þörfum. Á þessum tíma fékk ég enn fremur tækifæri til að kynnast ólíkum stjórnunar-, skipulags- meðferðar- og nálgunaraðferðum í hjúkrun. Það var krefjandi og lærdómsríkt og ekki síst skemmtilegt tímabil á mínum starsferli. Ég byggi enn á þessari góðu reynslu. Ég vann einnig um árabil á Landspítala. Þar vann ég á bæklunar-, lungna- og sýkingavarnadeild. Ég vann einnig með menntadeild að námskeiði um menningarhæfa hjúkrun og leiðbeindi erlendum hjúkrunarfræðingum.
Viðhorf til erlendra heilbrigðisstarfsmanna breyst mikið undanfarin 25 ár
Erlendir hjúkrunarfræðingar virðast almennt vera ánægðir í vinnu hér á landi. Viðhorf Íslendinga til erlendra heilbrigðisstarfsmanna hefur líka mikið breyst á þessum 25 árum sem ég hef unnið hér á landi. Umræðan um menntunina, fagið og fagmennsku er miklu uppbyggilegri og opnari. Erlendir hjúkrunarfræðingar gera líka meiri kröfur til sjálfra sín að skilja og tala góða íslensku.Það er því miður oft þannig að Íslendingar vilja oft tala ensku við hjúkrunarfræðinga af erlendum uppruna þótt þeir reyni og vilji tjá sig á íslensku. Ég legg mikla áherslu á það að erlendir hjúkrunarfræðingar læri fljótt íslensku. Það skipti máli í starfinu, í símenntun og framhaldsmenntun, eykur öryggi í samskiptum við sjúklinga og samstarfsfélaga og bætir ekki síst félagslífið.
Á lokum vil ég þakka samstarfsfólki mínu gegnum árin fyrir ánægjulegu samvinnu.