Verður að geta treyst á eigin getu
Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir á Kirkjubæjarklaustri
Ég hóf störf á heilsugæslunni á Kirkjubæjarklaustri sumarið 2007 en ég er búsett á sveitabæ skammt austan við Kirkjubæjarklaustur þar sem maðurinn minn er fæddur og uppalinn. Saman eigum við þrjú börn á aldrinum sjö til fjórtán ára. Á þessum tíma stóð fjölskyldan á tímamótum, ég var nýlega útskrifuð sem ljósmóðir, tengdafaðir minn var langveikur og það bráðvantaði hjúkrunarfræðing á heilsugæsluna. Hollið mitt stóð í stappi við Landspítalann um launakjör. Því miður er þetta gömul saga og ný. Kannski var þessi launadeila mín gæfa, annars hefði ég jafnvel ekki komið í „Sveitina milli sanda“ þar sem náttúrufegurðin er engu lík. Hér kallast á eldur og ís sem í raun er táknrænt fyrir þau verkefni sem heilsugæsla á litlum stað tekst á við.
Hjúkrunarfræðingur, ljósmóðir, sjúkraflutningamaður
Starfið er afskaplega fjölbreytt þrátt fyrir fámennið, starfssvæðið er stórt en fáir um verkin. Hér er eitt stöðugildi hjúkrunarfræðnings, læknir á staðnum að öllu jöfnu aðra hverja viku en á sumrin alla daga, móttökuritari í hálfu starfi, og síðan eru hlutastarfandi sjúkraflutningamenn á bakvakt. Við þessar aðstæður verður að vera hægt að treysta á eigin getu til að geta brugðist við þeim fjölbreyttu aðstæðum og tilfellum sem upp geta komið. Fyrir mig er mikill styrkur að vera bæði með hjúkrunar- og ljósmóðurmenntun en mér fannst þó nauðsynlegt að efla enn frekar við faglega þekkingu mína og hef því menntað mig í sjúkraflutningum og lauk í vor prófi í neyðarflutningum sem er góð viðbót við fyrri menntun.Á þeim tíma sem ég hef starfað á heilsugæslunni á Klaustri hef ég tekist á við fjölþætt viðfangsefni sem tilheyra hefðbundnum heilsugæslustörfum ásamt mörgum yfirgengilega krefjandi verkefnum sem dúkka upp og oftar en ekki við margbreytilegar aðstæður. Má þar nefna aðgerðir vegna náttúruvár, eldgos og öskufall í kjölfar þess, margföldun á heimsóknum ferðamanna með tilheyrandi fjölgun slysa og bráðatilfella, og stór og smá hópslys. Þannig hef ég sinnt útköllum og sjúkraflutningum á hinum ýmsu farartækjum, s.s. sjúkrabíl, björgunarsveitabílum, bryndreka og í loftfari svo eitthvað sé nefnt.
Einföld verk í hversdagsleikanum geta valdið álagi
Bráðatilfelli gera ekki boð á undan sér og geta komið á öllum tímum sólarhringsins. Stundum er langt á milli útkalla og stundum stutt. Oft þarf að rjúka út frá því sem maður er að gera hverju sinni, skafa bílinn, finna út hvert eigi að fara og kalla til aðrar bjargir. En það er ekki alltaf hasar. Fólk hefur tilhneigingu til að draga þá ályktun að erfiðasta verkið og mesta álagið sé að takast við hópslys, líkt og rútuslysið á síðasta ári, eða mjög mannskæð slys. Staðreyndin er hins vegar sú að þá geta jafnvel einföld verk í hversdagsleikanum valdið meira álagi og áreiti, s.s rangfærslur sem erfitt er að kveða niður enda hjúkrunarfólk bundið ströngum trúnaði um störf sín og skjólstæðinga.Eins og hefur komið fram þá er starfsstöðin fámenn og langt á næsta sjúkrahús, að auki er ekki stöðug mönnun lækna í héraðinu og hefur það kallað á breytta sýn við þjónustu við bæði íbúa og gesti. Heilsugæslan var knúin til að breyta vaktafyrirkomulaginu á staðnum til þess að tryggja bráðaþjónustu. Einnig hef ég ásamt Sigurði Árnasyni lækni tekið þátt í brautryðjendastarfi hér á landi í fjarheilbrigðisþjónustu sem hefur að mörgu leyti gjörbylt aðgengi að sérfræðiaðstoð. Íbúar hreppsins komu að þessu verkefni með afar virkum hætti og stóðu meðal annars fyrir fjársöfnun til nauðsynlegra tækjakaupa.
Það er staðreynd að á litlum stöðum á landsbyggðinni eru úrræðin takmarkaðri en á stærri stöðum. Það væri ákjósanlegra ef fleira heilbrigðismenntað fólk gæti verið í viðbragðsstöðu en í fámenni er það hægara sagt en gert. Við búum hins vegar vel að góðum og fórnfúsum sjálfboðaliðum annarra viðbragðsaðila, s.s. í björgunarsveit og slökkviðliði, sem eru hoknir af reynslu og eru gríðarlega mikilvæg aðstoð. Það er einnig mjög gott samstarf við lögreglu og heilbrigðisstarfsfólk í næsta nágrenni, sérstaklega heilsugæsluna í Vík í Mýrdal. Með slíkan mannauð stendur maður ekki einn.
Það hefur án efa verið styrkur minn sem fagmennskju að hafa fjölþætta menntun. Til að geta staðið vaktina í feltinu þarf að hafa yfirgripsmikla þekkingu og geta beitt henni fljótt, undir miklu álagi, á öruggan og yfirvegaðan hátt og taka því sem að höndum ber. Samvinna er lykill að árangri en grundvöllur samvinnu og árangurs er traust. Með því að heilbrigðisstéttir leggi saman er þörfum skjólstæðinga mætt, skilvirkni eykst og síðast en ekki síst, sparnaðarkröfur uppfylltar. Fræðileg þekking og reynsla er lykilatriði að árangursríku starfi.
Tækifæri felast í teymisvinnu
Það má velta því fyrir sér hvort viðurkenning á sérhæfingu hjúkrunarfræðinga gæti orðið til þess að hækka þjónustustig og öryggi í heilbrigðisþjónustu hér á landi. Hefðin gerir það að verkum að skjólstæðingar þekkja hlutverk læknis betur þegar kemur að greiningu og ákvörðun um meðferð, en eru einfaldlega ekki vanir því að því sé sinnt af hjúkrunarfræðingum. Ríkisendurskoðun hefur gefið tóninn til ráðuneytis um ýmsar breytingar varðandi þjónustu heilsugæslustöðva á landsbyggðinni, m.a með aukinni áherslu á teymisvinnu innan heilsugæslunnar. Með slíkum aðgerðum ættu skjólstæðingar heilsugæslunnar í flestum tilvikum greiðari aðgang að fagaðila til að fá úrlausn sinna mála auk þess sem nýta má starfskrafta heilbrigðisstarfsfólks á markvissari hátt.Ég vil að lokum hvetja hjúkrunafræðinga um allt land til að taka opnum örmum þeim tækifærum sem felast í teymisvinnu heilbrigðisstarfsfólks, þar sem þekking og reynsla hvers og eins samtvinnast líkt og vel ofinn þráður öllum til hagsbóta.