Þróun geðheilsuteyma
Sigríður Hrönn Bjarnadóttir, sérfræðingur á sviði geðhjúkrunar og starfar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
Áður en fjallað verður um þróun geðheilsuteyma er vert að minnast á að vísir að slíkri þjónustu byrjaði með Bergþóru Reynisdóttur geðhjúkrunarfræðingi árið 1998. Árið 2003 var stofnað teymið geðheilsa – eftirfylgd/iðjuþjáfun (síðar GET) á vegum heilsugæslunnar og ári síðar geðteymi heimahjúkrunar sem fjallað verður nánar um í þessari grein. Þróun samfélgsgeðþjónustu hélt áfram næstu árin með stofnun geðteymis Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og samfélagsgeðteymis Landspítalans en það teymi sinnir fyrst og fremst einstaklingum með alvarlega geðrofssjúkdóma.
Geðteymi heimahjúkrunar
Þróun samfélgsgeðþjónustu er ekki ný af nálinni hjá nágrannaþjóðum okkar en á Íslandi er ekki löng hefð fyrir slíkri þjónustu. Undanfari að stofnun geðteymis heimahjúkrunar var umræða í þjóðfélaginu hvað varðaði skort á langtímaeftirfylgd og stuðningi við geðsjúka eftir útskrift af geðdeild. Í kjölfarið fór af stað undirbúningsvinna sem Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) fól Guðnýju Önnu Arnþórsdóttur geðhjúkrunarfræðingi að stýra í samvinnu við HH og Landspítalann og fleiri aðila. Geðteymið var síðan stofnað 2004 og meginmarkmiðið með starfi teymisins var að tryggja samfellu í meðferð sjúklinga eftir útskrift, fækka snemmbærum endurinnlögnum og styrkja aðlögunarleiðir einstaklinga með geðröskun og fjölskyldna þeirra. Ákveðið var að teymið yrði staðsett undir miðstöð heimahjúkrunar þar sem aðstæður voru fyrir hendi sem gætu stutt við starfsemina. Þróun teymisins varð hröð og í takti við kröfur samfélagsins og þarfir notenda þjónustunnar.Geðheilsustöð Breiðholts
Árið 2009 fór geðteymið ásamt heimahjúkrun undir Reykjavíkurborg en heimahjúkrun varð að Heimaþjónustu Reykjavíkur (samþætt félags- og heilbrigðisþjónusta). Með þessari breytingu varð aukið samstarf við félagsþjónustu og er það í takt við þær áherslur sem snúa að þörfum notenda að fá samþætta og samfellda þjónustu. Í samhengi við þessa þróun var tekin sú ákvörðun að breyta starfsemi geðteymisins í samþætta þjónustu geðteymisins og þjónustumiðstöðvar Breiðholts. Starfsemin fékk nafnið Geðheilsustöð Breiðholts. Hvatinn að verkefninu voru tíðar innlagnir frá Breiðholtssvæðinu á bráðageðsvið Landspítala ásamt því að færa geðþjónustu enn frekar út í nærsamfélagið, bjóða öflugri þverfalega vinnu og þéttara þjónustunet. Ásamt þjónustu við Breiðholtið þjónaði geðheilsustöðin allri Austur-Reykjavík. Um var að ræða þróunarverkefni til þriggja ára frá 2012-2015.Verkefnið hlaut nýsköpunarverðlaun í opinberri stjórnsýslu en í rökstuðningi valnefndar kom m.a fram: Um tímamótaverkefni er að ræða í þjónustu við geðfatlaða. Með geðheilsustöðinni er ætlunin að veita heildræna þjónustu og draga m.a. þannig úr innlögnum á geðsvið Landspítala. Innan þjónustunnar starfar þverfaglegur hópur fagfólks sem vinnur eftir batahugmyndafræðinni þar sem notendum er hjálpað til að byggja upp betri sjálfsmynd og aukna vitund um eigið vald og val í lífinu. Í batastýrðri þjónustu er gjarnan nýtt persónuleg reynsla þeirra sem hafa náð bata og hafa fyrrum notendur þjónustunnar orðið liðveitendur. Verkefnið hefur m.a. leitt til þess að innlögnum frá íbúum í Breiðholti á geðsvið hefur fækkað um 28% frá því að geðheilsustöðin tók til starfa. Um er að ræða umfangsmikið verkefni með hátt almannagildi og er það því mikilvægt fyrir þjónustuþegana, samfélagið og stofnunina. Jafnframt getur aðferðafræðin nýst öðrum (Geðheilsustöð Breiðholts, 2012).
Fyrir utan áherslu á samþætta þjónustu í nærsamfélaginu var lögð áhersla á að vinna með afleiðingar ofbeldis. Samkvæmt ársskýrslu geðteymisins 2011 höfðu 70% af þjónustuþegum geðheilsustöðvarinnar lent margsinnis og með flóknum hætti í alls kyns áföllum. Námskeiðið Gæfuspor varð því hluti af starfseminni en um er að ræða þverfaglegt námskeið fyrir konur sem hafa orðið fyrir áföllum af völdum ofbeldis. Haldin voru fimm námskeið með góðum árangri en Gæfusporin eru einnig starfrækt á Akureyri.
Megintilgangi verkefnisins var því náð með fækkun á innlögnum og bættum lífsgæðum þjónustuþega. Stigin voru einnig fyrstu skrefin í að notendur með reynslu af geðröskun voru ráðnir inn sem starfsmenn. Fólst starf þeirra í félagslegri liðveislu og aðstoð á námskeiðinu Gæfuspor.
Undirbúningur að geðheilsuteymum
Þegar þróunarverkefninu Geðheilsustöð Breiðholts lauk kom aftur að tímamótum þegar starfsemin fluttist yfir til HH þann 1. mars 2017 og varð að geðheilsuteymi austur.Með flutningi á starfseminni var haft að leiðarljósi samþykkt tillögu um stefnu og aðgerðaráætlun stjórnvalda í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Eitt af aðalmarkmiðum áætlunarinnar er að þjónusta við einstaklinga með geðröskun sé samþætt og samfelld. Í því samhengi er tiltekið að fólk sem glímir við geðröskun hafi aðgengi að þverfaglegu teymi heilbrigðis- og félagsþjónustu. Því verði m.a. náð með fjölgun geðheilsuteyma á höfuðborgarsvæðinu og lagt til að teymin vinni á grundvelli þarfagreiningar og valdeflingar. Til að undirbúa starfsemi geðheilsuteymanna var með erindisbréfi skipaður samráðshópur þvert á stofnanir. Meginhlutverk hópsins var að skilgreina starfsemina og hvaða þættir ættu að vera til staðar.
Geðheilsuteymi HH
Í dag eru starfandi tvö geðheilsuteymi sem vinna eftir sömu verkferlum í Reykjavík austur og vestur og verið er að koma af stað geðheilsuteymum á landsbyggðinni. Þriðja teymið mun innan skamms taka til starfa á höfuðborgarsvæðinu en það mun sinna Kragasvæðinu.Geðheilsuteymin eru þverfagleg 2. stigs geðheilsbrigðisþjónusta. Byggist starfsemi þeirra á nærþjónustu, batahugmyndafræði, gagnreyndum aðferðum og þeim leiðum og stuðningi sem henta eintaklingnum hverju sinni. Geðhjúkrunarfræðingar eru stór hluti af þverfaglegum starfshópi teymanna og hafa þeir forystu sem málastjórar. Í teymunum vinna einnig einstaklingar með reynslu af geðröskun og þétt samstarf er við þjónustumiðstöðvar með þátttöku félagsráðgjafa í teymunum.
Lögð er áhersla á einstaklings- og fjölskylduvinnu ásamt fræðslu en námskeið eru stór hluti af starfseminni. Innan geðheilsuteymanna starfar atvinnulífsráðgjafi frá Virk (IPS) sem hefur það hlutverk að styðja til atvinnuþátttöku eða náms. Geðheilsuteymin styðjast einnig við hugmyndafræði FACT þar sem sveigjanleiki þjónustunnar er í fyrirrúmi, einstaklingsbundin málastjórn og samvinna þvert á ólík svið (FACT, 2013).
Meginmarkmið þjónustunnar er einstaklingsmiðuð nálgun þar sem hverjum og einum er mætt þar sem hann er staddur. Lögð er áhersla á að vinna með grunnþarfir einstaklingsins, tilfinningalega líðan ásamt því að efla von, bæta sjálfsmynd, bjargráð, virkni og tengslanet. Með þjónustunni er ávallt haft í huga mikilvægi þess að hver og einn velji sína leið og bati sé einstaklingsbundinn og geti tekið mislangan tíma.
Starfsemi geðheilsuteymanna fer fram með viðtölum á starfsstöð eða með heimavitjunum eða hvoru tveggja, eftir því sem þörf er á hverju sinni. Til að tryggja samfellda þjónustu með hagsmuni einstaklingsins að leiðarljósi eiga geðheilsuteymin gott samstarf við aðrar stofnanir ásamt félaga- og notendasamtökum. En stefna geðheilsuteymanna er að vera í stöðugri þróun og horfa til þarfa þjónustuþega hverju sinni. Þeir einstaklingar sem þiggja þjónustu teymanna eru á breiðu aldursbili frá 18 ára aldri og því er mikilvægt að sníða þjónustuna að hverjum og einum. Óumdeilt er að notendur hafa mikilvæg áhrif á þjónustuna en samvinna þeirra innan þverfaglegs teymis við fagfólk úr ólíkum stéttum er mikilvægur hlekkur þjónustunnar.
Heimildir
FACT (2013). Flexible Assertive Community Treatment: Visjon, modell og organisering af fact-modellen (Karin Blix Flage þýddi). Brumunddal: Nasjonal kompetansetjeneste for samtidig rusmisbrug og psykisk lidelse.Geðheilsustöð Breiðholts (2012). Samþætt þjónusta geðteymis Heimaþjónustu Reykjavíkur og þjónustumiðstöðvar Breiðholts: Lokaskýrsla. Reykjavík: Geðheilsustöð Breiðholts.
Geðteymi heimahjúkrunar (2011). Ársskýrsla. Reykjavík: Geðheilsuteymi heimahjúkrunar.