Hjukrun.is-print-version

Nýr Landspítali

Anna Stefánsdóttir

Anna Stefánsdóttir, fyrrverandi hjúkrunarforstjóri og formaður Spítalans okkar – landssamtaka um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala


Allir sjá nauðsyn þess að eiga öflugt þjóðarsjúkrahús en samt hefur ávallt staðið styr um uppbyggingu þess og svo er enn. Núverandi húsnæði Landspítala er löngu gengið sér til húðar og hentar ekki fyrir nútímaheilbrigðisþjónustu. Þörfin fyrir nýtt húsnæði fyrir starfsemi Landspítala eykst með hverju ári, m.a. vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar, örra tækniframfara og þeirrar sjálfsögðu kröfu landsmanna að geta treyst á framúrskarandi og örugga heilbrigðisþjónustu fyrir sig og ástvini sína.

Óbilandi áhugi á nýbyggingum Landspítala

Allt frá því að ég tók við stöðu hjúkrunarforstjóra Landspítala í kjölfar sameiningar sjúkrahúsanna í Reykjavík hafa húsnæðismál spítalans verið mér afar hugleikin. Undirbúningur að nýbyggingum fyrir starfsemi Landspítala hófst árið 2000 eða skömmu eftir sameininguna. Síðan þá eru hartnær 19 ár og meðferðarkjarninn, hið eiginlega sjúkrahús, er ekki risið. Í starfi mínu sem hjúkrunarforstjóri fylgdist ég ætíð vel með framgangi byggingarverkefnisins og hafði mikla ánægju af. Ég sat í byggingarnefnd verkefnisins fyrir hönd Landspítala frá 2009 til 2013. Ég lét af starfi mínu við Landspítala fyrir rúmum sex árum en áhugi minn á nýbyggingum Landspítala hefur ekki dvínað.

Sjúkrahúsþjónusta í hinum vestræna heimi þróast hratt og tekur örum framförum með hverju árinu sem líður. Að sama skapi tekur sérþekking heilbrigðisstarfsmanna miklum framförum og meðferð sjúkdóma verður tæknivæddari og flóknari. Ég er sannfærð um að nýtt húsnæði fyrir starfsemi Landspítala er undirstaða þess að Íslendingar haldi stöðu sinni meðal fremstu þjóða hvað heilbrigðisþjónustu varðar. Því er afar mikilvægt að hraða uppbyggingu meðferðarkjarnans.

Þrátt fyrir góð áform gerðist lítið á fyrsta áratug þessarar aldar. Uppbygging nýs húsnæðis fyrir starfsemi Landspítala átti sér fáa talsmenn utan starfsmanna spítalans sem sáu best hvar skórinn kreppti enda aðstaða sjúklinga og starfsfólks víða óviðundandi.

Hagsmunir sjúklinga leiðarljósið

Ríkistjórnin ákvað í janúar 2005 að hefja uppbyggingu nýs sjúkrahúss á lóð Landspítala við Hringbraut. Samkeppni um skipulag var haldin og skiluðu sjö arkitektahópar tillögum. Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, stýrði dómnefndinni og varð tillaga arkitektanna CF Möller fyrir valinu. Hafist var handa við að forhanna spítalabyggingu í samræmi við þá tillögu. Samhliða þeirri vinnu var unnin ítarleg þarfagreining fyrir áætlaðri starfsemi árið 2025. Fjöldi starfsmanna Landspítala vann ötullega með hönnuðum að bestu lausnum fyrir nýja spítalabyggingu. Í allri þeirri vinnu voru hagsmunir sjúklinga hafðir að leiðarljósi.

Í kjölfar efnahagshrunsins voru hugmyndir arkitektanna CF Möller lagðar til hliðar og ákveðið að endurmeta allar forsendur byggingarverkefnisins í ljósi breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu. Til þess verks voru fengnir sérfræðingar frá norsku hönnunar- og ráðgjafarfyrirtæki.

Til að gera langa sögu stutta þá var í lok ársins 2009 ákveðið að endurvekja verkefnið en nú með þeim formerkjum að stækka spítalann á Hringbrautarlóðinni og byggja nýtt sjúkrahús fyrir alla bráðastarfsemina, rannsóknarhús og sjúkrahótel. Hafist var handa við undirbúning hönnunarsamkeppni fyrir forhönnun nýbygginga Landspítala. Ég átti sæti í dómnefndinni vegna þeirrar samkeppni sem var undir forystu Guðrúnar Ágústdóttur, fyrrverandi borgarfulltrúa í Reykjavík. Nefndin tók sér góðan tíma og fannst mér þessi vinna mjög lærdómsrík og skemmtileg. Niðurstaðan var samhljóða, valin var tillaga arkitektahópsins SPITAL og síðar var samið við hann um forhönnunina og tillögu að deiliskipulagi á Landspítalalóðinni. Ávallt voru starfsmenn Landspítala tilbúnir til samstarfs við hönnuði, en á annað hundrað starfsmenn í 16 notendahópum tóku þátt í forhönnuninni að þessu sinni. Áhersla var og er enn á þátttöku starfsmanna Landspítala við hönnun nýs sjúkrahúss.

Á þessum tíma var stofnað félagið Nýr Landspítali ohf. (NLSH). Var því falið með lögum að hafa yfirumsjón með byggingarverkefninu.

Arkitektahópurinn SPITAL lauk forhönnun nýbygginga Landspítala árið 2012. Það var svo haustið 2015 sem samið var við hönnunarteymið Corpus um fullnaðarhönnun meðferðarkjarnans og stendur sú vinna enn.

Áhugahópur stofnar landssamtökin Spítalinn okkar

Að mati margra var lítill áhugi á að drífa verkefnið áfram og lítið heyrðist frá stjórnvöldum allt árið 2013. Það ár hittist lítil hópur fólks sem hefur brennandi áhuga á þróun heilbrigðisþjónustu og ekki síst á velferð Landspítala. Mikill samhljómur var í hópnum og niðurstaðan var að stofna samtök sem hefðu það að meginmarkmiði að nýtt húsnæði Landspítala verði byggt hið fyrsta. Spítalinn okkar – landsamtök um uppbyggingu Landspítala voru stofnuð í apríl 2014 og var ég kosin formaður á stofnfundinum. Stofnfélagar settu sér það markmið fyrst að auka stuðning og skilning meðal almennings, stjórnvalda og fjárfesta á nauðsynlegri uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala. Samtökin vildu koma af stað umræðu um húsakost Landspítala og hvers vegna ekkert mátti verða til að tefja nauðsynlega uppbyggingu húsnæðis fyrir starfsemi Landspítala.

Meginmarkmið okkar í dag er að fylgja eftir því markmiði að ekkert tefji þá uppbyggingu sem nú er hafin. Það er mikið gleðiefni að í stjórnarsáttmála og ríkisfjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar er uppbygging Landspítala við Hringbraut gerð að forgangsmáli. Óhætt er að segja að fyrri ríkisstjórnir hafi einnig stutt uppbygginguna með margvíslegum hætti.

Uppbyggingu Landspítala miðar áfram. Nýtt og fullbúið sjúkrahótel verður tekið í notkun innan fárra vikna. Öll aðstaða þar er til fyrirmyndar. Sjúkrahótelið er mikilvæg viðbót við húsnæði Landspítala og mun bæta þjónustu við fólk sem þarf á þjónustu spítalans að halda án þess að þurfa að leggjast inn.

Nú er unnið við undirbúning byggingarframkvæmda við meðferðarkjarnann. Áætlanir eru um að ljúka byggingu hans árið 2025. Að mínu mati mega engar tafir verða á verkefninu eigi það markmið að nást. Ég nýt þeirra forréttina að geta fylgst reglulega með framgangi verkefnisins þar sem ég er formaður Spítalans okkar. Sjónarmiðum Spítalans okkar er reglulega komið á framfæri við rétta aðila, stjórnvöld og stjórnendur Nýs Landspítala ohf.


Framtíð

Heilbrigðiskerfi

Heilsustofnanir

Pistlar

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála