Hjukrun.is-print-version

Aldarafmæli Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

2. tbl. 2019

Fjölbreytt dagskrá verður allt árið í tilefni þess að hundrað ár eru liðin frá því að fyrsta félags hjúkrunarfræðinga á Íslandi var stofnað. Opnunarhátíð afmælisárs félagsins, sem fram fór 15. janúar síðastliðinn á Hilton Nordica, var vel sótt en þar komu hátt í þúsund hjúkrunarfræðinga saman.

Formaður félagsins, Guðbjörg Pálsdóttir, flutti ávarp ásamt Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og Ölmu Möller landlækni. Björg Þórhallsdóttir, söngkona og hjúkrunafræðingur, tók lagið og nýstofnaður kór hjúkrunarfræðinga flutti nokkur lög við undirleik Hilmars Arnar Agnarssonar. Ari Bragi Kárason lék á trompet og Ari Eldjárn flutti gamanmál. Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, var viðstödd hátíðahöldin en hún er heiðursfélagi í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga. Móðir hennar, Sigríður Eiríkisdóttir, var fyrsti íslenski formaður félagsins en hún tók við því hlutverki 1924 og markaði mikilvæg spor í sögu hjúkrunar á Íslandi á sínum 36 ára ferli sem formaður.

Hjúkrunarmessa á alþjóðadegi hjúkrunarfræðinga

Á alþjóðadegi hjúkrunarfræðinga, 12 maí, var haldin hjúkrunarmessa í Grafarvogskirkju. Kirkjubekkir voru þéttsetnir en þar ávarpaði sr. Grétar Halldór Gunnarsson, prestur Grafarvogskirkju, kirkjugesti,
sr. Svanhildur Blöndal, prestur og hjúkrunarfræðingur, þjónaði fyrir altari og Rósa Kristjánsdóttir, djákni og hjúkrunarfræðingur, predikaði.

Hjúkrunarfærðingarnir Laura Sch. Thorsteinsson, Guðný Valgeirsdóttir, Árni Már Haraldsson og Valgerður Hjartardóttir, sem jafnframt er djákni, lásu ritningartexta og bænir. Björg Þórhallsdóttir, söngkona og hjúkrunarfræðingur, söng einsöng og Hátíðarkór hjúkrunarfræðinga söng undir stjórn Bjargar Þórhallsdóttur. Kristín Sigurjónsdóttir hjúkrunarfræðingur lék á fiðlu og organisti var Hilmar Örn Agnarsson.

Sögusýning í Árbæjarsafni opnuð 19. júní

Í tilefni 100 ára afmælis Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur verið sett á fót sögusýning í Árbæjarsafni. Sýniningin hefst 19. júní og stendur fram í október. Sýningin hjúkrun í 100 ár segir sögu hjúkunar í samhengi við breytingar á stöðu kynjanna og þróun í tækni og vísindum.

Um aldamótin 1900 umbreyttist íslenskt samfélag. Fólkið yfirgaf sveitirnar og settist að í þéttbýlinu þar sem sumir bjuggu við velsæld en kjör annarra voru kröpp. Lélegt húsnæði ásamt skorti á mat og almennu hreinlæti ógnuðu heilsu bæjarbúa og nábýlið auðveldaði dreifingu sjúkdóma. Ábyrgð á umönnun sjúkra, sem hafði legið á heimilunum, fluttist yfir á góðgerðarfélög sem gáfu mat og fatnað og skipulögðu heimahjúkrun og heilsuvernd fyrir þá efnaminni.

Menntaðar hjúkrunarkonur voru þar framarlega í flokki. Margar voru danskar og höfðu flutt til landsins gagngert til þess að starfa á sjúkrastofnunum sem þá voru að rísa í nágrenni Reykjavíkur. Hjúkrun var nýtt og sérhæft starf sem krafðist, ef vel átti að fara, umhyggju og næmni fyrir þörfum sjúklinganna, agaðra vinnubragða og mikillar skipulagningar. Námið var þrjú ár og íslenskar stúlkur sóttu það erlendis að hluta eða öllu leyti fram til ársins 1931 þegar Hjúkrunarkvennaskólinn tók til starfa.

Langt var liðið á tuttugustu öldina áður en breytt viðhorf til hlutverk kvenna, fækkun vinnustunda, sumarfrí, innleiðing fæðingarorlofs, opnun leikskóla og bætt framboð getnaðarvarna gerðu konum kleift að starfa utan heimilis samhliða fjölskyldulífi. 
Þegar Félag íslenskra hjúkrunarkvenna var stofnað árið 1919 voru starfandi 11 menntaðar hjúkrunarkonur sem allar voru ógiftar og barnlausar og bjuggu á þeim sjúkrastofnunum sem þær störfuðu við. Langt var liðið á tuttugustu öldina áður en breytt viðhorf til hlutverk kvenna, fækkun vinnustunda, sumarfrí, innleiðing fæðingarorlofs, opnun leikskóla og bætt framboð getnaðarvarna gerðu konum kleift að starfa utan heimilis samhliða fjölskyldulífi.

Enn í dag byggist hjúkrun á sama grunni og fyrir hundrað árum og miðar að því að skapa sjúklingnum öruggt umhverfi og þannig hindra, stöðva eða lina afleiðingar sjúkdóma og slysa. Í dag eru starfandi tæplega 3.000 hjúkrunarfræðingar sem vinna fjölbreytt og oft og tíðum mjög sérhæfð störf sem breytast í takt við framfarir sem verða á sviði vísinda og tækni. Þrátt fyrir þetta eru fáir karlmenn hjúkrunarfræðingar og vísbendingar eru um að þar sé um að kenna gömlum hugmyndum samfélagsins um hjúkrun og stöðu kynjanna. Er ekki kominn tími til að brjóta glerþakið?

Nánari dagskrá afmælisársins er hægt að kynna sér á vef félagsins, www.hjukrun.is.

Félagið

Hjúkrun

Saga

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála