Mat hjúkrunarfræðinga á skurðlækningasviði Landspítala á eigin hæfni
Lýsandi þversniðsrannsókn
Brynja Ingadóttir, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og skurðlækningasviði Landspítala
Hrund Sch. Thorsteinsson, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og menntadeild Landspítala
Herdís Sveinsdóttir, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og skurðlækningasviði Landspítala
Katrín Blöndal, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og skurðlækningasviði Landspítala
Tilgangur. Heilbrigðisstarfsmenn, sem búa yfir tilskilinni hæfni, eru ein af undirstöðum farsællar starfsemi háskólasjúkrahúss enda tengist hæfni öryggi og afdrifum sjúklinga. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvernig hjúkrunarfræðingar á skurðlækningasviði Landspítala meta hæfni sína.
Aðferð. Rannsóknin er þversniðsrannsókn og gögnum var safnað árið 2016 með spurningalista. Hjúkrunarfræðingar á sviðinu voru beðnir að meta hæfni sína með nurse Competence Scale (nCS) sem
inniheldur 73 atriði og skiptist í 7 hæfniþætti (umönnun, kennslu og leiðbeinendahlutverk, greiningarhlutverk, stjórnun á aðstæðum, hjúkrunaríhlutanir, trygging gæða og starfshlutverk). Spurt var um
hæfni á kvarðanum 0 (mjög lítil hæfni) til 10 (mjög mikil hæfni) fyrir hvert atriði og hversu o það væri framkvæmt (1=mjög sjaldan, 2=öðru hverju, 3=mjög o, 0=á ekki við). gögn voru greind með
lýsandi tölfræði og ályktunartölfræði.
Niðurstöður. Þátttakendur (n=66) mátu hæfni sína að meðaltali 7,2 (sf 1,1), mesta í umönnunarhlutverki en minnsta í að tryggja gæði. Hjúkrunarfræðingar með framhaldsnám/viðbótarmenntun mátu
heildarhæfni sína marktækt meiri en aðrir í umönnunarhlutverki, starfshlutverki, kennslu- og leiðbeinendahlutverki og við hjúkrunaríhlutanir. Starfsaldur við hjúkrun hafði ekki áhrif á heildarhæfni en
aðhvarfsgreining sýndi að starfsaldur á deild og viðbótarnám skýrðu 14% af breytileika í hæfni. Í 22 atriðum af 73 mat yfir helmingur hjúkrunarfræðinga hæfni sína undir miðgildi allra þátttakenda og fólu þau atriði í sér meðal annars fræðslu til skjólstæðinga og samstarfsfólks, nýtingu hjúkrunarrannsókna og virka þátttöku í þróun hjúkrunar.
Ályktanir. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að framhaldsnám/viðbótarnám ásamt starfsaldri á deild hafi áhrif á hæfni hjúkrunarfræðinga á skurðlækningasviði. Mikilvægt er að hjúkrunarfræðingum sé gert kleift að mennta sig frekar. Auka þarf framboð á sérhæfðri þjálfun og fræðslu þar sem niðurstöður varðandi starfsaldur benda til að sérhæfing í hjúkrun hafi aukist. Kanna þarf
betur hvort hjúkrunarfræðingar fá nægilega krefjandi tækifæri í starfi og hvort stofnunin nýtir starfskrafta hjúkrunarfræðinga með viðbótarmenntun eins og best verður á kosið.
Lykilorð: Aðgerðasjúklingar, hæfni, hjúkrunarfræðingar, starfsþróun, símenntun, skurðaðgerð.
3.tbl. 2019: Mat hjúkrunarfræðinga á skurðlækningasviði Landspítala á eigin hæfni