Sköpunarþörfin hverfur aldrei
Arnlaug Borgþórsdóttir, hjúkrunarfræðingur og leirlistarkona
Listsköpun og manneskjan er sennilega það sem hefur helst vakið áhuga minn á lífsleiðinni. Ég hafði alltaf gaman af myndlist í skóla, teiknaði mikið, málaði og föndraði. Ég leit þó aldrei á listsköpunina sem eitthvað sem ég gæti starfað við. Ég var praktíkst hugsandi og vildi læra eitthvað sem veitti mér örugga atvinnu en jafnframt margbreytilegt starf. Mér hafði alltaf þótt sjúkrahúsumhverfið spennandi en amma mín var mörg ár sjúklingur á Landakoti þegar ég var barn og var ég tíður gestur þar með afa. Ég man eftir að hafa fylgst með störfum heilbrigðisstarfsfólks af aðdáun. Einnig eru margir flottir hjúkrunarfræðingar í nánustu fjölskyldu sem ég leit upp til. Þær töluðu vel um starfið og unnu á ólíkum vettvangi og þetta gaf mér hugmynd um fjölbreytileikann sem starfið býður upp á. Það lá því beint við að hefja nám við hjúkrunarfræðideild HÍ haustið 1997 og þaðan útskrifaðist ég með B.Sc í hjúkrunarfræði í júní 2001.
Að námi loknu flutti ég til Árósa í Danmörku ásamt eiginmanni mínum sem var á leið í framhaldsnám. Fyrsta árið mitt í Danmörku vann ég á hjúkrunarheimili sem sérhæfði sig í umönnun alzheimers-sjúklinga með geðræn vandamál. Að því loknu vatt ég kvæði mínu í kross og réð mig á gjörgæsludeild Aarhus Universitetshospital þar sem ég starfaði í þrjú ár. Hún blundaði þó alltaf sterkt í mér þörfin til að skapa og það leiddi til þess að ég fór í leirlistarnám við Aarhus Kunstakademi vorið 2006. Þar var ég í þrjú ár og naut mín í botn í skapandi umhverfi. Bakgrunnur minn í hjúkrun var þó ekki langt undan og kennarinn minn í listanáminu hafði eitt sinn orð á því að það væri greinilegt hvaðan ég sækti innblástur. Mikið af listsköpun minni hafði tilvísun í líffæri og mannslíkamann. Hann hvatti mig til að fylgja því eftir og lokaverkefnið mítt sem kallaðist „Inside out“ var skúlptúrar með líffærum.
Ég útskrifaðist úr listnáminu 2009 og við fluttum til Íslands aftur síðla sumars 2010. Ég réð mig á Landspítalinn þá um haustið og hef starfað þar síðan á hinum ýmsu deildum. Allar eiga þær það sameiginlegt að þar vinnur einstakt fólk og enginn vafi á því að það býr mikill kraftur í mannauði Landspítalans. Ég hef alltaf haft ánægju af starfi mínu þar sem ég hef verið. Maður lærir alls staðar eitthvað nýtt og tekst á við ný úrlausnarefni. Í dag starfa ég á vöknun í Fossvoginum, það er fjölbreytilegt og gefandi en getur einnig verið krefjandi á stundum. Þar starfar frábær hópur samheldinna hjúkrunarfræðinga og það er mikils virði þar sem bráðatilvik geta komið upp og ríður þá á að hafa hraðar hendur og góða teymisvinnu.
Þegar ég flutti til Íslands aftur hannaði ég og framleiddi keramik undir vörumerkinu Arnlaug keramik og var hluti af Kaolin Keramik Galleríi á Skólavörðustíg. Í dag starfa í ég í hönnunarteymi ásamt mágkonu minni, Áslaugu Árnadóttur, sem er arkitekt. Hún er einstakur teiknari og ég hafði alltaf dáðst að þessum hæfileikum hennar. Við töluðum um það í mörg ár að það væri gaman að sameina krafta okkar og fá útrás fyrir sköpunarþörfina í sameiginlegu verkefni. Við hrintum þessum gamla draum í framkvæmd haustið 2015 og skelltum okkur í samstarf. Úr varð Lauga&Lauga en við fögnuðum nýverið þriggja ára afmæli. Hönnunin er byggð á postulínsmunum, bollum, plöttum og skarti þar sem við leikum okkur með nokkur þemu í myndskreytingum. Ég hanna og leira og Áslaug sér um teikningarnar. Hugmyndavinnan er sameiginleg og gaman að vera tvær og geta gefið hvor annarri endurgjöf. Listræna ferlið getur verið einmanalegt og því gott að hafa einhvern til að deila því með, einhvern sem hefur jafnmikla ástríðu og áhuga fyrir því og maður sjálfur. Vinnuferlið er því mjög skemmtilegt og gefandi.
Listsköpunin hefur verið mitt athvarf, í mismiklum mæli þó. Þegar álagið er hvað mest í vinnunni minnkar orkan í listsköpuninni, ólíkt því sem margir halda að maður noti listina til að pústa eftir erfiðan dag. En listsköpun krefst innsæis, þolinmæði og einbeitingar ekki ólíkt hjúkrun. Það þarf að geta gefið sig allan og sökkt sér ofan í verkin. Sköpunarþörfin getur því verið í lægð í einhvern tíma en ég nýt þess að snúa aftur á verkstæðið þegar orkan verður meiri. Þá hleð ég batteríin og get gleymt mér tímunum saman í skapandi vinnu. Þetta er eins og sjálfsrækt sem skilar sér í bættri andlegri heilsu og vellíðan.