Hjukrun.is-print-version

Samstarf og samvinna heilbrigðisstétta

Sandra Bryndísardóttir Franks

Sandra Bryndísardóttir Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands

Samvinna og samskipti sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga er jafn margbreytileg og fólkið sem vinnur störfin. Sjálf bý ég að þeirri ánægjulegu reynslu að hafa átt gott samstarf og áreynslulaus samskipti við hjúkrunarfræðinga í þeim störfum sem ég hef sinnt sem sjúkraliði. Verkaskipting hefur yfirleitt verið skýr, forgangsröðun verkefna klár og jafnan endurmetin eftir þörfum.

Góð athyglisgáfa og fordómaleysi

Ég hef komið víða við í heilbrigðiskerfinu og unnið á ýmsum deildum Landspítalans, á Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Á þessum vinnustöðum hefur það oftast nær verið í höndum hjúkrunarfræðinga að meta hjúkrunarþörfina, gera áætlun um hjúkrunarþjónustu og tryggja að henni sé fylgt. Þetta krefst að sjálfsögðu náins samstarfs með stéttunum og ekki síst gagnvirks upplýsingaflæðis. Þessar fagstéttir þurfa að vera meðvitaðar og upplýstar um áherslur og leiðir þar sem framkvæmdin á nærhjúkrun er oftast nær í höndum sjúkraliða.

Þeir sem sinna hjúkrunar- og umönnunarstörfum þurfa í senn að búa yfir góðum athyglisgáfum og tileinka sér fordómalausa og yfirvegaða framkomu. Í störfum beggja fagstéttanna beinist athyglin jafnan að fjölda verkefna í senn og yfirleitt er farið á milli staða meðan á vinnu stendur. Mörgum skjólstæðingum er því sinnt samtímis þar sem hjúkrunar- eða umönnunarþjónusta sérhvers er einstaklingsmiðuð. Störf beggja stétta eru því afar fjölþætt.

Sívirk og gagnvirk upplýsingamiðlun

Þegar unnið er við þessi starfsskilyrði er brýnt að upplýsingaflæði sé markvisst þannig að hjúkrunarfræðingur nái að hafa yfirsýn yfir framvindu til að geta stöðugt endurmetið hjúkrunarþörfina. Að sama skapi krefjast þau þess að sjúkraliði geti af nákvæmni miðlað upplýsingum sem eru mikilvægar til að meta framvindu sjúklinga. Sívirk og gagnvirk upplýsingamiðlun um skjólstæðinga milli hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða er því í bókstaflegum skilningi lífsnauðsynlegur þáttur í störfum beggja til að tryggja gæði og faglega hjúkrunarþjónustu. Rík krafa um hæfni í samskiptum og samvinnu er því gerð til bæði sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga.

Fjölþætt og margslungið starfsumhverfi

Þó ég sjálf hafi ekki reynslu af erfiðum samskiptum og samstarfi við hjúkrunarfræðinga hef ég eigi að síður reynslu af því að taka við upplýsingum um slíkt. Þó nokkur orka hjá okkur á skrifstofu SLFÍ fer í að glíma við stjórnendur, sem oftast eru hjúkrunarfræðingar. Fjölmörg dæmi eru um vinnustaði þar sem starfsfólk hefur tamið sér óskýrt verklag og erfiða vinnustaðasiði. Þetta er því miður ein af staðreyndunum okkar daglega starfs. Báðar stéttir þurfa því að leggja sig fram um jákvætt og gott samstarf og gera sér fulla grein fyrir réttindum og skyldum hvorrar annarrar, ekki síst þeirra sem skráðar eru í lög um heilbrigðisstarfsmenn.

Starfsumhverfi sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga er afar fjölþætt og margslungið. Þessar starfsstéttir sinna oftar en ekki mörgum og flóknum viðfangsefnum samtímis. Ekki síst af þeirri ástæðu er það afar mikilvægt að á sérhverri starfsstöð sé skipulag skýrt og starfsmenn upplýstir um verkaskiptingu meðal starfsmanna. Forgangsröðun verkefna þarf að vera klár. Öryggi og gæði umönnunar og hjúkrunar verða því aðeins tryggð að markviss samvinna og góð samskipti milli sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga séu í fyrirrúmi. Árangur meðferðar og líðan einstaklinganna, sem hennar njóta, hvíla á þessum þáttum.

Velja fyrirmyndarstjórnanda ársins

Sjúkraliðafélag Íslands hefur lagt áherslu á uppbyggjandi og jákvæð samskipti og samvinnu fagstétta. Við höfum meðal annars beitt okkur fyrir að velja fyrirmyndastjórnanda ársins. Við val á slíkum stjórnanda, sem oftar en ekki er hjúkrunarfræðingur, meta sjúkraliðar viðeigandi áhrifaþætti góðrar mannauðsstjórnunar. Þá er lagt mat á færni í mannlegum samskiptum, þekkingu og nýtingu á námi sjúkraliða, hvatningu af hendi stjórnandans til aukinnar þekkingar og þjálfunar á sértækum störfum við hjúkrun, nýtingu stjórnandans á reynslu og hæfileikum sjúkraliða, hvort stjórnandinn kynni sér störf starfsmanna, sýni sveigjanleika, hafi þekkingu á kjarasamningum og stofnanasamningum, hvort viðkomandi hrósi og hvetji samstarfsfólk sitt og stuðli að bættum vinnuaðstæðum og virkri teymisvinnu.

Okkar afstaða er að vel skipulögð teymisvinna í hjúkrun, þar sem allir sinna vel skilgreindu hlutverki, hafi marktæk jákvæð áhrif á starfsánægju. Vellíðan starfsmanna speglast svo í bættum árangri í starfi. Í þessu samhengi er vert að undirstrika að rannsóknir benda til að þar sem unnið er í teymum sé hjúkrunarfólkið almennt ánægðara í starfi og fleiri ánægðir með starfsgrein sína. Gildir einu hvort um er að ræða sjúkraliða eða hjúkrunarfræðinga. Teymisvinna er því ákjósanlegt starfsform og mikilvæg forsenda þess að auka ánægju starfsfólks í hjúkrun.

Með hækkandi lífaldri þjóðarinnar eykst eftirspurnin eftir vel menntuðu og færu starfsfólki í hjúkrun. Þess vegna er sérstaklega mikilvægt fyrir stjórnendur að gera sér grein fyrir hindrunum, áhrifaþáttum og mikilvægi öflugrar teymisvinnu. Starfsfólkið þarf enn fremur að deila sameiginlegri sýn á tilgang og markmið þjónustunnar, skipulag hennar til framtíðar og hvernig best sé að haga vinnunni þannig að skilvirkni verði sem mest á öllum sviðum. Í öllum þessum efnum er ekki hægt að leggja of mikla áherslu á gildi aukinnar menntunar og aðgengi að símenntun. Vel menntað og hæft starfsfólk er einfaldlega forsenda fyrir góðum árangri heilbrigðisþjónustunnar.

 

 


Nútíð

Heilbrigðiskerfi

Stuðningur

Vinnumarkaður

Pistlar

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála