Hjukrun.is-print-version

Sýkingar í kjölfar skurðaðgerða vegna krabbameins í ristli og endaþarmi

3. tbl. 2019
Ritrýnd grein: Birgir Örn Ólafsson og Ásta Thoroddsen

Birgir Örn Ólafsson, skurðhjúkrunarfræðingur á Landspítala
Ásta Thoroddsen, prófessor í hjúkrunarfræðideild HÍ

Tilgangur: Krabbamein í ristli og endaþarmi er þriðja algengasta krabbameinið á Íslandi hjá báðum kynjum. Skurðaðgerð er ein mikilvægasta meðferðin til lækningar á sjúkdómnum. Algengi sýkinga
eftir aðgerð er hægt að nota sem mælikvarða á árangur hjúkrunar. Í þessari rannsókn var kannað hve tíðar sýkingar voru eftir skurðaðgerðir á krabbameini í ristli og endaþarmi á Landspítala en það var ekki þekkt. Jafnframt var kannað hve alvarlegar slíkar sýkingar voru.

Aðferð: Gerð var framsýn, lýsandi rannsókn. Kannað var hvort sjúklingar sem fóru í skurðaðgerð vegna krabbameins á ristli eða endaþarmi á skurðdeild Landspítala frá 15. mars 2015 til 15. september
2015 fengu sýkingar innan 30 daga í kjölfar aðgerðarinnar. Þátttakendur í rannsókninni voru 70 sjúklingar. Upplýsingum var safnað með viðtölum við þátttakendur og úr sjúkraskrám. Öll einkenni sýk -
inga sem þörfnuðust meðferðar voru metin sem fylgikvillar. Þær sýkingar sem upp komu voru flokkaðar samkvæmt flokkun Clavien-Dindo þar sem veitt meðferð við sýkingunum ræður flokkuninni.

Niðurstöður: Sýkingu fengu 44,3% sjúklinga (31/70). Þvagfærasýking var algengust (24,5%), kviðarholssýking varð hjá 18,6% og sárasýking hjá 14,3%. Sýkingu í blóð fengu 8,6%. aðrar sýkingar sem upp komu voru: Munnsýkingar, lungnabólga, sýking í stóma og sýking af vankó mýcín-ónæmum enterókokkum (VÓE). Dánartíðni vegna sýkinga var 1,4% (n=1).

Ályktanir: Sýkingar eftir aðgerð vegna krabbameins í ristli eða endaþarmi eru tíðar miðað við sambærilegar aðgerðir í nágrannalöndum. Sérstök nauðsyn er á að yfirfara verklag við notkun og meðhöndlun þvagleggja. Þessi niðurstaða undirstrikar einnig nauðsyn þess að hafa framsýna skráningu á sýkingum eftir skurðaðgerðir svo hægt sé að meta gæði og árangur hjúkrunar.

Lykilorð: Skurðhjúkrun, skurðaðgerð, sýking, ristill, endaþarmur.

3. tbl. 2019: Sýkingar í kjölfar skurðaðgerða vegna krabbameins í ristli og endaþarmi

 

 

Fagið

Ritrýnd grein

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála