Hjukrun.is-print-version

Vinalegir og þolinmóðir sjúklingar á Íslandi

Viðtal við Giuliu Pozzobon

Viðtal við Giuliu Pozzobon

Giulia Pozzobon er ítalskur hjúkrunarfræðingur sem starfar á vöknun á Borgarspítalanum. Hún býr í Kópavoginum ásamt unnusta sínum Christian sem einnig starfar við hjúkrun á sama spítala. Áður en lengra var haldið lá auðvitað beinast við að spyrja spurningarinnar gamalkunnu: Hvernig líkar þér á Íslandi?

„Ísland er mjög fallegt land, en það er samt búið að vera svolítið erfitt að búa hérna af því að það er allt svo dýrt hérna. Jafnvel þó launin séu há fara þau næstum öll í húsaleigu og rekstur bíls. Þau eru fljót að hverfa. Veðrið tekur líka á okkur sem komum frá Ítalíu, sérstaklega myrkrið og allur vindurinn. Mér fannst þetta sérstaklega erfitt til að byrja með en ég er að venjast þessu. Þetta er orðið miklu betra.“

En hver er bakgrunnur Giuliu? Og hvernig datt henni í hug að koma til Íslands? „Ég er frá litlum bæ á Norður-Ítalíu sem heitir Maserada sul Piave og er í Treviso-héraðinu, ekki langt frá Feneyjum. En já, ég var í hjúkrunarnámi í Portenone, þaðan sem Christian er, en við kynntumst einmitt þegar ég var í starfsnámi á spítalanum þar.“

Christian fór til Cardiff á Englandi til að vinna eftir að hann útskrifaðist og Giulia var að vinna að því að fara til hans. Hún var að sækja um vinnu þar en áður en til þess kom hafði kærastinn sótt um vinnu hér. Hann var boðaður í viðtal sem gekk svo vel að honum var boðið starfið. Hann hvatti hana þá til að sækja um líka og þrátt fyrir að þetta hafi kannski fyrst verið sett fram í gríni fór það samt svo að hún sótti um og fékk líka starf hér.

Erfitt að fá vinnu við hjúkrun á Ítalíu

Giulia lauk námi í hjúkrun frá háskólanum í Portenone í nóvember 2017 og kom hingað til lands í september 2018. Hún segir mjög erfitt að fá vinnu við hjúkrun á Ítalíu og starfið á vöknun er því fyrsta starfið hennar sem útlærður hjúkrunarfræðingur. En Giulia þekkir samt vel starf hjúkrunarfræðinga á Ítalíu og hún er spurð hver helsti munurinn sé á löndunum tveimur bæði hvað varðar hjúkrunarnámið og svo vinnuna á spítalanum.

„Á Ítalíu byrjar fólk venjulega háskólanám strax eftir menntaskóla, þegar það er kannski 18 eða 19 ára. Hjúkrunarnámið er bara þrjú ár á Ítalíu og eftir grunnnámið er svo mögulegt að fara í meistaranám eða einhvers konar sérhæfingu. En fæstir gera það því það er engin trygging fyrir því að maður fái starf við það sem maður sérhæfir sig í og það er ekki heldur metið almennilega til launa. Stór hluti námsins fer fram á spítalanum þar sem nemar vinna fyrstu árin með leiðbeinanda en fara svo að vinna einir á þriðja ári. Nemarnir vinna á öllum deildum spítalans og kynnast þannig hjúkrunarstarfinu vel á meðan á náminu stendur.“

Spítalarnir á Ítalíu er opinberar stofnanir og því eru öll störf auglýst á landsvísu. Svo eru kannski hundruð umsækjenda um eina stöðu og það þarf að meta þá alla og taka svo viðtöl, að sögn Guiliu. „Þess vegna er erfitt að fá stöðu, það er kannski hægt að fá sex mánaða afleysingastörf en inni á milli er ekkert að hafa. Það er samt alveg sami skortur á hjúkrunarfræðingum þar og hér en á Ítalíu eru bara ekki nægir peningar í kerfinu til að ráða fleira starfsfólk. Það er því mikið um að ítalskir hjúkrunarfræðinga vinni í öðrum löndum. Launin eru líka mjög lág á Ítalíu, meira að segja í einkageiranum. Þar fær maður að hámarki um 230 þúsund í mánaðarlaun, að hámarki! Auðvitað er ódýrara að framfleyta sér þar, en það er ekki svona miklu ódýrara. Það er því ekki gerlegt að ætla að eignast húsnæði eða koma sér upp fjölskyldu á þessum launum,“ segir Giulia.

Þrátt fyrir fjárskort á opinberum sjúkrahúsum á Ítalíu segir Giulia aðstöðuna hér heima og á Ítalíu vera svipaða. „Aðstaðan er svo til eins í báðum löndum og starfið er það sama. Maður getur auðveldlega gengið út úr vinnunni á Ítalíu og komið hingað að vinna. Það er ekki mikill munur á. Hér á landi eru starfshættir stundum svolítið gamaldags og mér virðist sem það taki langan tíma að breyta þeim. Á Ítalíu er mikið lagt upp úr að bæta verklagið og uppfæra, og ár hvert fara allir hjúkrunarfræðingar í endurmenntun svo allir séu með nýjustu verkferlana á hreinu.“

Að sögn Giuliu er vinnutíminn sá sami í báðum löndum, átta tíma vaktir, en stærsti munurinn er starfshlutfallið. „Hér er hægt að velja um mismunandi starfshlutfall en á Ítalíu eru flestallir hjúkrunarfræðingar í 100% starfi. Það eru einstök undantekningartilfelli að fólk óski eftir hlutastarfi, kannski í kjölfar barneigna, en það er í mesta lagi einn eða tveir á hverri deild. Hérna eru flestir í 80% starfi nema við Christian, við vinnum fullt starf því við erum vön því hlutfalli. Vaktafyrirkomulagið er líka öðruvísi hér. Á Ítalíu er maður heima í tvo daga eftir næturvakt til að tryggja næga hvíld, en hér fær maður einn dag til að jafna sig og má svo fara aftur að vinna. Mér finnst erfitt að venjast þessu.“

Sjúklingarnir þolinmóðari hér en á Ítalíu

En hvernig gengur að læra tungumálið og aðlagast íslensku samfélagi? „Tungumálið er mjög erfitt. Ég byrjaði að reyna að læra allt sem snýr að spítalanum og vinnunni. Mér gengur ágætlega að tala við hina hjúkrunarfræðingana og læknana en ég gæti ekki spjallað við þig um það sem ég gerði í gær. Ég er enn að læra að tala um venjulega hluti. Mér finnst auðvelt að tala íslensku á spítalanum. Ég tala alltaf íslensku við sjúklingana og þeir eru oftast mjög þolinmóðir þegar ég þarf að endurtaka mörgum sinnum það sem ég er að reyna að segja. Ég verð að vera viss um að segja það rétt, gefa réttar upplýsingar. Þetta getur verið erfitt, sérstaklega málfræðilega. Samstarfsfólkið hjálpar mér mjög mikið en svo er ég líka í íslenskunámi hjá Mími svo þetta kemur smám saman.“

Giulia er úr litlum bæ á ítalskan mælikvarða en hún segir þó vera meira líf þar en hér á Íslandi. „Lífið á Ítalíu er mjög frábrugðið því sem við höfum kynnst á Íslandi. Þar förum við mikið út og hittum vinina, borðum saman eða fáum okkur kaffi eða drykk. Hérna fer fólk bara út um helgar og þá niður í miðbæ til að djamma. Það er meiri samgangur á milli fólks á Ítalíu en hérna á Íslandi því hér eru flestir heima hjá sér eftir vinnu enda veðrið oft miklu verra. Fyrst um sinn gerðum við ekki mikið annað en að fara bara heim eftir vinnu.

Nú erum við búin að kaupa okkur bíl svo við erum byrjuð að fara út úr bænum að skoða landið og bíðum spennt eftir sumarfríinu til að geta ferðast meira. En já, við erum ekkert öðruvísi en aðrir, held ég, horfum á sjónvarpið eða bíómynd. Við förum mikið í sund í Laugardalnum og okkur finnst það frábært. Ég fer stundum í bíó með vinnufélögunum. Við erum líka í smásambandi á Facebook við aðra Ítali sem búa hérna og til dæmis þegar við förum út úr bænum þá bjóðum við fólki að koma með til að nýta sætin. Það er mjög skemmtilegt,“ segir hún.

Lífið í nýju landi getur reynt verulega á en það er sannarlega ekki allt slæmt við að starfa hér, að mati Giuliu. „Það var tekið afskaplega vel á móti mér þegar ég byrjaði. Allir voru mjög hjálpsamir og útskýrðu allt mjög vel fyrir mér. Ég er rosalega ánægð með samstarfsfólkið mitt. Sjúklingarnir eru líka betri hér. Þolinmóðari. Á Ítalíu eru sjúklingarnir oft reiðir af því að kerfið er ekki gott og þeir hafa kannski þurft að bíða lengi eftir aðgerð. Svo þeir eru stundum dónalegir við okkur. Hérna eru þeir vinalegri, þeir eru mjög þolinmóðir þó þeir skilji ekki strax hvað ég er að segja. “

Giulia er spurð hvort hún teldi það vera góða hugmynd fyrir íslenska hjúkrunarfræðinga að fara til starfa á Ítalíu.„Já, íslenskir hjúkrunarfræðingar gætu alveg gert það. Ítalskan er ekki eins erfið og íslenska. Íslenskir hjúkrunarfræðingar eru líka svo hlýir við sjúklingana sína að ég held að þeir myndu vera kærkomnir á ítalska spítala. Þeir mundu samt kannski ekki vera ánægðir með starfshlutfallið!

Að endingu er Giulia spurð hvort hún haldi að hún muni mæla með þessari reynslu við ítalska hjúkrunarfræðinga þegar hún fer aftur til Ítalíu? „Já, ég geri það örugglega. Við erum núna í sambandi við leiðbeinandann okkar úr náminu og erum að byrja að vinna að því að skipuleggja Erasmus-skiptinám hingað til Íslands. Ítalskir nemar hafa verið að fara til Svíþjóðar, Englands og fleiri staða og það væri gaman ef Ísland bættist við. Við Christian stungum upp á þessu og það er líklegt að þetta verði að veruleika þó það kunni að taka tíma.

Ég er annars ekki viss um að ég sé á leiðinni aftur heim til Ítalíu í bráð. Ég klára auðvitað samninginn minn svo ég verð alla vega hérna út september. En svo ætlum við að sjá til. Þetta hefur ekkert með Ísland að gera svo sem, en við þurfum að hugsa um hvað það kostar að lifa því okkur langar að stofna fjölskyldu og kaupa okkur húsnæði og við getum ekki gert það hér. Svo það er líklegast að við förum aftur til Cardiff, það er ódýrara að lifa þar.“

Viðtal: Heiðrún Ólafsdóttir

Nútíð

Erlendir hjúkrunarfræðingar

Samskipti

Útlendingar

Viðtöl

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála