Hjukrun.is-print-version

Hvaða gagn gerði ég?

Viðtal við Ástu Möller, Ingibjörgu Pálmadóttur og Þuríði Backman

Viðtal við Ástu Möller, Ingibjörgu Pálmadóttur og Þuríði Backman
Þær komu umræðu um heilbrigðismál á dagskrá Alþingis og voru ötular í forvörnum. Þrír hjúkrunarfræðingar líta yfir farinn veg og reynslu sem kjörnir fulltrúar á Alþingi.

Það kann að hljóma eins og sáraeinfalt mál að hóa saman þremur fyrrverandi þingkonum en raunin er önnur. Með þolinmæði tekst þó að stefna Ástu Möller, Ingibjörgu Pálmadóttur og Þuríði Backman saman en þær eiga það sameiginlegt að vera hjúkrunarfræðingar sem hafa setið á Alþingi. Það er létt yfir þeim og stutt í hláturinn þó auðvitað hafi verkefnin í gegnum tíðina oftar en ekki
verið þrungin alvöru.

Þær vissu hver af annarri áður en þær sátu saman á þingi hver fyrir sinn flokk, höfðu kynnst í gegnum vinnu og félagsstörf. Ásta var í Sjálfstæðisflokknum, Ingibjörg í Framsóknarflokknum og Þuríður í Vinstri grænum (VG). Ásta og Þuríður settust á þing 1999 og Ásta sat til 2009 en Þuríður til 2013. Þuríður hafði reyndar komið áður inn sem varamaður. Ingibjörg var á þingi 1991 – 2001, þar af heilbrigðisráðherra 1995 – 2001. Þær voru því í tvö ár allar á sama vinnustaðnum við Austurvöll.

Hvort vegur þyngra hjúkrunarbakgrunnur eða flokkspólitík?

Þuríður segir að þrátt fyrir hugsanlega ólíka sýn á það hvernig eigi að reka heilbrigðisþjónustuna, leysa kerfismál og hvort heilbrigðismál eigi að vera í einkarekstri eða opinberum rekstri þá hafi örugglega hjálpað þeim að hafa sameiginlegan grunn í hjúkrun. „Ég held að við höfum oftast náð að tala okkur saman niður á einhverja lausn sem við vorum þokkalega sáttar við.“

Áður en Ásta kom á þing var hún formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Árið 1997 voru heiftúðugar kjaradeilur, einmitt þegar Ingibjörg var ráðherra, og það munaði eiginlega bara hársbreidd að heilbrigðiskerfið lamaðist. „Já, það munaði engu að hjúkrunarfræðingar hefðu gengið út á þessum tíma. Það voru uppsagnir,“ svarar Ásta og Ingibjörg heldur áfram: „Já, það var allt í hnút. En ég held að við höfum alveg skilið hvor aðra, en ég var þá komin í þá stöðu að ég varð að gera allt til að reyna að ná samningum. Ég man að karlarnir, sem voru með mér í ríkisstjórn, voru hræddir um að ég myndi eitthvað lyppast niður vegna þess að ég var eina konan í ríkisstjórn og „hjúkka“. Ég ræddi auðvitað mikið við Ástu og hún var rosalega hörð – uppjárnuð alveg.“ „Eins og hún átti að vera,“ skýtur Þuríður inn í. „Já, já, auðvitað,“ svarar Ingibjörg. „Og við vorum þarna í sitthvoru hlutverkinu og það var alveg að koma miðnætti þessa dags sem var lokadagur til að ná samningum. Vigdís Magnúsdóttir, sem þá var forstjóri Landspítalans, var með mér uppi í ráðuneyti og klukkan var svona hálftólf og það var búið að reyna allt mögulegt en ekkert gekk. Svo allt í einu bara, tíu mínútur fyrir tólf, segir Vigdís mér að hringja í Ástu og spyrja hana hvernig henni lítist á nýjustu tillöguna … og þá bara, bingó, klukkan tólf var málið leyst! Þetta var með erfiðustu augnablikum í minni ráðherratíð.“

Þessir atburðir eru Ástu einnig í fersku minni. „Það sem skipti sköpum við lausn málsins voru stofnanasamningarnir,“ segir hún. „Þeir urðu lykillinn að lausninni. Því þegar þetta nýja launakerfi kom þá var yfirvinna færð inn í grunnlaunin og allar háskólastéttir voru með það. En hjúkrunarfræðingar voru ekki með neina „óunna yfirvinnu“, eins og þetta var kallað þá. Þannig að þegar stofnanasamningarnir voru frágengnir hjá hinum félögunum þá kom í ljós mikill launamunur á grunnlaunum hjúkrunarfræðinga með fjögurra ára háskólamenntun og allra hinna stéttanna með samsvarandi menntun. Hjúkrunarfræðingar ætluðu auðvitað ekkert að láta það yfir sig ganga. Við vissum alveg að með því að fara í þetta nýja launakerfi myndi þetta koma fram og gefa okkur færi, en þegar þetta kom í ljós
þá sögðu margir hjúkrunarfræðingar upp. Og þetta voru einstaklingsbundnar uppsagnir, félagið stóð ekkert á bak við þær. Þetta bara fór af stað og svo voru þrír mánuðir liðnir þennan dag sem Ingibjörg var að lýsa. Og þá … kannski deginum á undan, hafði þessu verið vísað inn til Landspítalans.“

Það var verkefni Ástu að fara með tilboðið, sannfæra hjúkrunarfræðinga um að ekki yrði komist lengra og fá þá til að draga uppsagnirnar til baka. „Þetta var svo tæpt og það var kominn svo mikill baráttuhugur í hjúkrunarfræðinga að þetta voru erfiðir fundir,“ segir hún. „Ef við hefðum gengið út hefði verið komin allt önnur staða. Það voru stórir hópar á báðum stöðunum sem voru mjög ósáttir þegar við vorum að kynna þessa samninga. Þetta hafðist en var eiginlega það erfiðasta sem ég fór í gegnum sem formaður. En sambandið á milli okkar Ingibjargar og sambandið niður í ráðuneyti hjálpaði mikið.“ 

Þær ræða um að þessir samningar 1997 hafi skilað hjúkrunarfræðingum einhverjum mestu kjarabótum sem þeir hafi fengið. „Ég fékk svo símtöl stuttu síðar frá hjúkrunarfræðingum sem sögðust bara ekki trúa því hvað væri að koma upp úr launaumslaginu sínu. Þær höfðu bara aldrei séð svona tölur! Það var náttúrlega gaman, en þetta náðist fyrst og fremst út af samstöðu stéttarinnar,“ segir Ásta. „Og nýjum vinnubrögðum svolítið …,“ skýtur Ingibjörg inn í. Ef ekki hefði náðst að semja og víðtækar uppsagnir orðið að veruleika hefði allt lamast. Félagið stýrði ekki uppsögnunum, enda hefði það verið ólöglegt, en stóð með þeim félagsmönnum sem sögðu upp, t.d. með því að styrkja trúnaðarmennina.

Þuríður segir að uppsagnirnar hafi ekki náð út á land en á þeim tíma var hún í bæjarstjórn á Egilsstöðum. Jafnframt því vann hún á sjúkrahúsinu á staðnum og sem fræðslufulltrúi Krabbameinsfélagsins. Það voru engar uppsagnir á hennar svæði en hún fylgdist með úr fjarlægð. Eftir að samningar við stóru sjúkrahúsin í Reykjavík voru í höfn sneri félagið sér að gerð stofnanasamninga við sveitarstjórnir og þá sem voru í forsvari fyrir stofnanir úti á landi. Það var erfitt því peningarnir voru ekki handbærir.

„En auðvitað var þetta bara það sem þurfti að gera,“ segir Ásta. „Það var nýbúið að sameina félögin og allan þennan tíma, þessi 17 ár sem félögin voru tvö, og ekki síst þegar líða tók á, þá var því haldið gegn hjúkrunarfræðingum að þeir væru í tveimur félögum. Þegar Hjúkrunarfélag Íslands kom og ætlaði að semja sem háskólastétt þá var sagt: Nei, hvað eruð þið að segja? Það er hitt félagið! Og svo komum við og kröfðumst þess að okkar nám væri metið, menntunin og ábyrgðin og allt það, til jafns við aðrar háskólastéttir og þá var sagt: Ættum við að fara að hækka ykkur yfir hina hjúkrunarfræðingana?“

Úr hjúkrun í stjórnmál

Þuríður segir að þegar hún útskrifaðist 1973 frá Hjúkrunarskóla Íslands hafi hún verið valin til að halda ræðu fyrir hönd útskriftarnema og að kjaramálin hafi verið uppistaðan í þeirri ræðu. „Og það hvernig við værum notuð eins og ódýrt vinnuafl í náminu í stað þess að við nytum fræðslu og leiðbeiningar sem nemar. Þá höfðum við ekki aðgang að lánasjóði eða neinu slíku. Það var bara eins og þetta snerist um að láta okkur hlaupa. Í framhaldi af þessu var ég kosin í stjórn Reykjavíkurdeildar félagsins og síðan í stjórn Hjúkrunarfélags Íslands. Kannski var það út af þessari ræðu við útskriftina sem ég var kjörin í kjaramálanefnd, samninganefndina, og var í henni í fyrsta verkfallinu með BSRB árið 1977. Í því stappi, lokuð inni í Austurbæjarskóla í samningaviðræðum, þá var ég spurð hvort ég vildi koma á framboðslista Alþýðubandalagsins í Reykjavík. Ég hafði þá ekki hugsað neitt um pólitík en kem frá róttæku heimili svo ég sagði já. Þannig tengdist ég inn í pólitíkina, eiginlega í gegnum trúnaðarstörf fyrir hjúkrunarfræðinga.“ Hún flutti með fjölskyldu sinni til Egilsstaða 1983 og ári síðar voru aftur verkfallsaðgerðir hjá BSRB. Þá fréttist að hún hefði einhverja reynslu og þar með var hún drifin í sveitarstjórnarmálin á staðnum. „Pólitík hafði aldrei verið á dagskrá hjá mér, en svona leiðir eitt af öðru,“ segir Þuríður. Eftir átta ár í sveitarstjórn með fullri vinnu, fjölskyldu og tilheyrandi álagi ákvað hún að hætta öllu pólitísku vafstri 1998. Það dugði nú ekki lengi því þegar VG var stofnað var talað við Þuríði. Stefna VG var eins og sniðin að hennar hugmyndafræði svo það veittist henni auðvelt að verða við beiðninni. Kjördæmið fyrir austan þótti erfitt og fyrir fram álitið vonlaust að ná inn manni. Kárahnjúkavirkjun var í uppsiglingu og búin að vera mikil mótmæli gegn henni. „En það vantaði mann til að leiða listann og ég tók mér mánaðarfrí til þess að fara í kosningabaráttuna af krafti. Svo varð ljóst á kosninganóttina að ég væri á leið inn á þing, eitthvað sem ég átti alls ekki von á,“ segir Þuríður.

Áður en Ásta fór á þing var hún búin að vera virk innan Sjálfstæðisflokksins um hríð. Hún hafði verið á lista í tvennum kosningum og formaður heilbrigðisnefndar flokksins. Hún man eftir umræðu um að heilbrigðismál væru aldrei rædd inni á þingi. „En þarna vorum við svo komnar þrjár á þing. Katrín Fjeldsted læknir var þarna líka og Sif Friðleifsdóttir sjúkraþjálfari. Það voru nú ekki fleiri heilbrigðisstarfsmenn á Alþingi þá, eftir því sem ég man. Stundum hugsar maður eftir á: Hvaða gagn gerði ég? En mér fannst heilbrigðismálin komast á koppinn á þessum tíma. Mér fannst umræðan komast af stað, umræða um mismunandi rekstrarform til dæmis. Hjá félaginu var ég búin að berjast fyrir því að halda samningi sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðinga við Tryggingastofnun ríkisins frá 1989. Allan tímann sem ég var formaður vorum við að verja þennan samning og hugsanlega skapa hjúkrunarfræðingum annan vettvang en bara innan opinbera kerfisins. En á sama tíma voru tannlæknar, sjúkraþjálfarar og stór hluti lækna sjálfstætt starfandi. Mér fannst alltaf vera talað svolítið tveimur tungum því á sama tíma og fólk sagði: Við viljum ekki einkarekstur, eða við viljum ekki samstarf ríkis og einkaaðila, þá voru margir aðrir heilbrigðisstarfsmenn með svona samninga. Og öll öldrunarheimili voru meira eða minna rekin af einkaaðilum eða sveitarfélögum. Fólk talaði eins og það væri enginn einkarekstur og fann honum allt til foráttu. En svo komu nú þarna dæmi, t.d. gerði Ingibjörg samning um Sóltún.“

Ásta segir að á þessum tíma hafi verið ákveðin hreyfing inni á þingi þannig að það var talað meira um heilbrigðismál og „ég bara leyfi mér að þakka okkur fyrir það,“ segir hún. „Ég óskaði til dæmis eftir utandagskrárumræðu um rekstrarform í heilbrigðisþjónustu og fólk ætlaði að tala sig alveg hást, æsa sig og allt það. En svo þegar maður fór að skoða hvað var sagt í umræðunum þá var fólk miklu nær hvað öðru heldur en áður var haldið. Þannig að mér fannst verða ákveðin þróun og fannst Framsóknarráðherrarnir, þú Ingibjörg og svo Jón í framhaldinu, vera kjarkaðir.“

Ingibjörg segir að samningur um Sóltún hafi verið erfiður því það var dýrara en venjulegt hjúkrunarheimili og það vakti deilur. Enda átti Sóltún að vera fyrir allra veikustu eldri notendurna. „En þá hugsaði ég með mér: Svona eigum við að reka öll öldrunarheimili. Þetta var bara módel að því. Það hefur tekið langan tíma að fara þessa leið og við erum ekkert komin alla leið og síðan eru liðin tuttugu og eitthvað ár. En þrátt fyrir fjárskort eru hjúkrunarheimilin rekin með sérstaklega góðri þjónustu og til fyrirmyndar á flestum stöðum.“

Þuríður kemur með annað sjónarhorn. „Eitt varðandi Sóltún – eftir að hafa gert þann samning og reiknað út hvað kostaði að reka hjúkrunarþjónustu á öldrunarheimili þá hefði átt að nota það sem fyrirmynd til að byggja rekstur annarra hjúkrunarheimila á. Þau hefðu þá átt að fá samsvarandi fé. Það var það sem hefði þurft að koma í framhaldinu. Mér finnst ekki rétt að segja að vegna þess að Sóltún er einkarekið þá sé það til fyrirmyndar og bera svo saman við önnur hjúkrunarheimili vegna þess að það hefur sérstöðu sem hin öldrunarheimilin hafa ekki fengið.“

Ingibjörg segir að það sem helst standi í sér varðandi einkarekstur sé hættan á að rúsínurnar verði bara teknar út og hitt skilið eftir. Landspítalinn og aðrar grundvallarstofnanir standi svo eftir berrassaðar. „Það er mjög freistandi að geta stjórnað vinnutímanum þannig að þú sért ekki að vinna um helgar eða á nóttinni. En hver vill taka geðið? Hver vill taka hjartað? Og heilann og fæðingarnar og vökudeildina? Það er svo mikil hætta á að við brjótum þetta niður og þess vegna stendur það í heilbrigðisyfirvöldum að sjá hvernig við getum samið við einkaaðila um ákveðinn fjölda aðgerða sem kosta ákveðna upphæð og ekki meira og ekki minna.“

Þuríður segir að það þurfi að taka ábyrgð á hugsanlegum afleiðingum með í reikninginn. Hingað til hafi einkareksturinn verið allt of eftirlitslaus og að það vanti ramma. Ingibjörg tekur undir það og segir að það verði að taka Landspítalann með í myndina. „Það er verið að taka inn fjölveika sjúklinga og það getur allt gerst í svona aðgerðum sem einkaaðilar ráða kannski ekki við og þá er súrt fyrir þá sem eru að vinna dag og nótt á spítalanum að taka á móti aukaverkununum eða erfiðleikunum.“

Álagið er að fara með þessa stétt

Ásta segir þau viðhorf fara voðalega í taugarnar á sér að hjúkrunarfræðingar, þessi vel menntaða stétt, ætti bara að hafa sinn starfsvettvang innan ríkiskerfisins. Sem formaður félagsins leitaðist hún við að losa þarna um. Í þessu samhengi veltir hún nú fyrir sér hvort það myndi skapa vettvang fyrir hjúkrunarfræðinga sem starfa við annað til að koma til baka ef þeir hefðu aðra möguleika og gætu nýtt þekkingu sína eins og þeir lærðu fagið. Töluvert er um að hjúkrunarfæðingar starfi við annað vegna betri kjara. Þuríður telur að það sé hugsanlegt með einkarekstrinum. Það feli í sér möguleika á að geta stjórnað sínum vinnutíma og vera ekki stöðugt undir þessu mikla álagi. „Það er náttúrlega álag sem er að fara með þessa stétt. Og það er líka svo stór hópur sem er nú á efri árum og er búinn að halda uppi hryggjarstykkinu í hjúkrun á Íslandi í langan tíma.“ Ásta nefnir hvað aðstöðumunur stétta getur verið mismunandi. „Ég gleymi því ekki með St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Þar voru læknarnir á samningi við Tryggingastofnun og þeir voru bara í akkorðsvinnu. En hjúkrunarfræðingarnir, sem þá hlupu hraðar en víða annars staðar af því að læknarnir voru í þessu akkorði, þeir voru bara á föstum launum. En það var einhvern veginn aldrei neinn skilningur á þessu. Það hefur alltaf verið viðkvæðið að hjúkrunarfræðingar séu kvennastétt og svo margir og þeim bara haldið niðri.“

Forvarnir á oddinn

Alþingiskonurnar fyrrverandi eru sammála um að ýmis forvarnamál hafi komist á dagskrá fyrir þeirra tilstilli. Þær nefna m.a. þrengt aðgengi að skoteldum, tannlækningar, tóbaksvarnir, heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni og vímuvarnir sem þær lögðu allar vinnu í. Þegar Ingibjörg var ráðherra var eitt af því fyrsta sem hún gerði að setja fram alhliða forvarnaáætlun og í hennar tíð voru lögð drög að banni við reykingum í opinberu rými sem tók gildi með lögum um tóbaksvarnir nr. 6/2002. Það settu sig margir upp á móti því og fannst þetta öfgar. „Ekkert eitt hefur breytt heilsufari fólks eins og þessi lög. Þá voru það 24% Íslendinga sem reyktu daglega en núna eru þetta um 9%,“ segir Ingibjörg.

Þær eru líka sammála um að heilbrigðismál séu mikilvægasti málaflokkurinn. Ekkert er okkur mikilvægara en góð heilsa til lífs og sálar. Það vita þeir best sem misst hafa heilsuna. Það má margt gera betur.

„Heilbrigðisþjónustan hefur allt of lengi fengið að þróast nær tilviljunarkennt, lög og reglugerðir hafa hvorki tryggt skilgreinda þjónustuþörf né eftirlit. Umræða um heilbrigðismál hefur verið um fjármagn eða öllu heldur fjárskort eða einstaka mál sem koma reglulega upp. Það er fyrst nú sem verið er að móta heilbrigðisstefnu til framtíðar, en Svandís Svararsdóttir heilbrigðisráðherra hefur mælt fyrir þingsályktunartillögu um heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Ég tel þetta mikilvægt skref og nauðsynlegt til að ná saman um stefnu og þjónustu til lengri tíma. Málið er komið á dagskrá,“ segir Þuríður.

„Fyrir síðustu kosningar voru heilbrigðismál stóra málið,“ segir Ásta. „En málaflokkurinn tekur svo mikið fjármagn af heildarútgjöldum, að það er á brattann að sækja. Það verður alltaf mikil umræða um forgangsröðun. Heilbrigðismál gætu auðveldlega sogað til sín allt fjármagn ríkissjóðs.“

Hjúkrun í framtíðinni

Hvernig skyldu þessar reyndu konur sjá þróun hjúkrunar fyrir sér í framtíðinni? Þuríður verður fyrir svörum: „Það er erfitt að sjá nokkur ár fram í tímann, hvað þá heila öld. Eitt er víst að tækniframfarir munu hafa mikil áhrif varðandi samskipti og ýmsa þjónustu. Hátækni og sérhæfð meðferð við einstaka sjúkdómum verða örugglega á allt öðrum stað en við þekkjum í dag, en maðurinn verður sá sami og þarfnast jafnt hjúkrunar. Aukin sérhæfing í heilbrigðisvísindum og tækninýjungar hafa beinst að einstökum líffærakerfum eða frumum – heildarmyndin hefur viljað gleymast þrátt fyrir að vitað sé að ekki er hægt að aðskilja líkama og sál, eins og það var kallað. Nú beinast auknar rannsóknir að samspili heila- og líkamsstarfsemi og margt nýtt er að koma fram sem ég tel að muni breyta áherslum í heilbrigðisþjónustu og hjúkrun. Gripið verði fyrr inn í skaðlegt ferli þar sem það er ódýrara fyrir samfélagið og betra fyrir einstaklinginn. Þekking á skaðlegum lífsstíl og aukin þekking á langvarandi áhrifum andlegs og líkamlegs ofbeldis, fjöldi aldraðra og auknar kröfur um meiri lífsgæði munu að líkindum verða framarlega í forgangsröðun heilbrigðisþjónustunnar og þar með hjúkrunar. Forvarnir munu því gegna veigamiklum þætti. Mannleg samskipti og aðstoð til sjálfshjálpar verða vonandi enn ráðandi innan hjúkrunar eftir 100 ár þrátt fyrir allar tækninýjungar.“

Ásta tekur við boltanum: „Hjúkrunarfræðingar eru mjög vel menntuð stétt og það er hægt að nýta krafta þeirra mun betur. Ég sé fram á meira samtal á milli stétta. Hjúkrunarfræðingar verða áfram í lykilhlutverki en þeir þurfa að hafa fyrir því að koma sínum málum að. Hjúkrunarfræðingar hafa oft mjög góðar lausnir og ódýrar, til dæmis hjúkrunarstýrða heilsugæslu þar sem hjúkrunarfræðingurinn er sá fyrsti sem sjúklingurinn hittir. Reynsla erlendis frá sýnir að hjúkrunarfræðingar gátu leyst úr um 80% atvika með sinni menntun, aðeins 20% var vísað áfram til lækna. En þetta kallar á aukið samstarf og virðingu fyrir menntun hvors annars. Svona úrræði er ódýrara en ekki síðra. Þörfin mun aukast og eftirspurnin líka.“

Ingibjörg: „Nú er nánast hálf öld síðan ég útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur eða reyndar hjúkrunarkona. Ég sé ekki að eðli hjúkrunar hafi breyst í grunninn. Tæknin hefur að sjálfsögðu gert margt auðveldara og öruggara, líka flóknara og kallar sífellt á meiri kunnáttu og færni. Það að hjúkrun kalli á stöðuga endurmenntun og endurskoðun gerir vinnuna meira spennandi og gefur sjúklingunum án efa möguleika á skjótari bata. En á næstu 100 árum verður nú sem áður umhyggja, samhygð, nákvæmni, öryggi

Hvers vegna sækir fólk í hjúkrun?

„Mannleg samskipti og það að skipta máli,“ segir Ásta. „Svo er það fjölbreytnin, vinnuumhverfið og þessi lífsfylling. Þetta er svo gaman. Ég hef ekki unnið við hjúkrun í 30 ár en ég man enn þá eftir þessu og við eigum allar einhverjar svona „success stories“, atvik þegar maður fann að maður skipti máli. Það koma upp í hugann einhver tilfelli þar sem maður gaf af sér og fékk eitthvað til baka og það er þetta sem er heillandi við starfið.“ Ingibjörg segir glettin: „Þessi spurning minnir mig á þegar ég var að byrja í námi og við skólasysturnar vorum spurðar að því af einum kennara okkar: Er einhver ykkar hér sem fékk köllun til að fara í hjúkrun? Ein skólasystir mín sagði mjög alvarleg: „Ég fékk köllun.“ Þá sagði annar nemandi sem ekki var jafnheilagur: „Og hver kallaði á þig?“ Hún heldur áfram: „Það sem kallar á fólk að fara í hjúkrun er að fagið er svo skemmtilegt, fjölbreytt og gefandi. Þú kemst svo nálægt kjarna manneskjunnar og mennsku hennar. Starfið reynir mikið á viljastyrkinn og löngun til að bæta. Margir sem þurfa á okkar þjónustu að halda eru sem opin und í hremmingum sínum og það er ekkert eins gefandi og að geta komið til hjálpar og kannski til bjargar. Finna að þú getur látið einstaklingnum líða betur og jafnvel vel. Ég get ekki hugsað mér meira gefandi starf. Ef ég væri ung í dag kæmi ekkert annað nám til greina. Ég veldi til dæmis ekki stjórnmálafræði – þrátt fyrir að sá vettvangur hafi tekið drjúgan tíma ævi minnar. En hjúkrunarstarfið var frábær leiðsögn í pólitíkinni og reyndar lífinu sjálfu.“

„Ég held að það sé áhugi á mannlegum samskiptum, samhygð og vilji til að láta gott af sér leiða,“ segir Þuríður. Námið býður upp á mjög fjölbreyttan starfsvettvang, önnur eins fjölbreytni er vandfundin innan eins fags. Hjúkrunarfræðingar eru einnig eftirsóttir í störf utan heilbrigðisþjónustunnar og þangað hafa margir leitað vegna betri launakjara eða starfsumhverfis. Það er ekki hægt að ganga lengur að því vísu að ungt fólk vinni eingöngu af hugsjón og haldi tryggð við einn vinnustað. Vinnu- og launaumhverfi verður að vera eftirsóknarvert til að laða að og halda í sérhæfða starfskrafta. Ef núverandi ástand varir mikið lengur mun það fæla fólk frá hjúkrunarnámi og hjúkrunarskortur verður þá varanlegur með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.“

Greinarhöfundur kveður þessar sómakonur með þakklæti fyrir ánægjulega stund og fyrir baráttuna í gegnum árin. Þó að þær greini á í pólitík virðast þær vera sammála um hjúkrun.  besta menntun sem völ er á alltaf grundvöllur góðrar hjúkrunar.

Viðtal: Heiðurún Ólafsdóttir

 

Fortíð

Heilbrigðiskerfi

Hjúkrun

Saga

Stjórnvöld

Viðtöl

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála