Hjukrun.is-print-version

Skýr rödd - virkir þátttakendur

Þorsteinn Jónsson

Þorsteinn Jónsson, sérfræðingur í hjúkrun


Fljótlega eftir að ég hóf nám í hjúkrunarfræði tók ég að velta fyrir mér hugtakinu hjúkrun. Þær vangaveltur fylgdu mér í gegnum námið og eru mér enn ofarlega í huga tæpum tuttugu árum síðar. Í mínum huga er hugtakið margþætt og erfitt að festa á því eina skilgreiningu. Þannig hefur inntak þess dýpkað og tekið á sig nýjar myndir eftir því sem ég hef komið víðar við á starfsferlinum.

Snemma varð hjúkrunarfræði meira en bara nám og starf fyrir mér heldur líka hvorutveggja áhugamál og lífssýn. Ein af meginástæðum þess að ég ákvað að læra hjúkrunarfræði voru endalausir möguleikar námsins. Hvort heldur sem mig langaði að ferðast til framandi landa og sinna þar þróunarhjálp eða starfa sem sjómaður við Íslandsstrendur þá sá ég að hjúkrunarfræðinámið fangaði flest alla þætti mannlegrar tilveru. Enda er oft sagt að hugmyndafræðin um heildræna nálgun sé hornsteinn hjúkrunar og hún gjarnan notuð til að lýsa sérstöðu greinarinnar. En með tilkomu aukinnar sérhæfingar í hjúkrun á hugtakið að mínu mati undir högg að sækja.

Fagleg tilvistarkreppa í hjúkrun
– gjá á milli klínískrar reynslu og fræðanna

Eftir því sem leið á nám mitt og klínísk reynsla jókst skynjaði ég gjá á milli þess sem kennt var í fyrirlestrum og þess sem átti sér svo stað við klínískar aðstæður. Stundum var til staðar það sem kalla mætti eins konar skilningsleysi milli hjúkrunarfræðinga á klínískum vettvangi og þeirra sem kenndu fræðilegan hluta greinarinnar. Þegar bent var á þess konar misræmi var oft fátt um svör sem hjálpuðu til við að brúa bilið milli fræðanna og raunveruleikans. Tenginguna og samtalið vantaði, og hin heildræna nálgun varð að einhverju leyti óljós og þetta birtist m.a. í því að í verknáminu átti ég samtal við hjúkrunarfræðinga sem mér fannst að væru að sinna hjúkrun á allt öðrum forsendum og höfðu aðrar hugmyndir um hjúkrun og tilgang sinn sem hjúkrunarfræðingar en þær sem ég var með og hafði verið kennt.

Margt af því sem ég heyrði á klínískum vettvangi hafði neikvæð áhrif á mig og fékk mig til þess að efast um hjúkrun sem sjálfstæða fagstétt. Mér datt í hug að hjúkrunarfræðingar væru kannski fyrst og fremst aðstoðarmenn lækna, verkfæraverðir á skurðstofum, sætavísur á bráðamóttöku og jafnvel ritarar í svæfingu. Þessi tilvistarkreppa hafði þau áhrif á mig að ég hugleiddi að hætta í náminu í nokkur skipti.

Með þessum hugleiðingum er ég ekki að fella áfellisdóm yfir námi í hjúkrunarfræði, hvorki klínísku eða fræðilegu, því ég sat marga frábæra tíma þar sem hugmyndafræði hjúkrunar var vel kynnt og rædd frá ýmsum hliðum. En í grunninn náði ég ekki að tileinka mér kenningarnar og setja þær í samhengi við klínískan raunveruleika. Seinna meir, eftir að hafa rætt við marga samstarfsfélaga og fjölda nemenda, veit ég að fagleg tilvistarkreppa í hjúkrun er algengari en við höldum, og í þessu samhengi hefur fagstéttin verk að vinna.

Hjúkrun á köflum ósýnileg og óáþreifanleg

Við hjúkrunarfræðingar höldum því gjarnan á lofti okkar í milli hvað störf okkar skipta miklu máli. Ég er ekki viss um að almenningur og stundum samstarfsstéttir hjúkrunar hafi í raun og veru skilning á því hvað hjúkrun skipti miklu máli, hvað þá að koma auga á mikilvægt framlag hjúkrunar. Hjúkrun er því miður á köflum ósýnileg, óáþreifanleg og í mörgum tilvikum er ávinningur hjúkrunar afar dulinn og það leiðir stundum til þess að aðrar heilbrigðisstéttir fá gjarnan hrósið þegar vel gengur með sjúklinginn.

Hjúkrunarfræðingar koma víða við sögu í heilbrigðiskerfinu. Til að mynda leggst varla sjúklingur inn á sjúkradeild án þess að hjúkrunarfræðingur hafi með viðkomandi að gera. Lokanir á leguplássum sjúkrahúsa undirstrika þetta. Því er afar áhugavert að sjá þegar yfirlæknar eru í forsvari fyrir umræðu um skort á hjúkrunarfræðingum – því heyrast raddir okkar ekki meira í því samhengi?

Þá hafa hjúkrunarfræðingar um árabil verið í forystu fyrir og haldið uppi þverfaglegri starfs- og símenntun heilbrigðisstarfsfólks, s.s. endurlífgun og herminám svo eitthvað sé nefnt. En til hverra er oft leitað þegar starfs- og símenntun heilbrigðisstarfsfólks er til umfjöllunar?

Inn í þetta fléttast að almenningur og stundum við sjálf – hjúkrunarfræðingar – vanmetum oft og tíðum veitta heilbrigðisþjónustu hjúkrunarfræðinga. Heilbrigðiskerfið er byggt upp á læknisfræðilegu forsendum og litast mjög af þeirri nálgun, það er að segja, ef sjúklingur glímir við lungnavandamál leggst hann inn á lungnadeild og svo framvegis. Þannig er hjúkrunarfræði stundum ruglað saman við læknisfræði enda fremur auðvelt að skilja hugtakið „lækning“.

„Læknirinn læknar mig en hjúkrunarfræðingurinn sér til þess að ég lifi af og komist á fætur“

Á mínu fræðasviði, sem er bráða- og gjörgæsluhjúkrun, er oft erfitt að útskýra hvort verið sé að stunda lækningar eða hjúkrun þegar verið er að sinna bráð- og alvarlega veikum sjúklingum. Ég hjúkraði eitt sinn gömlum manni og heyrði á tal hans við eitt barnabarn sitt þar sem sá ungi spurði afa sinn út í muninn á lækni og hjúkrunarfræðingi. Mér er minnisstætt hvernig afinn svaraði: „Jú, sjáðu til, læknirinn læknar mig en hjúkrunarfræðingurinn sér til þess að ég lifi af og komist á fætur.“

Allt of oft er öðrum heilbrigðisstéttum hrósað fyrir vel útfærða hjúkrun eins og áður segir. Að hluta til er það okkur hjúkrunarfræðingum sjálfum að kenna því oft hef ég heyrt hjúkrunarfræðinga tala um að þeir hafi „læknað sjúklinginn“ þegar vel gengur að hjúkra bráðveikum sjúklingi. Orðræða skiptir máli og hefur áhrif. Hjúkrunarfræðingar stunda ekki lækningar – við hjúkrum. Engu að síður leiðir góð hjúkrun oft til þess að sjúklingum batnar, en það er ekki það sama og að hjúkrunarfræðingar séu að stunda lækningar. Ég vil ekki hallmæla samstarfsstéttum hjúkrunar en líklega væri auðvelt að reka fjölþætta sjúkrastofnun eingöngu með hjúkrunarfræðingum, en það sama er erfitt að ímynda sér um aðrar heilbrigðisstéttir.

Mikilvægt að efla ímynd hjúkrunarfræði hjá okkur sjálfum

Hvernig birtist hjúkrun okkur inn á við og út á við? Er hjúkrun mjúk, hljóðlát og falleg – jafnvel eins og lítið blóm úti í haga, samanber merki Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga? Á undanförnum árum hafa hjúkrunarfræðingar farið í fjölmörg átaksverkefni, hérlendis sem og erlendis, með það að markmiði að efla ímynd hjúkrunar út á við. Eitthvað minna hefur farið fyrir umræðu inn á við í þessu samhengi. Meginforsenda þess að almenningur skilji hjúkrun og viti út á hvað hún gengur er að við sjálf höfum af því skýra mynd.

Við hjúkrunarfræðingar þurfum að vera duglegri við að vera sýnileg í samfélaginu, hafa skoðun á hlutum sem tengjast heilsu og veikindum, láta í okkur heyra um uppbyggingu heilbrigðiskerfisins, starfsumhverfi og margt fleira. Samhliða því verðum við einnig að huga vel að innviðum fagsins, vera framsækin og uppbyggileg en um leið gagnrýnin í garð fagsins. Hjúkrunarfræðingar þurfa að halda á lofti mikilvægi hjúkrunar í víðu samhengi og eigna sér þá þætti sem þeir eiga. Hjúkrun er án efa mikilvægasti hlekkurinn í allri heilbrigðisþjónustu.

Verum öflug í að ræða hjúkrun – höfum skýra innri rödd og verum virkir þátttakendur í uppbyggingu og þróun heilbrigðiskerfisins – því hjúkrun skiptir máli.


Nútíð

Heilbrigðiskerfi

Hjúkrun

Pistlar

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála