Hjukrun.is-print-version

Ötulir samstarfsmenn í umbótastarfi

Dr. Alma Dagbjört Möller

Alma Dagbjört Möller landlæknir


Ég var beðin um að lýsa reynslu minni af samstarfi við hjúkrunarfræðinga í þessum pistli. Margt kemur upp í hugann enda hafa hjúkrunarfræðingar verið nánir og góðir samstarfsmenn, bandamenn og vinir í gegnum allan minn starfsferil. Sem nemi og sem ungur læknir uppgötvaði ég fljótt að margt var hægt að læra af hjúkrunarfræðingum. Þá hef ég unnið með hjúkrunarfræðingum sem sinnt hafa sérhæfðri hjúkrun og þjónustu á ýmsum deildum Landspítala, verkefnastjórnun, mannauðsmálum, gæðamálum, stjórnun og nú síðast málefnum á nær öllum fagsviðum hjá Embætti landlæknis. Þessi fjölbreyttu verkefni hjúkrunarfræðinga endurspegla hátt menntunarstig, getu og afl stéttarinnar hér á landi. Ég ætla að ræða aðeins nánar um samstarf mitt við hjúkrunarfræðinga við eflingu gæða og öryggis.

Gæði og öryggi í heilbrigðisþjónustu

Með gæðum í heilbrigðisþjónustu er átt við að öryggi sé haft í hávegum þannig að sjúklingar hljóti ekki skaða af þjónustunni, hún sé rétt tímasett þannig að biðtími sé innan marka og að þjónustan sé árangursrík, það er byggð á bestu þekkingu og aðferðum. Aðrir þættir gæða eru skilvirkni, sem sé að nýting aðfanga sé hagkvæm, jafnræði og notandamiðun þjónustu.

Það er að mörgu að hyggja þegar tryggja á gæði og öryggi. Ljóst er að menntun og reynsla skiptir miklu og brýnt er að mönnun hæfi álagi og verkefnum. Hvers kyns skipulag og verkferlar, öll samskipti sem og starfsumhverfi eru einnig afar mikilvægir þættir. Áætlað er að allt að 10% sjúklinga á bráðadeildum verði fyrir óvæntum atvikum og því brýnt að leita allra leiða til að efla gæði og öryggi.

Allt frá tímum Florence Nightingale hafa hjúkrunarfræðingar verið lykilstétt í eflingu gæða og öryggis í heilbrigðisþjónustu. Rannsóknir sýna að mönnun starfa hjúkrunarfræðinga og nálægð þeirra við sjúklinga getur haft mikil áhrif á gæði þjónustu og öryggi sjúklinga. Enn fremur hafa hjúkrunarfæðingar verið ötulir við að vinna að stöðugum umbótum í þjónustu. Florence Nightingale lagði einmitt áherslu á að ekki væri nóg að hver einstaklingur velti fyrir sér hvernig hann sjálfur gæti alltaf gert rétt heldur hvernig hægt væri að tryggja að verkið væri ávallt rétt gert.

Gæðastarf á gjörgæsludeild

Í starfi mínu sem yfirlæknir á gjörgæsludeild Landspítala við Hringbraut voru hjúkrunarfræðingar ötulir samstarfsmenn þegar kom að því að efla gæði og öryggi. Árið 2006 var farið í átaksvinnu þar að lútandi. Hjúkrunarfræðingar létu svo sannarlega ekki sitt eftir liggja, ég vil nefna sérstaklega klíníska sérfræðinga og gæðastjóra deildarinnar sem voru lykilaðilar í þessari vinnu. Unnið var út frá markvissri skráningu og úrvinnslu atvika. Haldnir voru mánaðarlegir gæða- og umbótafundir þar sem starfsmenn tóku þátt í að greina atvikin með það að markmiði að bæta ferla til að fyrirbyggja frekari atvik. Ávinningurinn kom fljótt í ljós. Til dæmis fækkaði lyfjaatvikum umtalsvert. Lögð var áhersla á sýkingavarnir, sérstaklega hvernig fækka mætti öndunarvélatengdri lungabólgu og sýkingum vegna æðaleggja. Í kjölfarið voru gerðar kannanir á algengi þeirra sýkinga og var árangur deildarinnar varðandi þá gæðavísa sambærilegur við það sem best þekktist erlendis.

Þá var unninn og innleiddur gátlisti varðandi öryggisatriði er tengjast nánasta umhverfi gjörgæslusjúklings og annar gátlisti varðandi mikilvægustu atriði meðferðar og markmið hvers dags. Gefinn var sérstakur gaumur að viðmiðum fyrir útskrift og tíðni endurinnlagna. Einnig var lögð áhersla á þrýstingssáravarnir auk þess sem hugað var að áliti og ánægju aðstandenda. Loks má nefna tvö gæðaverkefni sem snéru að aukinni samvinnu við aðrar deildir spítalans og þar sem hjúkrunarfræðingar skiptu miklu máli. Annars vegar var afskipti gjörgæsluteymis að sjúklingum á legudeildum, svokallaðs GÁT-teymis og hins vegar eftirfylgni þeirra veikustu að lokinni útskrift af gjörgæslu. Bæði þau verkefni hafa lifað og eflst.

Öryggi og líðan starfsmanna

Við heilbrigðisstarfsfólk vinnum mikilvæg og gefandi störf, við að bjarga mannslífum og við að bæta heilsu og líf fólks. Það gerum við með því að beita gagnreyndum vísindum og aðferðum, en einnig með því að gefa af okkur til skjólstæðinganna, miðla von og geisla öryggi og trausti. Því þurfum við að vera vel stemmd í vinnunni og hlúa vel að okkur sjálfum. „Við getum ekki gefið það sem við eigum ekki sjálf,“ segir hjúkrunarfræðingurinn Maureen Bisognano sem nú stýrir einni virtustu stofnun í heimi á sviði öryggis og gæðamála, IHI í Bandaríkjunum.

Kulnun starfsfólks í heilbrigðisþjónustu er mikið áhyggjuefni og þarf að beita öllum tiltækum ráðum til að sporna við. Kulnun hefur slæm áhrif á einstaklinginn, vinnustaðinn og getur beinlínis komið niður á gæðum og öryggi meðferðar. Ábyrgð vinnuveitanda er vissulega mikil en við eigum öll að sameinast um að skapa þannig umhverfi að við mætum stolt og glöð til vinnu og förum enn stoltari heim. Við þurfum að hlúa að eigin heilsu og líðan: hreyfa okkur, borða skynsamlega, sofa vel, rækta geðið og viðhafa góð samskipti, efla en líka hvíla andann og umgangast áfengi og lyf með mikilli varúð.

Fram undan eru mikil viðfangsefni í heilbrigðiskerfinu og breytingar óumflýjanlegar. Við verðum öll að leggja okkar að mörkum, byrja á að líta í eigin barm og skoða hvað hver og einn getur gert til að stuðla að betri framtíð innan heilbrigðiskerfisins. Efling gæða og öryggis skiptir miklu máli, það er ekki einungis siðferðilega, lagalega og faglega rétt heldur beinlínis fjárhagslega hagkvæmt. Fyrir liggur að innleiða Áætlun um gæðaþróun í heilbrigðisþjónustu til ársins 2030. Sú áætlun, sem meðal annarra var unnin af hjúkrunarfræðingum hjá Embætti landlæknis, byggist á markvissu umbótastarfi, notkun gæðavísa, skráningu og úrvinnslu atvika auk þjónustukannana til að viðhorf notenda komi fram. Ljóst er að hjúkrunarfræðingar verða mikilvægir í þeirri vinnu og ég hlakka til áframhaldandi samstarfs við stéttina!


Framtíð

Gjörgæsla og bráða

Heilbrigðiskerfi

Pistlar

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála