Það eru alger forréttindi að vinna við þetta
Viðtal við Pálínu Ásgeirsdóttur
Pálína Ásgeirsdóttir hjúkrunarfræðingur hefur um árabil verið í alþjóðlegu hjálparstarfi og var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2009 fyrir starf sitt á þeim vettvangi. Hún hefur um árabil búið í Genf vegna vinnu sinnar hjá heilbrigðisdeild alþjóðaráðs Rauða krossins og unað hag sínum vel. „Starf mitt felst að senda fólk út á staði þar sem við erum með aðgerðir. Titillinn er „talent manager“,“ segir Pálína. Við vinnum saman í átta manna teymi. Ég er stjórnandi hópsins og hef jafnframt umsjón með þeim sem eru í heilbrigðisstjórnunarstöðum úti á vettvangi. Lífið er fínt í Genf. En samt svolítið öðruvísi en áður. Maður er ekki nálægt þeim sem þurfa á okkur að halda þannig að starfið er öðruvísi.“
Pálína hefur gegnt þessu starfi síðan í september 2013 en hyggst brátt breyta til. „Nú er þetta að verða búið, ég fer á eftirlaun í ár og þá stendur til að koma heim til Íslands. Það er kominn tími til, ég er búin að vera svo lengi í burtu.“
Upphafið
Að loknu námi í hjúkrun réðst Pálína til starfa á bráðamóttökunni í Fossvogi en ekki leið á löngu þar til hún venti kvæði sínu í kross. „Þetta byrjaði allt saman árið 1984 um jólin. Þá var mikil hungursneyð í Eþíópíu og það voru sýndar myndir þaðan í sjónvarpinu. Við vorum þrjár vinkonur, allar hjúkrunarfræðingar, sem vorum að spjalla um þetta og fórum að velta fyrir okkur hvort við gætum ekki farið út og gert eitthvað gagn. Úr varð að við sóttum um hjá Hjálparstofnun kirkjunnar og áður en við vissum af vorum við komnar til Eþíópíu til sex mánaða dvalar. Þetta gekk allt mjög hratt fyrir sig. Þetta var ekki endilega það sem ég hafði ætlað mér að gera í hjúkrun, ég var að vinna á slysa- og bráðamóttökunni. Það var mín hugsjón og þar vildi ég vera. En svo gerðist eitthvað, ég fann hjá mér einhverja þörf fyrir að halda þessu áfram.
Við höfðum enga reynslu af svona stórum hamförum eins og áttu sér stað í Eþíópíu en hittum Sigríði Guðmundsdóttur, sem var að vinna fyrir alþjóðaráð Rauða krossins, og hún hjálpaði okkur mikið. Hún var með alls konar leiðbeiningar og upplýsingar um hvernig maður ynni við þessar aðstæður. Eftir það hugsaði ég með mér að kannski ætti ég að kíkja aðeins á Rauða krossinn. Ári síðar fór ég mína fyrstu ferð til Tælands, rétt við landamæli Kambódíu, þar sem Rauði krossinn rak sjúkrahús fyrir stríðssærða sem komu annaðhvort frá Víetnam eða Kambódíu. Í mörg ár átti ég erfitt með að ákveða hvað ég vildi gera því ég er voðalega heimakær. Mig langaði virkilega að vinna við bráðahjúkrun þannig að úr varð að ég starfaði á Íslandi en fór í ferðir á vegum Rauða krossins á Íslandi alveg fram til ársins 1999. Þá sagði ég upp og fór á vegum utanríkisráðuneytisins með breska hernum til Bosníu. Það var mjög sérstök lífsreynsla. Síðan hef ég í raun ekki komið heim til að vinna. Ég var í ferðum fyrir Rauða krossinn og fór síðan í nám í mannauðsstjórnun í heilbrigðisþjónustu og það leiddi mig svo í þetta starf sem ég er í núna. Þetta eru orðin þrjátíu og fjögur ár.“
Með vaxandi þolinmæði
Fyrir Pálínu og stöllur hennar var lífsreynsla að koma til Eþíópíu 1984. „Að sjá myndir í sjónvarpinu er ekkert á við það að vera á staðnum. Ég hafði aldrei áður komið til Afríku og aldrei orðið vitni að hungursneyð, hvað þá svona mikilli, svo að þetta var mikil reynsla. Við bjuggum í tjöldum og lifðum á mjög einfaldan hátt þetta hálfa ár. Við kynntumst annarri menningu og fólki sem maður hafði aldrei komist í kynni við áður. Það fólst ekki síður lærdómur í að vera þolinmóður, glíma við tungumálið og reyna að gera sig skiljanlegan. Ég var frekar óþolinmóð og hugsaði mikið um það hvernig ég myndi bregðast við þegar ég kæmi aftur á slysadeildina. Ég velti fyrir mér hvort ég hefði þolinmæði fyrir fólki sem kæmi út af einhverju léttvægu sem í raun ætti frekar að leysa á heilsugæslu. En í raun var það akkúrat öfugt, ég hafði miklu meiri þolinmæði og kom sjálfri mér á óvart. Þolinmæðin jókst með hverri ferð. Mér finnst þetta enn þá svolítið sérkennilegt. Ég fékk kannski bara alveg nóg af því út að vera í framlínunni þegar ég vann á vegum Rauða krossins.“
Mjög gott hjúkrunarnám á íslandi
Marga unga hjúkrunarfræðinga dreymir um að skoða heiminn og gera gagn. Hvernig skyldu íslenskir hjúkrunarfræðingar vera undirbúnir fyrir alþjóðlegt hjálparstarf? Í núverandi starfi vinnur Pálína með þeim sem eru að þroskast sem stjórnendur. Fyrstu tvö árin í Genf starfaði hún sem yfirhjúkrunarfræðingur og sinnti meira byrjendum. „Það eru nokkrir íslenskir hjúkrunarfræðingar sem hafa unnið með okkur, bæði þessir „gömlu góðu“ sem eru ekkert endilega að fara út lengur, eru sestir í helgan stein og svo þeir yngri. Við höfum mjög gott hjúkrunarnám á Íslandi. Góð grunnmenntun er auðvitað grunnurinn að öllum störfum í heilbrigðisþjónustu. Það eina sem maður getur sagt að vanti svolítið, reyndar ekki bara á Íslandi, eru tungumálin. Það er alltaf meira og meira um það að það er þörf á fólki sem talar fleiri tungumál en ensku og þá sérstaklega frönsku. Arabískan er kannski ekki nauðsynleg en hún kemur sér vel og líka rússneska. Tungumálin eru kannski það sem hefur verið íslenskum hjúkrunarfræðingum erfiðast. Það er samt hægt að bjarga sér á ensku í meirihluta þeirra landa sem við störfum í, eins og t.d. í Mið-Austurlöndum, þar er ekki gerð krafa um arabískukunnáttu heldur ensku. Það má segja sem svo að tækifærin aukist eftir því sem maður talar fleiri tungumál, það opnast aðrar víddir.
Annað sem við erum að glíma við er mannekla. Það er svo mikið að gera á spítölum og sífellt erfiðara að fá leyfi til að fara í hjálparstörf. Þetta er svona alls staðar, ekki bara á Íslandi. Fólk getur kannski fengið að fara í styttri ferðir en við viljum helst að hjúkrunarfræðingar fari í sex mánuði, ekki bara nokkrar vikur.“
Hún segir að það sé lítið um að fólk sé ráðið í hjálparstörf til skemmri tíma en að það geti þó gerst. „Það er helst í neyðarhjálpinni sem eru hraðar skiptingar. Fólk vinnur þá mjög mikið, oft við erfiðar aðstæður og verður fljótt þreytt, þannig að það er ekkert hægt að ætlast til þess að það vinni lengur en í nokkrar vikur í senn. En svona almennt séð viljum við hafa fólk í aðeins lengri tíma því talsvert af því sem við gerum er svokallað „transfer of knowledge“, ekki bein vinna með sjúklinga inni á spítölum heldur meira kennsla. Þá erum við að hjálpa og byggja upp getu þeirra sem við vinnum með til þess að þau geti sjálf unnið starfið og þá þarf fólk að vera svolítið lengur.“
Get ég þolað þetta næst?
En aftur að ungu fólki með útþrá sem hugsar kannski með sér: Nú ætla ég að drífa mig í að læra frönsku og arabísku og fara svo út í heim að vinna. Er hjálparstarf fyrir hvern sem er? Þrífast allir við svona aðstæður, svona störf? „Nei, það gera það ekki allir, nei, nei. En til dæmis þegar verður stórslys eða einhver náttúruvá, þá erum við Íslendingar mjög góð í að koma til hjálpar. Þá koma að því bæði sjálfboðaliðar og fagfólk og oftast er eitthvað að gera fyrir alla. Það þarf til dæmis að hella upp á kaffi og smyrja samlokur. Það er ekki endilega pláss fyrir alla í framlínunni. Og það er heldur ekkert fyrir alla. En maður veit það ekki fyrr en maður lendir í því. Og þó maður lendi í því þá veit maður ekki hvernig maður bregst við næst. Ég hugleiddi þetta ansi mikið á mínum ferli. Get ég þolað þetta næst? Þetta er ekki allra, en það er engin leið að átta sig á því fyrr en á hólminn er komið. Ef fólk er sérstaklega viðkvæmt ætti það kannski ekki að fara í svona framlínustörf. Það eru auðvitað ýmis önnur störf sem hægt er að sinna og hjálparstarf er ekki eingöngu á átaka- eða hamfarasvæðum. En þá er það frekar orðið meira í átt við þróunarhjálp. Rauði krossinn á Íslandi vinnur einnig að þróunarhjálp og sendir síðan sendifulltrúa, eins og við erum kölluð, annaðhvort með alþjóðaráðinu, sem ég vinn fyrir, sem vinnur mest á átakasvæðum, eða alþjóða Rauða krossinum sem er meira á hamfarasvæðum.“
Starfið er stórkostlegt
Pálína myndi vilja sjá fleiri íslenska hjúkrunarfræðinga í vinnu fyrir alþjóðaráð Rauða krossins í framtíðinni. Hún segir að þeir passi vel í þetta starf, kalli ekki allt ömmu sína og aðlagist venjulega vel. Enn fremur telur hún að reynslan sem sendifulltrúar afla sér skili sér til baka inn á íslenskar heilbrigðisstofnanir. „Mér fannst alltaf gott að finna, þegar ég var að koma og fara á bráðamóttökunni, kannski fyrstu 10-15 árin sem ég var í þessu, hvað það var vel metið af stjórn spítalans, hjúkrunarforstjóra, samstarfsfólki og yfirmönnum. Sú reynsla, sem maður fékk í útlöndum, reyndist mjög vel þegar eitthvað mikið var að gerast, náttúruhamfarir eða stórslys. Ég fann hvernig það hjálpaði í starfinu auk þess að gera mig þolinmóðari, eins og ég vék að áður. Það hjálpar að sjá annað og vera í öðru umhverfi. Maður metur betur það sem maður hefur og stundum lærir maður líka að meta fólk betur. Þegar ég kem heim vonast ég til að geta starfað eitthvað með Rauða krossinum heima og talað við hjúkrunarfræðinga sem hafa áhuga eða eru forvitnir að vita hvernig starfið er og hvernig er best að undirbúa sig. Hjúkrunarfræðingar og menntunin sem þeir hafa nýtist vel í mörgum störfum. Það kemur að hluta til úr náminu en að hluta til úr vinnu á spítölum eða heilsugæslu þar sem unnið er í teymum. Það er ekki bara þessi tæknilega vinna sem við gerum vel heldur reynist menntunin líka vel í stjórnun. Það eru alger forréttindi að hafa unnið við þetta bæði heima og að heiman. Stundum hefur maður þurft að sætta sig við lágu launin en ef maður fær eitthvað út úr starfinu, eins og ég hef alltaf gert, þá er þetta bara stórkostlegt. En auðvitað eiga hjúkrunarfræðingar samt að fá borgað það sem þeim ber. Launin hafa verið til skammar á undanförnum árum og það er ekkert nýtt þar. En það koma betri tímar inni á milli.“
Skemmtilegast að sjá árangur
Að lokum er áhugavert að vita hvað hjúkrunarfræðingi með jafnvíðtæka reynslu af stjórnun og starfi á vettvangi bráðaþjónustu og hjálparstarfs eins og Pálína, finnst skemmtilegast við starfið. „Ja, líklega væri ég nú ekki enn þá í þessu ef ekki væri búið að vera skemmtilegt. Skemmtilegast er náttúrlega að sjá árangur af vinnunni sinni hvað sem maður er að gera og hvar sem maður er. Maður vill sjá árangur og keppast við sjálfan sig og verða betri og læra meira. Það er líka búið að vera skemmtilegt að kynnast öllu þessu fólki og annarri menningu og vera velkominn á ótrúlegustu svæði. Og síðan eru það alþjóðlegu kollegarnir sem maður er að vinna með sem koma frá öllum heimshornum. Að taka á móti einhverjum sem kemur mjög illa haldinn, veita meðhöndlun við þær einföldu aðstæður sem við vinnum við og horfa svo á eftir þessum einstaklingi ganga brosandi út í lífið á ný gefur manni mikið. Líka þegar maður er að vinna með stjórnvöldum í verkefnum sem byggja upp þjónustu og sjá svo þjónustuna verða betri fyrir borgarana. Það getur verið krefjandi og tekið á þolinmælina að reyna að gera hlutina sem best, en það er mjög gefandi.“
Viðtal: Heiðrún Ólafsdóttir