Hjukrun.is-print-version

Söngurinn nærir, líknar og græðir

Björg Þórhallsdóttir

Björg Þórhallsdóttir, hjúkrunarfræðingur og sópransöngkona

Ég heyrði viðtal við Diddú þegar ég var að hefja mín fyrstu spor í söngnum en þar sagði hún að sér „liði oft eins og hjúkrunarkonu þegar hún væri að syngja“! Þau orð lýsa vel þeim tilfinningum sem hún leggur í sönginn og þá tilfinningu sem ég þekki sjálf, að með söngnum erum við að næra, hlúa að, jafnvel líkna og græða, einmitt það sem við gerum í störfum okkar sem hjúkrunarfræðingar. Það er mér því kært og auðvelt að skrifa hér nokkur orð um það hvernig störf mín við hjúkrun og söng fara saman.

Eitt áheyrnarpróf við erlendan skóla

Ég útskrifaðist 1988 frá Háskóla Íslands og starfaði á Landspítalanum í 2 ár. Ég flutti svo til Akureyrar og segja má að hrein tilviljun hafi ráðið því að ég var „uppgötvuð“ með sérstaka sönghæfileika en það var á árshátíð FSA árið 1990. Ég skráði mig í framhaldinu í söngnám og ætlaði mér sosum ekkert sérstakt með það – var í starfi sem aðstoðardeildarstjóri á sjúkrahúsinu og lektor við Háskólann á Akureyri og gekk vel, elskaði störfin mín. En sönggyðjan togaði alltaf í mig og beindi mér meira og meira inn á söngbrautina. Árið 1995 varð svo örlagaríkt ár í lífi mínu þegar faðir minn féll skyndilega frá aðeins 53 ára gamall. Þá fékk tilveran nýja ásýnd. Ég hafði rétt áður lofað söngkennaranum mínum að fara í eitt áheyrnarpróf við erlendan tónlistarháskóla án þess svo sem að hugsa það eitthvað lengra, féllst á að kanna hvar ég stæði. Pabbi hafði svo haft milligöngu fyrir mig gistingu og praktísk mál við ferðina í gegnum aðstandendur konu sem hann hafði nýlega jarðsett. Í sorginni reynir maður að halda áfram og standa við allt sitt, halda sínu striki þó dofinn sé. Það er skemmst frá því að segja að ég fór í þetta áheyrnarpróf einum og hálfum mánuði eftir andlát föður míns og ári síðar var ég flutt til Manchester á Englandi í framhaldsnám í óperu- og ljóðasöng. Ég velti því fyrir mér enn þann dag í dag hvernig það í ósköpunum gerðist – en trúi því að mér hafi verið ætlað að feta þennan veg, hann hafði einhvern æðri tilgang fyrir mig.

Ég nam, bjó og starfaði í Englandi í 11 ár en árið 2007 flutti ég heim og kom þá næstum beint í „hrunið“. Það er nú þekkt meðal söngvara að fæstir lifi einvörðungu af söngstörfum hér á okkar litla landi og flest okkar hafa aukabúgrein. Ég hafði síðustu fjögur árin mín í Englandi dustað rykið af hjúkrunarfræðingnum og starfaði í lausamennsku þrjá til fjóra daga í mánuði. Ég fann hvað ég hafði saknað þess að hjúkra, hvað starfið var stór hluti af mér, hvað ég hafði mikla þörf og ánægju af að vera í þessari nánu snertingu við fólk og reyna að bæta líðan þess ásamt því að nýta þekkingu mína og reynslu. Þegar ég flutti hingað heim ákvað ég því að gera það sama, starfa við hjúkrun samhliða söngstörfum. Og það hef ég gert allar götur síðan, í mismiklum mæli þó. Mér hefur tekist að láta þetta fara vel saman praktískt séð, hef mætt skilningi og sveigjanleika og elskusemi samstarfsfólks og yfirmanna. Svo býður hjúkrunarstarfið upp á vissan sveigjanleika er varðar starfsprósentu og vaktafyrirkomulag og það hefur komið sér vel.

Tónlistin snertir sálir

En það hefur ekki síður gefið mér sjálfri mikið að syngja fyrir sjúklingana mína. Segja má að einir mínir eftirminnilegustu tónleikar hafi verið á líknardeildinni á Landakoti á jóladag 2012 þar sem ég starfaði. Þar opnuðum við hjónin inn á stofurnar níu en maðurinn minn, Hilmar Örn Agnarsson, spilaði á píanó frammi á gangi. Tveir sjúklingar sátu hjá okkur en hinir voru í rúmum sínum á stofunum. Ég söng frammi á gangi en gekk líka á milli stofanna. Þarna gerðist eitthvað – þessi einfalda tónlistarstund breyttist í stórkostlega helgistund þar sem allir voru snortnir, jafnt flytjendur sem áheyrendur. Þetta eru í minningunni einir okkar dýrmæstustu tónleikar.

Sömuleiðis hefur verið dýrmætt að halda tónleika inni á deildum, eins og hjartadeildinni og hinum ýmsu deildum Landakots, og við helgistundir prestanna því tónlistin er eitt það besta sem hægt er að gefa fólki sem ekki líður vel. Hún lyftir andanum, sjúklingarnir frá hvíld frá sjálfum sér, vandamálum og verkjum og hún linar kvíða og depurð. Maður hefur fengið að heyra setningar eins og: „Ég get nú bara sleppt hjartalyfjunum mínum í dag,“ eftir slíkar stundir og heyrt gamla fólkið raula lögin inni á stofunum það sem eftir lifir dags.

Það hefur því verið mér afar dýrmætt að fá tækifæri til að tengja saman þessa tvo þætti í lífi mínu. Segja má að hjúkrunarfræðingurinn gefi söngkonunni dýpri skilning á því hvar áheyrendur eru staddir í sínu lífi og hverjar þarfir þeirra eru og mér er mikilvægt að fá að mæta fólki þar. Þar gefur tónlistin ákveðin forréttindi, hún gefur leyfi til að snerta sálir viðkomandi.

Persónulega fara því þessir tveir þættir í lífi mínu mjög mjúklega saman og hafa gefið mér mikla lífsfyllingu og dýpkað mig sem manneskju. Ég óska þess að framtíðin færi mér enn meira rými innan starfs míns sem hjúkrunarfræðingur til að syngja fyrir og með sjúklingunum.

Hjúkrunarfræðingakór

Í tilefni af 100 ára afmæli Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga veittist mér óvænt ánægja er ég var beðin að stofna kór hjúkrunarfræðinga til að koma fram á opnunarhátíðinni 15. janúar. Þar komu fram og sungu tæplega sjötíu einbeittir og glaðir hjúkrunarfræðingar og slógu eftirminnilega í gegn. Það var frábær upplifun. Og kórinn er rétt að byrja því næst kemur hann fram í útvarpsmessu tileinkaðri hjúkrunarfræðingum í Hallgrímskirkju 12. maí.

Það var ekki síður stór stund fyrir mig á þessari stórkostlegu hátíð að syngja fyrir framan 900 hjúkrunarfræðinga sem tóku undir með mér og finna þar fyrir samkenndinni og kærleikanum innan stéttarinnar.

Nú þegar farfuglarnir eru að koma syngjandi glaðir og vorið og sólin yljar okkur, hvetur það okkur til að fara syngjandi inn í sumarið á 100 ára afmælinu minnug þess að söngurinn er heillandi og nærandi fyrir líkama og sál – og ALLIR geta sungið!

Nútíð

Samskipti

Pistlar

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála