Hjukrun.is-print-version

Áhrifavaldar

3. tbl. 2019
Héðinn Unnsteinsson

Höfundur: Héðinn Unnsteinsson

Fyrstu kynni mín af manneskju sem ég tengdi við hjúkrun voru af ömmusystur minni Fríðu sem var hjúkrunarkona (eins og það var þá kallað) á Kleppsspítala. Hún var svo yndisleg manneskja, hlý, úrræðagóð, umhyggjusöm og æðrulaus. Snör var hún þó til allra ákvarðana og bjó yfir þeim sjaldgæfa mannlega eiginleika að geta „stýrt” án þess að nokkur fyndi fyrir því að hún væri að stjórna, að hún væri að skipta sér af flæði alheimsins. Hún starfaði án strits og krafðist engrar umbunar.

Eftir að hún hætti að vinna sem hjúkrunarkona man ég eftir því að hafa í ófá skiptin komið í heimsókn til hennar og þegið manneldisráð og ábendingar um heilsusamlegan lífstíl. Þetta var áður en undirritaður gerði tilraunir í gegnum alls kyns orð, eins og tíu geðorð og fjórtán lífsorð, að hafa áhrif á skilyrta og vandlega félagsmótaða vitund, hugsun og hegðun fólks á Íslandi. En flestir eru sammála um að það sé fátt erfiðara en að hafa áhrif á vitund, hugsun eða hegðun manna, í þessari röð, nema þá kannski að hafa áhrif á eigin vitund, hugsun og hegðun.

Í bók François-Marie Arouet, sem hann skrifaði undir pennanafninu Voltaire, Birtingi, segir frá ferðalagi Birtings, Kúnigúndar, ungrar ástar hans, og læriföðurins, prófessors Altúngu, um heiminn. Boðskapur bókarinnar snýst að stærstum hluta um gagnrýni á löghyggju 18. aldar. Að sögn Altúngu hefur verið sýnt fram á að hlutirnir geti ekki verið öðruvísi en þeir eru því að allt sé miðað við einn endi sem hljóti þar með að vera hinn allra besti endir. Það er því að hans mati skynsamleg regla á öllu sköpunarverkinu og vel það því guð hlýtur að hafa skapað hinn besta mögulega heim allra hugsanlegra heima, jafnvel þótt íbúar þessa heims komi ekki endilega alltaf auga á það. Við þurfum því ekkert að vera skipta okkur af flæði alheimsins.

Við sem áður hlýddum prestum, læknum, lögfræðingum og embættismönnum eigum nú aukinn rétt og hlustum á aðra áhrifavalda, fólk sem er jafningjar okkar, fólk sem hefur valdeflst og fundið boðskap sínum farveg í hinni rafmögnuðu tækni sem hefur gerbreytt og á margan hátt endurskilgreint samfélög okkar. Áhrifavaldar.
Við ættum því e.t.v. ekkert að reyna að hafa of mikil áhrif á aðra og láta fulltrúalýðræðinu eftir að hámarka almannaheill á kostnað frjáls vilja í gegnum lög og reglugerðir, leggja línur okkar mannlegu tilvistar í samfélaginu, treysta okkar kjörnu fulltrúum til að vita best. En einhvern veginn hefur það nú æxlast þannig að við treystum kjörnum fulltrúum okkar minna en áður, heimurinn hefur tæknivæðst hratt og einstaklingsrétturinn hefur vaxið og við sem notendur þjónustu viljum hafa áhrif á hana. Við sem áður hlýddum prestum, læknum, lögfræðingum og embættismönnum eigum nú aukinn rétt og hlustum á aðra áhrifavalda, fólk sem er jafningjar okkar, fólk sem hefur valdeflst og fundið boðskap sínum farveg í hinni rafmögnuðu tækni sem hefur gerbreytt og á margan hátt endurskilgreint samfélög okkar. Áhrifavaldar.

Hún setti fram sínar „Heilbrigðisreglur“ árið 1870, þá komin á miðjan aldur og að undirbúa ferð til Vesturheims eins og margir Íslendingar á þeim árum. Svo virðist sem aðrir hafi fylgt í kjölfarið með hugleiðingar um lýðheilsu Íslendinga því 1899 birti Bríet Bjarnhéðinsdóttir svipaðar „reglur“ í Kvennablaðinu. 
Mannleg tilvist getur á stundum verið snúin og mörgum árum eftir að ég kynntist Fríðu frænku, hjúkrunarkonunni sem kunni vel að meta lýsi og gróft brauð, komst ég á snoðir um aðra konu sem lagði sig fram um að hafa áhrif á vitund, hugsun og breytni samferðafólks síns, áhrifavald þess tíma. Þetta var Sigríður Jónsdóttir sem var langamma Fríðu og móðir Nonna og Manna. Hún setti fram sínar „Heilbrigðisreglur“ árið 1870, þá komin á miðjan aldur og að undirbúa ferð til Vesturheims eins og margir Íslendingar á þeim árum. Svo virðist sem aðrir hafi fylgt í kjölfarið með hugleiðingar um lýðheilsu Íslendinga því 1899 birti Bríet Bjarnhéðinsdóttir svipaðar „reglur“ í Kvennablaðinu.
Um leið og ég óska ykkur, þjónandi áhrifavöldum heilbrigðis, til hamingju með árin 100 langar mig að deila Heilbrigðisreglum Sigríðar með ykkur:

• Þvoðu þjer daglega um allan kroppinn úr köldu vatni og nuddaðu skinnið svo hiti hlaupi í og blóðið hlaupi útundir skinnið.
• Hafðu ullarföt við kroppinn og klæddu þig svo vel, að þjer verði ekki kalt.
• Borðaðu ekki mikinn mat-og aldrei á milli mál-tíða. Hafðu litla máltíð á kvöldin, og ekki feita.
• Hafðu hreifing daglega og fáðu þjer frískt lopt.
• Drekktu 1 bolla af kaffi eða thee, og ekki sterkt, með máltíð og drekktu vatn með, og endranær, þegar þig þistir. Það er holt.
• Hátta snemma á kvöldin og far snemma á fætur.
• Hafa ljett og þunn rúmföt, og undirsæng, að míkt sem grösug jörð.
• Ligg á hægri hlið, það er þægilegra fyrir magann.
• Snú höfðinu í norður (í rúminu). Segulstraumurinn frá norðri, verkar þá best á taugarafmagnsstrauminn.
• Birjaðu ekki andlega á reinslu fyrr en eptir 1 klukkustund frá því þú hefur borðað.
• Borðaðu mikinn kálmat, kálið er hollt.
• Borðaðu tóstað brauð, það er hollara, og drekktu vatn af tóstuðu brauði sem legið hefur nyðri í vatninu.


Góðar stundir,
Héðinn Unnsteinsson

Pistlar og viðtöl

Hjúkrun

Hreinlæti

Saga

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála