Áhættuþættir og sjálfsumönnun einstaklinga með kransæðasjúkdóm
Margrét Hrönn Svavarsdóttir, hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri
Kristín Guðný Sæmundsdóttir, heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
Brynja Ingadóttir, hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Landspítala
Tilgangur:
Góð sjálfsumönnun getur dregið úr lífsstílstengdum áhættuþáttum og hægt á framgangi kransæðasjúkdóms. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna stöðu áhættuþátta meðal einstaklinga með kransæðasjúkdóm, sjálfsumönnun þeirra og trú á eigin getu.
Aðferð:
Þversniðsrannsókn þar sem þátttakendur voru einstaklingar sem lögðust inn á Landspítala eða Sjúkrahúsið á Akureyri vegna kransæðasjúkdóms. gögnum um áhættuþætti, sjúkdómstengda þekkingu og bakgrunn var safnað við útskrift, með spurningalistum, mælingum og úr sjúkraskrá. Sjálfsumönnun var metin með „SelfCare of Coronary heart Disease inventory“(SC-ChDi) mælitækinu sem metur viðhald heilbrigðis, stjórnun sjálfsumönnunar og trú á eigin getu til sjálfsumönnunar (stig 0–100 fyrir hvern þátt, fleiri stig gefa til kynna betri sjálfsumönnun). Við gagnaúrvinnslu var notuð lýsandi tölfræði og ályktunartölfræði.
Niðurstöður:
Þátttakendur í rannsókninni voru 445 (80% karlar), meðalaldur var 64,1 ár (sf 9,1). Tæplega helmingur hafði áður legið á sjúkrahúsi vegna kransæðasjúkdóms (45%) og 47% komu brátt á sjúkrahús. Tæplega helmingur þátttakenda var í ofþyngd, 42% með offitu, 20% með sykursýki og 18% reyktu. Einkenni kvíða höfðu 23% og einkenni þunglyndis 18% þátttakenda. Viðhald heilbrigðis mældist að meðaltali 61,6 (sf 15,4), stjórnun sjálfsumönnunar 53,5 (sf 18,5) og trú á eigin getu 52,3 (sf 22,9). Viðhald heilbrigðis mældist betra
hjá konum, þeim sem bjuggu með öðrum, þeim sem höfðu áður lagst inn á sjúkrahús vegna kransæðasjúkdóms og þeim sem höfðu betri sjúkdómstengda þekkingu (r2 = 0,149, p < 0,01). Stjórnun sjálfsumönnunar mældist betri hjá þeim sem höfðu áður lagst inn á sjúkrahús vegna kransæðasjúkdóms(r2 = 0,018, p < 0,01). Trú á eigin getu var meiri hjá þeim sem voru yngri, með minni einkenni þunglyndis og meiri sjúkdómstengda þekkingu (r2 = 0,086, p < 0,01).
Ályktanir:
Sjálfsumönnun kransæðasjúklinga er ábótavant og staða áhættuþátta alvarleg. Einstaklingshæfður stuðningur og fræðsla eftir útskrift gætu eflt sjálfsumönnun og trú á eigin getu og þannig stuðlað að betri stöðu áhættuþátta.
Lykilorð:
Áhættuþættir, kransæðasjúkdómur, sjálfsumönnun, sjúklingafræðsla, trú á eigin getu.
1. tbl. 2020: Áhættuþættir og sjálfsumönnun einstaklinga með kransæðasjúkdóm: Þversniðsrannsókn